2016-10-27 20:47:04 CEST

2016-10-27 20:47:04 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Hagar hf. - Ársreikningur

Hagar hf. - árshlutauppgjör Q2 // mars - ágúst 2016


Árshlutareikningur Haga hf. fyrir annan ársfjórðung 2016/17 var samþykktur af
stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 27. október 2016.
Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2016 til 31. ágúst 2016.
Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga
þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS).
Reikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins, KPMG ehf. 



Helstu upplýsingar

  -- Hagnaður tímabilsins nam 2.161 millj. kr. eða 5,3% af veltu.
  -- Vörusala tímabilsins nam 40.712 millj. kr.
  -- Framlegð tímabilsins var 24,6%.
  -- Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 3.180
     millj. kr.
  -- Heildareignir samstæðunnar námu 30.220 millj. kr. í lok tímabilsins.
  -- Handbært fé félagsins nam 3.316 millj. kr. í lok tímabilsins.
  -- Eigið fé félagsins nam 16.537 millj. kr. í lok tímabilsins.
  -- Eiginfjárhlutfall var 54,7% í lok tímabilsins.



Söluvöxtur félagsins var 6,0% á tímabilinu

Vörusala tímabilsins nam 40.712 milljónum króna, samanborið við 38.390
milljónir króna árið áður. Söluvöxtur félagsins er því 6,0% á tímabilinu.
Hækkun 6 mánaða meðaltals vísitölu neysluverðs milli rekstrarára var 1,41% en
vísitalan án húsnæðis lækkaði um 0,15%. Framlegð félagsins var 10.035 milljónir
króna, samanborið við 9.332 milljónir króna árið áður eða 24,6% framlegð
samanborið við 24,3% á fyrra ári. Rekstrarkostnaður í heild hækkar um 413
milljónir króna eða 6,3% milli ára en kostnaðarhlutfallið stendur í stað í
17,1%. 

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 3.180 milljónum
króna, samanborið við 2.868 milljónir króna árið áður. EBITDA framlegð var
7,8%, samanborið við 7,5% árið áður. 

Hagnaður tímabilsins fyrir skatta nam 2.701 milljónum króna, samanborið við
2.482 milljónir króna árið áður. Hagnaður eftir skatta nam 2.161 milljónum
króna á tímabilinu, sem jafngildir 5,3% af veltu en hagnaður eftir skatta á
fyrra ári var 1.986 milljónir. 

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 30.220 milljónum króna.
Fastafjármunir voru 16.745 milljónir króna og veltufjármunir 13.475 milljónir
króna. Þar af eru birgðir 4.885 milljónir króna en birgðir voru 4.924 milljónir
króna ári áður. 

Eigið fé félagsins var 16.537 milljónir króna í lok tímabilsins og
eiginfjárhlutfall 54,7%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 13.683 milljónir
króna, þar af voru langtímaskuldir 3.843 milljón króna. 

Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 2.398 milljónum króna, samanborið við
2.815 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 521
milljónir króna. Fjármögnunar-hreyfingar tímabilsins voru 2.371 milljónir króna
og þar af voru 1.992 milljónir króna vegna arðgreiðslu í júní sl. Handbært fé í
lok tímabilsins var 3.316 milljónir króna, samanborið við 2.478 milljónir króna
árið áður. 



Staðan og framtíðarhorfur

Fyrstu 6 mánuðir rekstrarársins hafa farið vel af stað og hefur hagnaður aukist
milli ára en áætlanir gerðu ráð fyrir svipuðum hagnaði. Horfur næstu mánaða eru
í takti við áætlanir, sem gera ráð fyrir sambærilegri niðurstöðu og á fyrra
ári. 

Í september sl. var tilkynnt að samningar hefðu náðst við
kleinuhringjaframleiðandann Krispy Kreme en kaffihús verður opnað í Hagkaup í
Smáralind þann 5. nóvember nk. Þann dag mun einnig ný og endurbætt verslun
fyrirtækisins opna.  Verslun Hagkaups í Smáralind hefur verið lokuð frá lok
ágústmánaðar.  Auk þess hefur matvöruhluta Hagkaups verið lokað í Holtagörðum,
en þar er nú starfræktur Outletmarkaður. 

Þann 5. nóvember mun Útilíf opna nýja og glæsilega verslun í austurenda
Smáralindar. Nýja verslunin verður tæplega 1.200 fm. að stærð en með
versluninni sameinast starfsemi tveggja verslana Útilífs, þ.e. þeirrar
verslunar sem starfrækt hefur verið í Smáralind og verslunarinnar í Glæsibæ sem
lokar í byrjun nóvember. 

Í september sl. var tilkynnt um framkvæmd endurkaupaáætlunar félagsins en
framkvæmdin er í höndum Arctica Finance hf. Endurkaupin munu í heild sinni að
hámarki nema 20.000.000 hlutum, þó þannig að fjárhæðin verði aldrei hærri en
1.000 milljónir króna. Að lokinni viku 42 hefur félagið keypt samtals
12.212.104 hluti og er kaupverðið samtals 634 millj. kr. 

Verslanir Bónus og Hagkaups hafa á árinu skilað tæplega 100 milljónum króna til
viðskiptavina sinna í formi lægra vöruverðs í kjölfar dóms Hæstaréttar um
ólögmæta gjaldtöku ríkissjóðs á innfluttum landbúnaðarvörum.  Viðskiptavinir
félagsins munu áfram njóta lægra verðs á vörum sem dómurinn nær til, þar til
allri upphæðinni hefur verið skilað í formi lægra vöruverðs. 



Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn á skrifstofu
Haga, 3. hæð í Smáralind í Kópavogi, föstudaginn 28. október kl. 8:30 en þar
mun Finnur Árnason forstjóri Haga kynna afkomu félagsins og svara spurningum
ásamt stjórnendum félagsins. 

Kynningarefni, ásamt upptöku af fundinum, verður aðgengilegt að honum loknum á
heimasíðu Haga, www.hagar.is. 



Fjárhagsdagatal 2016/17

3. ársfjórðungur (1. mars – 30. nóvember): 12. janúar 2017

4. ársfjórðungur (1. mars – 28. feb): 15. maí 2017



Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.