|
|||
2024-07-24 11:13:53 CEST 2024-07-24 11:13:53 CEST REGULATED INFORMATION Heimar hf. - Breyting á stjórn/framkvæmdastjórn/endurskoðendumHeimar hf.: Nýr framkvæmdastjóri fjármála HeimaBjörn Eyþór Benediktsson, forstöðumaður upplýsinga og greininga hjá Heimum, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármála Heima frá og með 1. september næstkomandi. Rósa Guðmundsdóttir, fráfarandi fjármálastjóri Heima hf. hefur óskað eftir því að láta af störfum. Rósa hefur gegnt starfi fjármálastjóra Heima hf. frá árinu 2021 og átt drjúgan þátt í farsælli uppbyggingu félagsins. Eyþór hefur starfað hjá Heimum frá árinu 2014. Hann er með meistaragráðu í reikningshaldi og endurskoðun (Macc) frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í fjármálahagfræði frá Háskóla Íslands. Þá hefur Eyþór lokið B.Sc. gráðu í umhverfis- og byggingarverkfræði og sveinsprófi í húsasmíði. Eyþór hefur verið í lykilhlutverki innan félagsins síðustu ár þar sem hann hefur leitt greiningar og mat á innri og ytri fjárfestingaverkefnum félagsins, átt þátt í stefnumótun Heima og hefur komið með virkum hætti að undirbúningi og miðlun fjárhagslegra uppgjöra félagsins. Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima: „Ég vil þakka Rósu kærlega fyrir samstarfið og framúrskarandi framlag til uppbyggingar Heima. Það verður eftirsjá af henni og við óskum henni velfarnaðar í sínum framtíðarstörfum. Að sama skapi erum við afar ánægð með að fá Eyþór í nýtt hlutverk innan félagsins. Hann hefur verið lykilmaður hjá stjórnendateymi félagsins þar sem hann hefur komið að öllum stærri fjárfestingarverkefnum okkar síðustu ár og hefur leitt miðlun upplýsinga um þau til helstu haghafa. Hann er afar sterkur fjármálamaður en nýtur þess einnig að hafa breiðan bakgrunn með menntun í byggingaverkfræði og sveinspróf í húsasmíði. Það eru fáir sem búa yfir jafn mikilli innsýn og reynslu á þessum markaði og ég hlakka til að vinna með honum í nýju hlutverki.“ Heimar eru leiðandi fasteignafélag á Íslandi. Áhersla félagsins er á þétta kjarna þar sem fólk getur lifað, leikið og starfað. Fjölbreytt eignasafn Heima er innan eftirsóttra borgarkjarna með aðlaðandi umhverfi og blöndu af atvinnustarfsemi, þjónustu, búsetu og afþreyingu. Dæmi um þetta eru eignir félagsins í Smáralind, Hafnartorgi, Höfðatorgi, Garðatorgi, Egilshöll og Borgarhöfðinn sem nú er í hraðri uppbyggingu. Félagið hefur markað sér stefnu um skýra aðgreiningu á markaði og sækir nú fram undir nýju nafni og merki Heima. Nánari upplýsingar veitir Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima hf., sími: 821 0001 Viðhengi |
|||
|