2010-04-07 19:23:00 CEST

2010-04-12 13:08:17 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Reykjanesbær - Ársreikningur

Ársreikningur 2009


Endurskoðaður ársreikningur Reykjanesbæjar var lagður fram í bæjarstjórn í gær. 
Samkvæmt ársreikningnum skilaði bæjarsjóður Reykjanesbæjar  7,7 milljarða kr.
hagnaði árið 2009. 
 
Eignir bæjarsjóðs um áramót voru 24,2 milljarðar kr. Skuldir og skuldbindingar
voru 14,1 milljarður kr. 
 
Eiginfjárhlutfall bæjarsjóðs var 41,8%, 

Rekstrargjöld bæjarsjóðs voru 186 milljónum kr. undir áætlun, 8,1 milljarður
kr.  Þrátt fyrir þetta hefur aukinn kostnaður í efnahagshruninu vegna 
niðurgreiðslu og félagslegrar aðstoðar aukist um 450 milljónir kr. s.l. 2 ár. 

Rekstrartekjur fyrir fjármagnstekjur voru tæplega 7 milljarðar kr.  og voru 138
milljónum kr. undir áætlun. 

Rekstrarhagnaður samstæðu nam 6,3 milljörðum kr. Eignir samstæðu námu  rúmlega
40 milljörðum kr. Skuldir og skuldbindingar voru 29,2 milljarðar kr.
Eiginfjárhlutfall samstæðu var 27%  Niðurstaða samstæðu fyrir fjármagnsliði var
tæplega 385 milljónum kr. hagstæðari en áætlað var. 

Reykjanesbær hefur ákveðið að greiða upp annað tveggja erlendra lána að upphæð
kr. 254 milljónir kr. 

Varfærnissjónarmiða er gætt í eignfærslu eins og fram kemur í skýringum með
ársreikningi. 

Þrátt fyrir mjög jákvæðar vísbendingar í ársreikningi er vandi bæjarins enn
lágar tekjur af útsvari og hefðbundnar rekstrartekjur því  undir
rekstrarútgjöldum.  Veltufjárhlutfall var 0,7 sem sýnir hæfi sveitarfélagsins
til að inna af hendi nauðsynlegar greiðslur næstu tólf mánuði, sem bendir til
lántöku eða annarra ráðstafana. Sýnt hefur verið fram á í úttekt
Ráðgjafarfyrirtækisins Capacent frá febrúar s.l. og í eigin mati bæjaryfirvalda
að fyrirhugaðar atvinnuframkvæmdir á ýmsum sviðum, sem eru komnar til
framkvæmda, munu skila rekstrarhagnaði fyrir fjármagnsliði innan þriggja ára og
því m.a. til styrkingar á veltufjárhlutfalli. 

Nánar:

Eignir standa undir skuldbindingum

Vegna nýlegrar  umræðu um færslu skuldbindinga  af leigðum eignum til næstu 30
ára, sem skulda, skal tekið fram að skuldbindingar Reykjanesbæjar vegna
greiðslu fyrir húsnæðisafnot til eigin félags, EFF, eru 8,8 milljarðar kr. á
næstu 30 árum, miðað við núverandi leigu en 12 milljarðar m.v. upphaflegan
samning.  Eignir á móti skuldbindingu,  sem Reykjanesbær nýtir, eru hins vegar
bókfærðar hjá EFF á tæplega 16 milljarða kr. en skuldir að baki þessum eignum 
hjá EFF nema um 13,4 milljörðum kr.  Þetta kemur fram í skýringum ársreiknings. 

Verulega dregið  úr mati á virði eigna vegna varfærnissjónarmiða.

Þrátt fyrir góða eignastöðu í ársreikningi gæti hún verið mun sterkari ef
tillit væri tekið til virðis ýmissa eigna sem enn eru ekki metnar eða lágt
metnar í efnahagsreikningi. 

1.  Skuldabréf sem er eign Reykjanesbæjar vegna viðskipta með hluti í HS orku
    tekur að hluta til vexti eftir þróun álverðs, sem var mjög hagstætt  á
    síðasta ári. Uppreiknað verðmæti skuldabréfsins um síðustu áramót  var 7,2
    milljarðar kr. Til að gæta varfærnissjónarmiða  er núvirði skuldabréfsins
    reiknað og fært niður í kr. 5,7 milljarða kr.  sem þannig er skráð í
    ársreikning. 

2.  Hið nýja athafnasvæði  að Ásbrú, í Reykjanesbæ,  með yfir 2000 íbúðum og
    hundruðum bygginga til atvinnusköpunar, hefur ekki verið fært til eigna í
    bókum  bæjarins, þrátt fyrir gjaldfærðan kostnað við endurbætur svæðisins. 
    Metið eignavirði gatnakerfis og lagna er 2,9 milljarðar kr.
 
3.  Þá hafa eignir Fasteigna Reykjanesbæjar, s.s. félagslegt húsnæði, ekki verið
    færðar frá bókfærðu verði til fasteignamats  eða markaðsvirðis, líkt og gert
    hefur verið í nokkrum öðrum sveitarfélögum. Væri fasteignamat notað myndi
    það þýða 1 milljarðs kr. skráða virðisaukningu í eignum. 

4.  Lóðir og hafnarmannvirki í Helguvík eru heldur ekki færð til fasteignavirðis
    eða markaðsvirðis hjá Reykjaneshöfn, heldur miðað við lágt bókfært virði.
    Óúthlutaðar, tilbúnar lóðir í Helguvík eru að verðmæti 4,0 milljarðar kr.,
    sem nemur 80% af skuldum Reykjaneshafnar. Þá  er  ekki  framreiknuð til
    tekna lóðarleiga, fasteignagjöld og tekjur af höfninni sjálfri vegna
    útflutnings og innflutnings frá  álveri og annarri framtíðarstarfsemi. 

5.  Lönd og lóðir í eigu Reykjanesbæjar hafa  ekki verið  færðar til eignar í
    efnahagsreikningi. 

Staðan framundan styrkist

Miðað við þau fjölmörgu vel launuðu atvinnuverkefni sem unnið hefur verið að í
Reykjanesbæ og eru að fara af stað, bendir flest til að rekstrartekjur verði
komnar vel yfir rekstrargjöld árinu 2011. Ráðgjafarfyrirtækið Capacent vann
skýrslu í febrúar s.l sem gerir ráð fyrir 5 milljarða kr. tekjuaukningu á næstu
4 árum, sem þýðir verulegan hagnað af rekstri innan þriggja ára. Áætlanir
Reykjanesbæjar gera ráð fyrir 1,5 milljarða kr. tekjuaukningu á sama tíma og að
rekstrarhagnaður verði nokkur á þriðja ári. 

Samkvæmt  niðurstöðu ársreiknings Reykjanesbæjar getur bærinn  enn tekið á sig
umtalsverð áföll, sem þó er afar ólíklegt að reyni á vegna þeirra tekna sem
væntanlegar  eru í bæjarsjóð á  næstunni.