2014-10-23 18:07:04 CEST

2014-10-23 18:08:05 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Eimskipafélag Íslands hf. - Fyrirtækjafréttir

Fréttatilkynning frá Eimskipafélagi Íslands hf.


Athugunarmerki Kauphallar Íslands

Í ljósi þess að Kauphöll Íslands hefur athugunarmerkt hlutabréf Eimskipafélags
Íslands, vegna leka á gögnum til fréttaskýringaþáttarins Kastljóss er tengjast
rannsókn Samkeppniseftirlitsins, vill félagið koma eftirfarandi á framfæri
m.v.t greinar 2.4 í reglum Kauphallarinnar fyrir útgefendur. 



Upplýsingaleki

Leki á rannsóknargögnunum, og fjölmiðlaumræða í kjölfar hans, hefur nú þegar
valdið hluthöfum félagsins tjóni. Þá hefur lekinn skaðað ímynd félagsins bæði
hérlendis og erlendis. 

Leki á trúnaðargögnum skráðra félaga varðar við lög um verðbréfaviðskipti.
Eimskipafélagið hefur nú óskað eftir því við Kauphöll Íslands og
Fjármálaeftirlitið að skoðuð verði viðskipti með bréf félagsins á þeim tíma sem
það hefur verið til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu. Jafnframt hefur félagið
kært lekann til lögreglu. 

Eins og fram hefur komið hefur félagið ítrekað óskað eftir afriti af
húsleitarbeiðni Samkeppniseftirlitsins, frá 9. september 2013, ásamt
fylgiskjölum, m.a. með kærum til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. 

Af umfjöllun Kastljóss má ráða að starfsmenn Kastljóss séu með kæru
Samkeppniseftirlitsins til Sérstaks saksóknara undir höndum. Eimskip hefur þau
gögn eðlilega ekki undir höndum þar sem rannsókn Samkeppniseftirlitsins er
ólokið. Hins vegar hefur félagið í kjölfar umræðunnar óskað eftir afriti af
þeim gögnum sem Kastljós hefur undir höndum. 



Málsatvik

Þann 10. september 2013 tilkynnti Eimskip að Samkeppniseftirlitinu hefði verið
veitt heimild til húsleitar á starfstöðvum Eimskipafélags Íslands hf. og hjá
dótturfélögunum Eimskip Ísland ehf. og TVG Zimsen ehf. Fram kom að húsleitin
væri gerð vegna rannsóknar á ætluðum brotum á 10. og 11. gr. samkeppnislaga.Þann sama dag óskaði félagið eftir afriti af  húsleitarbeiðninni ásamt
fylgiskjölum. Þeirri beiðni var hafnað af Samkeppniseftirlitinu. 

Rétt er að geta þess að ákvæði 10. gr. samkeppnislaga hefur að geyma bann við
samráði keppinauta. Brot gegn 10. gr. getur varðað við ábyrgð fyrirtækja og
einstaklinga skv. 37. og 41. gr. a. samkeppnislaga. Af því leiðir að þáttur
einstaklinga hlýtur að koma til skoðunar í tengslum við rannsókn á meintum
brotum gegn 10. gr. Hins vegar varða ákvæði 11. gr. samkeppnislaga við
misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Brot gegn 11. gr. varðar eingöngu við ábyrgð
fyrirtækja, skv. 37. gr. samkeppnislaga. Þáttur einstaklinga kemur því ekki til
skoðunar við rannsókn á meintum brotum gegn 11. gr. 

Þann 6. janúar 2014 tilkynnti Eimskip að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefði 
ógilt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að synja Eimskip aðgangi að umbeðnum
gögnum málsins og lagði fyrir eftirlitið að taka á ný afstöðu til beiðnar
félagsins um aðgang að gögnunum. 


Þann 3. júní 2014 tilkynnti Eimskip að Samkeppniseftirlitið hefði aflað frekari
gagna hjá félaginu á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur. Fram kom að
beiðnin tengdist beiðni Samkeppniseftirlitsins frá 10. september 2013. Á sama
tíma afhenti Samkeppniseftirlitið húsleitarbeiðni ásamt fylgiskjali í samræmi
við úrskurð áfrýjunarnefndar. Í gögnunum sem voru afhent voru helstu
upplýsingar afmáðar og vörpuðu því ekki frekara ljós á tildrög rannsóknarinnar.
Vegna þeirra takmörkuðu upplýsinga sem Samkeppniseftirlitið veitti þann 3. júní
sl. kærði félagið afhendingu hinna afmáðu gagna til áfrýjunarnefndar
samkeppnismála. 

Samkeppniseftirlitið upplýsti félagið jafnframt um að það hefði talið sér skylt
að beina kæru formlega til Sérstaks saksóknara. Hafi það verið gert með bréfi
21. mars 2014. Við upphaf húsleitar þann 3. júní sl. óskaði félagið eftir
upplýsingum um þá einstaklinga sem um ræðir og var þeirri beiðni hafnað.
Félagið hafði því ekki forsendur til þess að leggja mat á og tilkynna um kæru
eftirlitsins til Sérstaks saksóknara, umfram það sem fólst í tilkynningu
félagsins þann 10. september 2013. Þær upplýsingar sem félaginu  bárust þann 3.
júní sl. bættu því engu við um það sem áður hafði verið tilkynnt, þ.e. að meint
brot á ákvæðum 10. og 11. gr. samkeppnislaga væru til rannsóknar, sem getur
eins og áður segir varðað við ábyrgð einstaklinga og félagsins. 

Þann 30. september sl. tilkynnti félagið að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefði
fellt úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 3. júní sl. að hluta og lagt
fyrir eftirlitið að afhenda félaginu hluta umbeðinna gagna innan tveggja vikna.
Félaginu bárust gögnin þann 8. október sl. og vörpuðu þau ekki frekara ljósi á
grundvöll málsins. Rétt er að geta þess að enn er hluti gagnanna afmáður. 

Í Kastljósi RÚV þann 14. október sl. var fjallað um rannsókn
Samkeppniseftirlitisins á meintum brotum Eimskips á 10. og 11. gr.
samkeppnislaga. Í umfjöllunni var vísað í tiltekin rannsóknargögn
Samkeppniseftirlitisins. Í umfjölluninni var fullyrt að Samkeppniseftirlitið
hefði kært forstjóra og ótilgreinda starfsmenn félagsins til Sérstaks
saksóknara fyrir meint brot á 10. gr. samkeppnislaga. 

Eimskip birti fréttatilkynningu að kvöldi 14. október sl. þar sem fram kom að í
umfjöllun RÚV væri vísað til kæru Samkeppniseftirlitsins til Sérstaks
saksóknara. Jafnframt upplýsti félagið að það hefði kæruna ekki undir höndum og
gæti því hvorki upplýst um efni hennar, né að hvaða einstaklingum hún beinist.
Þá sagði að ljóst mætti vera af umfjöllun RÚV að fjölmiðillinn væri með mun
ítarlegri upplýsingar um rannsókn málsins en félagið sjálft. 



Staða rannsóknarinnar

Þann 15. október 2014 birti Samkeppniseftirlitið yfirlýsingu á heimasíðu sinni
þar sem m.a. segir orðrétt: 

„Samkeppniseftirlitið mun ekki verða við beiðnum fjölmiðla um aðgang að gögnum
málsins. Jafnframt er eftirlitið ekki reiðubúið að staðfesta þá umfjöllun sem
fram kom í Kastljósi í gærkvöldi. Þá skal sérstaklega tekið fram að rannsókn
málsins er ekki komin á það stig að unnt sé að slá neinu föstu um niðurstöður
hennar. Rannsókninni miðar vel en mikil vinna er óunnin við greiningu gagna og
vísbendinga.“ 

Í Morgunblaðinu þann 17. október sl. er fjallað um rannsókn
Samkeppniseftirlitsins á ætluðum samkeppnislagabrotum skipafélaga. Þar er m.a.
haft eftir Ólafi Haukssyni, sérstökum saksóknara: 

„Rannsókn í þessu tiltekna máli er ekki hafin hjá okkur. Almennt get ég sagt,
að þegar okkur berast kærur, þá setjum við þær í svokallaða greiningu, sem snýr
þá að því hvort rétt sé að hefja rannsókn, eða ekki vegna þess að það eitt og
sér getur verið íþyngjandi fyrir þá sem kæran beinist að. Þegar greiningin
liggur fyrir, þá er annaðhvort metið hvort málið sé brýnt og þurfi strax að
hefja rannsókn, eða hvort málið þoli bið, eða verði jafnvel vísað frá. Það er í
raun ekki fyrr en búið er að úthluta máli inn í rannsóknarhóp, sem eiginleg
rannsókn hefst, ef hún á annað borð hefst. Í tilfelli kærunnar frá
Samkeppniseftirlitinu hefur málinu ekki verið úthlutað í rannsóknarhóp.“ 

Með hliðsjón af fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins og þess sem haft er
eftir Sérstökum saksóknara er ljóst að umfjöllun Kastljóss er ótímabær og til
þess fallin að villa um fyrir almenningi. Samkeppniseftirlitið kveður rannsókn
málsins ekki vera komna á það stig að unnt sé að slá neinu föstu um niðurstöður
hennar. Þá hefur Sérstakur saksóknari staðfest að rannsókn á málinu sé ekki
hafin hjá embættinu. 



Viðbrögð félagsins við lekanum

Félagið hefur farið ítarlega yfir öll gögn sem það hefur undir höndum. Sú
yfirferð hefur ekki varpað frekara ljósi á grundvöll málsins. Að mati félagsins
koma engar nýjar upplýsingar, umfram það sem áður hefur verið tilkynnt, fram í
umfjöllun Kastljóss, þ.e. að félagið sæti rannsókn vegna  meintra brota á 10.
og 11. gr. samkeppnislaga. Eins og áður segir felst það í rannsókn á mögulegum
brotum á 10. gr. samkeppnislaga að þáttur einstaklinga verði skoðaður. 

Eimskip upplýsti þann 16. október sl. að það hefði í framhaldi af leka
trúnaðargagna til Kastljóss ákveðið að grípa til eftirtalinna ráðstafana: 

  -- Senda Fjármálaeftirlitinu og Kauphöll Íslands ábendingu um möguleg lögbrot.
  -- Senda Samkeppniseftirlitinu og Sérstökum saksóknara bréf og krefjast þess
     að fá afhent gögn sem tengjast umfjöllun Kastljóss.
  -- Kæra leka á trúnaðargögnum málsins til lögreglu.

Alvarleiki lekans og umfjöllunar Kastljóss verður enn ljósari með ósk
Samkeppniseftirlitsins um opinbera rannsókn á málinu þann 17. október sl. Með
ósk sinni um rannsókn virðist Samkeppniseftirlitið telja að mögulegt sé að með
lekanum hafi verið brotið gegn þagnarskyldákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi
og skyldur starfsmanna ríkisins, ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem
og ákvæðum laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. 

Félagið mun, hér eftir sem hingað til, upplýsa almenning um framgang rannsóknar
Samkeppniseftirlitsins á meintum brotum félagsins um leið og þær liggja fyrir. 

Eimskipafélag Íslands hafnar með öllu ásökunum um að hafa gerst brotlegt gegn
ákvæðum samkeppnislaga. Þá er það von félagsins að rannsókn á því hvernig
áðurnefnd trúnaðargögn komust í hendur óviðkomandi upplýsist sem fyrst.