2024-05-29 17:57:56 CEST

2024-05-29 17:57:58 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Vátryggingafélag Íslands hf. - Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

SKAGI: Uppgjör 1. ársfjórðungs 2024 - Vátryggingafélag Íslands



Sterkur tekjuvöxtur á fyrsta ársfjórðungi
– og færumst nær langtímamarkmiðum

Uppgjör fyrsta ársfjórðungs (1F) 2024 hjá samstæðu Vátryggingafélags Íslands hf.

Helstu lykiltölur 1F 2024

Samstæðan

  • Hagnaður eftir skatta nam 136 m.kr. (1F 2023: 229 m.kr.).
  • Áframhaldandi tekjuvöxtur í tryggingastarfsemi og kostnaðarhlutfall lækkar í átt að markmiðum. Fjárfestingareignir skila góðum fjárfestingartekjum en fjármagnsliðir hækka milli ára sem skýrir  lægri afkomu í samanburði við fyrsta ársfjórðung á síðasta ári.
  • Hagnaður á hlut nam 0,07 kr. á tímabilinu.
  • Arðsemi eigin fjár var 2,6% á ársgrundvelli (1F 2023: 5,5%) og gjaldþol samstæðu er 1,42 í lok fjórðungsins að teknu tilliti til arðgreiðslu.

Tryggingastarfsemi

  • Tekjuvöxtur í tryggingastarfsemi með 9,9% vöxt milli ára (1F 2023: 6,9%).
  • Góður tekjuvöxtur í líf- og sjúkdómatryggingum, með 16,3% vexti milli ára.
  • Samsett hlutfall er 103,6% sem er umtalsverður bati frá fyrra ári (1F 2023: 110,5%).
  • Kostnaðarhlutfall fer lækkandi á fyrsta fjórðungi og nemur 20,9% (1F 2023: 24,1%).
  • Afkoma af vátryggingasamningum er neikvæð um 243 m.kr. (1F 2023: -649 m.kr. ).

Fjármálastarfsemi1

  • Hreinar tekjur í fjármálastarfsemi vaxa umtalsvert og námu 626 m.kr. (1F 2023: 281 m.kr.)
  • Eignir í stýringu (e. AuM) námu 121 mö.kr (1F 2023: 43 ma.kr.).
  • Afkoma í fjármálastarfsemi nam 90 m.kr. fyrir skatta

Fjárfestingar

  • Fjárfestingartekjur námu 946 m.kr. (1F 2023: 1.157 m.kr.), sem samsvarar 2,2% ávöxtun (1F 2023: 2,7%).
  • Fjármagnsliðir hækka umtalsvert milli ára og námu 379 m.kr. á fjórðungnum (1F 2023: 195 m.kr.)
  • Hreinar tekjur af fjárfestingum að frádregnum fjármagnsliðum nema 566 m.kr. (1F 2023: 962 m.kr.)


Haraldur Þórðarson, forstjóri samstæðu:

„Uppgjör fyrsta ársfjórðungs hjá samstæðunni er heilt yfir gott. Fjármála- og tryggingastarfsemi skiluðu afkomu umfram áætlanir og árið fer því vel af stað. Eftir viðsnúning í tryggingarekstrinum á síðasta ári sjáum við áframhaldandi jákvæða þróun inn í 2024 með góðum iðgjaldavexti og lækkandi kostnaði. Það er því góður gangur í tryggingastarfseminni með tæplega 10% tekjuvöxt á milli ára og ánægjulegt er að sjá metaukningu í sölu á líf- og sjúkdómatryggingum annan ársfjórðunginn í röð. Ávöxtun á eignasafni VÍS var 2,2%, sem er umfram viðmið. Tekjur af fjármálastarfsemi voru umfram áætlanir okkar sem er jákvætt í því árferði sem ríkir nú. Við sögðum nýlega frá því að Íslensk verðbréf muni bætast í hóp öflugra fyrirtækja í samstæðunni, að fengnu samþykki eftirlitsaðila, sem er í takt við yfirlýsta stefnu okkar um ytri vöxt á fjármálamarkaði. Við erum með skýra framtíðarsýn og erum í lykilstöðu til að vera virkur þátttakandi í frekari þróun á fjármálastarfsemi hér á landi.

Áframhaldandi vöxtur í sölu trygginga
Áfram er góður gangur í tryggingastarfseminni og frábært að sjá að viðsnúningurinn í rekstrinum er að raungerast. Framtíðarsýn VÍS er sú, að félagið sé fyrsta val viðskiptavina og því ánægjulegt að sjá að fleiri velji VÍS sem sitt tryggingafélag. Nú stendur til að opna þjónustuskrifstofu á Reykjanesi og mun starfsfólk okkar taka þar til starfa á næstu vikum. Við ætlum okkur að veita framúrskarandi þjónustu um allt land og erum spennt að opna nýja skrifstofu utan höfuðborgarsvæðisins.

Fyrsti fjórðungur jafnan tjónaþyngstur
Fyrsti ársfjórðungurinn í tryggingastarfsemi er jafnan tjónaþyngstur. Að þessu sinni var tíðin óvenju góð og engin stórtjón urðu hjá félaginu. Tjónakostnaður er í takt við áætlanir, kostnaðarhlutfall fer lækkandi í samræmi við markmið og tjónshlutfall lækkar milli ára. Fyrsti ársfjórðungur er jafnan tjónaþungur í ökutækjatjónum, og þrátt fyrir að afkoman í þeim sé betri en í fyrra, þá er hún undir viðmiðum. Samsett hlutfall fjórðungsins er 103,6% sem er í takt við áætlanir. Áfram er gert ráð fyrir að markmið um 95% samsett hlutfall fyrir árið 2024 náist.

Góð ávöxtun á eignasafni
Ávöxtun á eignasafni VÍS var 2,2%, sem er umfram viðmið sem og samanburðarfélög. Fjárfestingartekjur námu 946 m.kr. en með hækkandi vaxtastigi hækka fjármagnsliðir vátryggingaskuldar og annar fjármagnskostnaður umtalsvert milli ára og námu um 379 milljónum á fjórðungnum. Afkoma af fjárfestingum nam 517 milljónum króna eftir fjármagnsliði og rekstrarkostnað fjárfestinga.

Tekjur í fjármálastarfsemi umfram áætlanir
Tekjur af fjármálastarfsemi Fossa og SIV námu 626 milljónum og eru umfram áætlun á fjórðungnum. Eignir í stýringu (e. AuM) námu 121 milljarði króna. Góður taktur var á öllum tekjusviðum bankans og í samræmi við markmið um að byggja upp dreifðari tekjustoðir. Bankinn var söluráðgjafi í farsælum hlutafjáraukningum Amaroq Minerals og PLAY, auk þess að hafa umsjón með nokkrum skuldabréfa- og víxlaútgáfum, svo sem grænni skuldabréfaútgáfu Orkuveitu Reykjavíkur, skuldabréfaútgáfu fyrir Símann og víxlaútgáfu fyrir Haga. Mikilvægur áfangi náðist þegar bankinn gaf út sinn fyrsta skráða víxil í Kauphöll á grundvelli nýrrar grunnlýsingar bankans. Bankinn flutti svo höfuðstöðvar sínar í Ármúla þrjú í byrjun árs og nú er öll samstæðan undir sama þaki. Þetta var því sterkur fjórðungur hjá Fossum fjárfestingarbanka.

SIV tekur yfir rekstur á þremur sjóðum
Á fjórðungnum tók SIV eignastýring yfir reksturinn á þremur sjóðum sem áður voru hjá Glym eignastýringu. Stofnaður var nýr sjóður „SIV equities slhf.“ sem er hlutabréfasjóður með auknar heimildir til þess að fjárfesta í erlendum og íslenskum hlutabréfum. SIV er nú með tíu sjóði í rekstri sem nema um 26 milljörðum króna.

Kaupin mikilvægur áfangi
Kaupsamningar hafa nú verið undirritaðir við hluthafa Íslenskra verðbréfa um kaup á 98,07% hlutafjár í félaginu og nemur kaupverðið um 1,6 milljarði króna. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Samkeppniseftirlitsins. Eftir viðskiptin munu eignir í stýringu hjá samstæðunni nema um 220 milljörðum króna og við færumst því nær langtímamarkmiðum okkar um vöxt á fjármálamarkaði. Við höfum metnaðarfull markmið um vöxt á eignastýringamarkaði og kaupin eru mikilvægur áfangi í þeirri vegferð.“

Markmið ársins
Horfur fyrir rekstrarárið 2024, sem settar voru fram í upphafi árs, eru óbreyttar2:

  • Tryggingastarfsemi: Samsett hlutfall verði á bilinu 94% – 97%. Markmið <95%.
  • Fjármálastarfsemi: Hreinar fjármálatekjur3 nemi á bilinu 1.900 – 2.600 m.kr. Markmið >2.200 m.kr.
  • Fjárfestingartekjur: Áætluð ávöxtun fjárfestingareigna á árinu er 11% en það er byggt á forsendum miðað við vaxtastig í upphafi árs og fjárfestingarstefnu.4

Kynningarfundur

Kynningarfundur vegna uppgjörsins verður haldinn 30. maí, klukkan 8:30 í höfuðstöðvum félagsins í Ármúla 3, Reykjavík. Haraldur Þórðarson, forstjóri samstæðu, og Brynjar Þór Hreinsson, fjármálastjóri samstæðu, munu kynna uppgjörið. Hægt verður að fylgjast með fundinum í beinu streymi og nálgast má upptöku af honum á fjárfestasíðu félagsins. Þar verður einnig hægt að nálgast kynningarefni fundarins.   

Fjárhagsdagatal 
Annar ársfjórðungur ||28. ágúst 2024
Þriðji ársfjórðungur || 27. nóvember 2024
Ársuppgjör 2024 || 26. febrúar 2025

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri Skaga, í síma 660-5260 eða með netfanginu erla@skagi.is    


-----------

1 Samanburður við fyrra ár í fjármálastarfsemi byggir á rekstri Fossa árið 2023. SIV fékk ekki starfsleyfi fyrr en um mitt árið 2023.

2 Upplýst verður um afkomuhorfur í trygginga- og fjármálastarfsemi ef þær breytast frá þeim vikmörkum sem kynntar eru.

3 Hreinar fjármálatekjur eru allar tekjur Fossa Fjárfestingarbanka og SIV eignastýringar, þ.m.t. hreinar vaxta- og þóknanatekjur, fjármunatekjur þeirra og aðrar tekjur.

4 Um er að ræða áætlaða ávöxtun fjárfestingareigna VÍS. Ekki verður upplýst um frávik frá áætlaðri ávöxtun fjárfestingareigna. Félagið birtir upplýsingar um stærstu eignir í fjárfestingarstarfsemi í fjárfestakynningum ársfjórðungslega. Hafa skal í huga að heildarstærð fjárfestingarsafnsins getur hækkað og lækkað vegna verðbreytinga, arðgreiðslna, endurkaupa, tilfærslu á ráðstöfun fjármagns innan samstæðu o.fl.


Viðhengi