2009-08-06 18:19:50 CEST

2009-08-06 18:20:51 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel Food Systems hf. - Ársreikningur

Marel Food Systems kynnir afkomu annars ársfjórðungs 2009


Gott sjóðstreymi; hagræðingaraðgerðir stuðla að bættri afkomu 

- Heildartekjur á öðrum ársfjórðungi 2009 námu 132,0 milljónum evra (Q2 2008:
145,0 milljónir evra). 
- Tekjur af kjarnastarfsemi námu 107,2 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi
samanborið við 103,2 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi (Q2 2008 próforma:
143,2 milljónir evra). 
- Heildar EBITDA var 28,0 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi 2009 (Q2 2008:
16,4 milljónir). EBITDA af kjarnastarfsemi utan einskiptisliða var 12,2
milljónir evra (Q2 2008: 19,9 milljónir evra). 
- Heildar rekstrarhagnaður (EBIT) var 21,6 milljónir evra á ársfjórðungnum (Q2
2008: 11,1 milljónir evra). EBIT af kjarnastarfsemi utan einskiptisliða var 6,5
milljónir evra (Q2 2008: 15,1 milljónir evra). 
- Hagnaður eftir skatta var 17,3 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi 2009 (Q2
2008: 10,1 milljónir evra). 
- Nettó vaxtaberandi skuldir lækkuðu í 349,4 milljónir evra vegna sterks
sjóðstreymis frá rekstri, takmarkaðra fjárfestinga, sölu eigna utan
kjarnastarfsemi og aukningar hlutafjár. Meðallíftími skulda er um fjögur ár. 

Helstu niðurstöður fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2009

- Heildartekjur fyrstu sex mánuði ársins námu 262,3 milljónum evra (1H 2008:
219,0 milljónir evra). 
- Tekjur af kjarnastarfsemi námu 210,4 milljónum evra á fyrri helmingi ársins
(1H 2008: 283,7 milljónir evra). 
- Heildar EBITDA fyrir tímabilið var 28,8 milljónir evra (1H 2008: 21,4
milljónir evra). EBITDA af kjarnastarfsemi utan einskiptisliða var 14,6
milljónir evra (1H 2008: 38,3 milljónir evra). 
- Heildar rekstrarhagnaður (EBIT) var 15,8 milljónir á fyrri helmingi árs (1H
2008: 13,3 milljónir evra). EBIT af kjarnastarfsemi utan einskiptisliða var 3,3
milljónir evra (1H 2008: 28,5 milljónir evra). 


Theo Hoen, forstjóri:
„Við erum ánægð með bætta rekstrarafkomu á fjórðungnum. Sjóðstreymi hefur
aukist, uppbygging fjármögnunar hefur verið bætt og við höfum gengið frá
nokkrum stórum samningum við viðskiptavini okkar. Við reiknum með að
pantanastaða af kjarnastarfsemi, sem hefur nú aukist annan ársfjórðunginn í
röð, muni halda áfram að batna þó að einhverjar sveiflur kunni að verða milli
ársfjórðunga vegna áhrifa stærri verkefna. Við skilum rekstrarhagnaði og
fjárhagslegt umhverfi fyrirtækisins eru nú traustara í kjölfar
endurfjármögnunar skammtímaskulda. Við munum halda áfram að hagræða til að
styðja við bætta rekstrarafkomu. 

Mat okkar á langtímahorfum og undirliggjandi vexti í greininni er óbreytt. Við
stefnum að því að vaxa um minnst tvö prósent umfram meðalvöxt markaðarins. Við
erum fullviss um að fyrirtækið muni standa sterkara en áður þegar aðstæður á
mörkuðum lagast, sérstaklega vegna þeirra umfangsmiklu hagræðingaraðgerða sem
við höfum gripið til og hafa lækkað grunnkostnað fyrirtækisins til lengri tíma
litið. Þar að auki höfum við skerpt á stefnu fyrirtækisins. Prótínneysla heldur
áfram að aukast og viðskiptavinir okkar hagnast. Þeir treysta á að við þróum
þær vörur og kerfi sem gera þeim kleift að fanga vöxtinn á sem hagkvæmastan
hátt.“ 


Horfur 

Ástand á lykilmörkuðum Marel þokast til betri vegar.

• Pantanastaða hefur bæst um 17% milli ársfjórðunga og var gengið frá nokkrum
stórum pöntunum á ársfjórðungnum. Engu að síður er staðan enn undir viðmiðum
frá árinu 2008. Pantanir skila sér í tekjum á 2 - 6 mánuðum. 
• Aukningin endurspeglar sterka stöðu Marel sem leiðandi fyrirtækis á markaði,
sem og hagstæðar breytingar á neysluvenjum og bætt rekstrarumhverfi
viðskiptavina. 

Aukin virkni er í öllum undirgreinum.

• Fiskiðnaðurinn er vaxandi og horfa framleiðendur í auknum mæli til
fjárfestinga í nýjum verksmiðjum og tækjabúnaði. 
• Skýrustu merkin um bata er að finna í kjúklingaiðnaði og er reiknað með að
pöntunum muni fjölga á næstunni. 
• Í kjötiðnaði eru nú fyrstu batamerki að koma fram á mörgum mörkuðum og er
áhugi á háþróuðum vinnslukerfum að aukast. 
• Framleiðendur sem sérhæfa sig í frekari vinnslu hafa hagnast mest á breyttum
neysluvenjum. 

Markaðir

Það eru vísbendingar um hægfara en stigvaxandi bata á helstu mörkuðum Marel.
Pantanastaða af kjarnastarfsemi fyrirtækisins heldur áfram að batna og hefur
aukist um 17% milli fyrsta og annars ársfjórðungs. Almennt séð virðist ástand á
mörkuðum í Evrópu og Norður-Ameríku vera að lagast þó að hraði batans sé mjög
mismunandi eftir löndum. Engu að síður markast starfsemi fyrirtækisins enn
talsvert af áhrifum fjármálakreppunnar, einkum og sér í lagi er varðar sölu
stórra kerfa sem stendur að jafnaði undir þriðjungi tekna Marel. Aftur á móti
gengur viðskiptavinum Marel almennt vel og skilar rekstur þeirra hagnaði. Við
höfum fulla trú á að uppsöfnuð fjárfestingaþörf muni hafa myndast þegar
markaðsaðstæður batna. 

Bætt pantanastaða á ársfjórðungnum endurspeglar styrk Marel sem fyrirtækis í
fremstu röð, sem og hagstæðar breytingar á neysluvenjum fólks. Neytendur sækja
síður dýrari veitingahús og kjósa þess í stað að versla við skyndibitastaði eða
kaupa ódýrari tilbúna rétti í matvöruverslunum. Fyrirtæki sem sinna þessum
markaði hagnast og það gera líka viðskiptavinir Marel Food Systems,
matvælaframleiðendur sem sjá þessum aðilum fyrir vöru. Framleiðendur keyra
framleiðslulínur sínar á sama hraða og undir venjulegum kringumstæðum og fyrir
vikið hefur efnahagslægðin ekki  haft nein áhrif á sölu varahluta og þjónustu
hjá Marel, sem stendur að jafnaði undir þriðjungi af tekjum fyrirtækisins. Þar
að auki hafa áhrifin á sölu smærri kerfa og staðlaðra vara, sem stendur
sömuleiðis undir þriðjungi tekna, verið óveruleg. 

Matvælaiðnaðurinn

Þróunin á fyrri helmingi árs sýnir að lægðin í efnahagslífinu á alþjóðavísu, og
þær breytingar á neysluvenjum sem orðið hafa í kjölfarið, hafa skapað tækifæri
í matvælaiðnaði. Marel hefur á að skipa sterkum vörumerkjum og býður upp á
fjölbreytt vöruúrval og er því í góðri stöðu til að færa sér þessi tækifæri í
nyt og bregðast við þörfum viðskiptavina. Áhersla Marel á nýsköpun er óbreytt
og eru 5 - 6% af veltu fjárfest í vöruþróun en það er hæsta hlutfall sem
fyrirfinnst í greininni. 

- Fiskur: Markaðirnir byrjuðu að taka við sér á öðrum ársfjórðungi eftir rólega
byrjun í upphafi árs. Viðskiptavinir í laxi og hvítfiski eru farnir að
fjárfesta í nýjum verksmiðjum og nýrri tækni til að auka framleiðni í eldri
verksmiðjum. Laxavinnslur eru t. d. í auknum mæli að snúa sér að flóknum
róbótakerfum, þar á meðal háþróuðum flakasnyrtivélum. Markaðurinn fyrir lax í
Chile er í lægð en vel gengur á öðrum lykilmörkuðum eins og í Noregi og
Bandaríkjunum og verð á laxi er hátt. Í Noregi hafa fjárfestingar í fiskiðnaði
aukist á undanförnum 12 mánuðum og hafa stórir sölusamningar verið gerðir á
öðrum ársfjórðungi við fyrirtæki bæði í laxi og hvítfiski. 

- Kjúklingur: Skýrustu merkin um bata er að finna í kjúklingaiðnaði.
Framleiðendur hagnast á því að alþjóðlega fjármálakreppan hefur orðið til þess
að neysla á ódýrari prótínum eins og kjúklingi hefur aukist. Þar af leiðandi
hefur velta Marel af sölu kjúklingavinnslutækja og kerfa aukist og gengið hefur
verið frá nokkrum stórum verkefnum við framleiðendur í Evrópu og Suður-Ameríku
á öðrum ársfjórðungi. Þá hefur einnig verið aukin virkni í Austurlöndum og
hefur góður árangur náðst í Kína nýlega. 

- Kjöt: Kjötiðnaðurinn skilar ekki eins góðum árangri og aðrar prótíngreinar um
þessar mundir. Þrátt fyrir að verð á korni og olíu hafi lækkað talsvert frá því
sumarið 2008 þegar það var í sögulegum hæðum er verðið enn hátt á mælikvarða
kjötframleiðenda - sérstaklega í ljósi þess að mun meira magn af korni þarf til
að framleiða nauta- eða svínakjöt en sama magn af kjúklingi og fiski. Engu að
síður eru fyrstu batamerkin sýnileg á mörgum mörkuðum, þar á meðal í Evrópu,
Bandaríkjunum og Ástralíu. Viðhorf í iðnaðinum eru að breytast þökk sé þeim
markaðsátökum sem ráðist hefur verið í á undaförnum mánuðum og árum og er áhugi
á háþróuðum kjötvinnslukerfum að aukast í öllum undirgreinum iðnaðarins, hvort
sem um er að ræða framleiðslu á nauta- , svína- eða lambakjöti. Reiknað er með
að sala haldi áfram að aukast eftir því sem viðskiptavinir gera sér betur grein
fyrir þeim ávinningi sem nýjustu vinnslukerfin skila - þ.e. aukinni arðsemi,
framleiðni og rekjanleika. 

- Frekari vinnsla: Framleiðendur í „frekari vinnslu“hafa hagnast mest á auknum
vinsældum skyndibitafæðu og tilbúinna rétta. Þeir hafa því haldið áfram að
fjárfesta í tækjabúnaði frá Marel, þar á meðal í RevoPortioner skurðarvélum,
beikonskerum og QX kerfum. Allstórt hlutfall af beikoni er selt óeldað til
fyrirtækja í matvælaþjónustu eins og McDonald's og Burger King. Viðskiptavinir
í þessum geira hafa sýnt nýju beikonskerunum frá Marel mikinn áhuga og er búist
við því að þessi hluti markaðarins muni skila sér í aukinni sölu. 

- Viðskiptavinur í nærmynd - Salm Partners, LLC: Marel fer ótroðnar slóðir við
þróun á tækjabúnaði, ávallt með það að leiðarljósi að aðstoða
matvælaframleiðendur stóra sem smáa, á hvaða markaði sem þeir kunna að starfa,
við að hámarka afköst og nýtingu, ásamt því að auka gæði og verðgildi afurða
þeirra. Bandaríska fyrirtækið Salm Partners, sem starfar í „frekari vinnslu“
geira iðnaðarins, er eitt slíkt fyrirtæki. Salm Partners fjárfesti nýlega í
þriðja Townsend QX útþrýstingskerfinu og ætlar að taka það í notkun í
framleiðsluhúsnæði fyrirtækisins í Denmark, Wisconsin, snemma á næsta ári. QX
er einstæð tækni sem notuð er við framleiðslu á pylsum og lækkar kostnaðarverð
pylsunnar um a.m.k. 10%. Eftir kaupin á fyrri tveimur kerfunum náði Salm
Partners að marka sér stöðu sem einn af helstu framleiðendum á pylsum sem
eldaðar eru í pakkanum  og er vörum fyrirtækisins dreift um öll Bandaríkin.
„Við vinnum með samstarfsaðilum okkar við að koma nýrri tækni á markaðinn,“
segir Chris Salm. „Við höfum byggt starfsemi okkar á QX tækninni vegna þess að
við höfum trú á því að neytendur hafi ávinning af henni.“ 

Framtíðarhorfur 

Þrátt fyrir það dregið hafi úr sölu stærri kerfa við núverandi markaðsaðstæður
er reiknað með að sjóðstreymi haldist sterkt út árið. Búist er við að sala
aukist lítillega á seinni hluta árs samhliða batnandi markaðsumhverfi. Í
kjölfarið er búist við að afkoma batni einnig. Marel mun halda áfram að styðja
við þessa þróun með áframhaldandi aðhaldi í útgjöldum sem hefur sett mark sitt
á afkomu annars ársfjórðungs. 


Kynningarfundur 7. ágúst 2009 

Marel Food Systems boðar til kynningarfundar um afkomu félagsins föstudaginn 7.
ágúst 2009 kl. 8:30 í húsnæði félagsins að Austurhrauni 9, Garðabær. 


Birtingardagar fyrir reikningsárið 2009 og aðalfundur 2010 

3. ársfjórðungur 2009 - 3. nóvember 2009 
4. ársfjórðungur 2009 - 4. febrúar 2010 
Aðalfundur Marel Food Systems hf - 3. mars 2010 


Frekari upplýsingar veita: 
Erik Kaman, fjármálastjóri Sími: 563-8070 
Sigsteinn Grétarsson, forstjóri Marel ehf. Sími: 563-8070