2024-05-02 15:00:00 CEST

2024-05-02 15:00:05 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Reykjavíkurborg - Ársreikningur

Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2023


Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 var lagður fyrir borgarráð í dag 2. maí og vísað til fyrri umræðu í borgarstjórn þann 7. maí næstkomandi.

Rekstrarniðurstaða A‐ og B‐hluta á árinu 2023 var neikvæð um 3,4 ma.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 9,6 ma. kr. afgangi. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 47,6 ma.kr. og hækkaði um 10,2 ma.kr. á milli ára. EBITDA í hlutfalli af tekjum var 19% og batnaði um 2%-stig á milli ára sem má rekja til A-hluta borgarinnar. Helstu frávik frá áætlun er að finna í fjármagnsliðnum en nettó fjármagnsgjöld voru 10,3 ma.kr. yfir áætlun, vegna vaxta, verðbóta og gengis sem þróaðist með öðrum hætti en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun og birtist einkum í reikningum Orkuveitu Reykjavíkur. Þá var matsbreyting fjárfestingaeigna Félagsbústaða undir því sem áætlað var, þar sem hægst hefur á hækkun fasteignaverðs saman borið við síðustu ár, auk þess sem gjaldfærsla lífeyrisskuldbindingar var hærri en áætlað var.

Heildareignir A‐ og B‐hluta samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi 31. desember 2023 námu samtals 932,3 ma.kr. og heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 495,3 ma.kr. Eigið fé nam 437,1 ma.kr., en þar af nam hlutdeild minnihluta 17,2 ma.kr. Eignfjárhlutfall A- og B-hluta nam 46,9% en var 48,8% árið 2022. Skuldaviðmið A- og B-hluta var óbreytt frá síðasta ári eða 158%. Þá var jafnvægisviðmiðið jákvætt um 26,0 ma.kr.

Veltufé frá rekstri hjá A- og B-hluta nam 35,7 ma.kr. eða 14,2% í hlutfalli af tekjum og hækkaði um 2,3%-stig á milli ára eða 9,3 ma.kr. Fjárfestingar að frádregnum seldum eignum námu 58,1 ma.kr. og jukust um 8,0 ma.kr. milli ára. Lántaka þar með talin ný stofnframlög umfram afborganir langtímalána nam 22,9 ma.kr. Handbært fé í lok árs var 27,1 ma.kr.

Rekstrarniðurstaða A‐hluta á árinu 2023 var neikvæð um 5 ma.kr. og nam frávik frá áætlun 0,4 ma.kr. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var jákvæð um 7,9 ma.kr. og nam jákvæður viðsnúningur á milli ára 10,1 ma.kr. EBITDA í hlutfalli af tekjum var 4,5% en hún var neikvæð árið 2022. Tekjur A-hluta voru 7,6 ma.kr. yfir áætlun, þar af staðgreiðsla útsvars 5,8 ma.kr. Rekstrargjöld voru 7,7 ma.kr. yfir fjárheimildum, þar af var launakostnaður á pari en hins vegar kom til gjalda 2,3 ma.kr. skuld við Brú Lífeyrissjóð sem má rekja til uppgjörs vegna breytinga á lögum um lífeyrismál opinberra starfsmanna árið 2016. Annar rekstrarkostnaður var 4,9 m.kr. yfir fjárheimildum, sem er einkum rakinn til hráefniskostnaðar í mötuneytum, vistgreiðslna vegna barna með þroska- og geðraskanir, vetrarþjónustu og þjónustu við flóttafólk og hælisleitendur. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 4,1 ma.kr. eða 0,3 ma.kr. umfram áætlun. Arður af eignarhlutum nam 6,4 ma.kr. og var 1,3 ma.kr. umfram áætlun en vaxtagjöld og verðbætur námu 12,0 ma.kr. og voru 1,9 ma.kr. hærri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun.

Heildareignir A‐hluta samkvæmt efnahagsreikningi 31. desember 2023 námu samtals 279,7 ma.kr. og heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 198,5 ma.kr. Eigið fé nam 81,3 ma.kr. og lækkaði um 1,4 ma.kr. Eignfjárhlutfall A-hluta nam 29% en var 32% í árslok 2022. Skuldaviðmið A-hluta í árslok 2023 var 82%.

Veltufé frá rekstri A-hluta var jákvætt um 11,5 ma.kr. og var 6,5% í hlutfalli af tekjum. Viðsnúningur frá síðasta ári nam 12,4 ma.kr. en árið 2022 var veltufé frá rekstri neikvætt um 0,9 ma.kr. eða 0,6%. Heildarfjárfestingar námu 25,8 ma.kr. en samanlögð gatnagerðargjöld og tekjur af byggingarétti námu 4,2 ma.kr. Lántaka umfram afborganir langtímalána nam 15,6 ma.kr. Handbært fé í lok árs var 11,5 ma.kr.

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, sem heldur utan um rekstur fagsviða og Eignasjóð. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf., Jafnlaunastofa sf. og Þjóðarleikvangs ehf.

Reykjavík, 2. maí 2024.

Nánari upplýsingar veitir
Halldóra Káradóttir sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs
halldora.karadottir@reykjavik.is

Viðhengi