|
|||
![]() |
|||
2025-02-14 17:40:00 CET 2025-02-14 17:40:02 CET REGULATED INFORMATION Arion Bank hf. - InnherjaupplýsingarArion banki hf. lýsir yfir áhuga á samrunaviðræðum við Íslandsbanka hf.Stjórn Arion banka ákvað á fundi sínum í dag að lýsa yfir áhuga á að hefja viðræður við stjórn Íslandsbanka um samruna félaganna. Bréf þess efnis hefur verið sent til stjórnarformanns og bankastjóra Íslandsbanka. Arion banki sér mikil tækifæri í samruna bankanna fyrir viðskiptavini, hluthafa og íslenskt hagkerfi. Það er staðreynd að þrátt fyrir fjölmargar hagræðingaraðgerðir íslenskra banka á undanförnum árum þá er kostnaður fjármálakerfisins enn hlutfallslega hár hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Það er bæði vegna smæðar íslenska hagkerfisins og þeirrar staðreyndar að þrír stærstu bankar landsins eru allir flokkaðir sem kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki samkvæmt evrópskri löggjöf. Þeir þurfa því að uppfylla flókið og umfangsmikið regluverk Evrópusambandsins, sem er samið með miklu stærri fjármálafyrirtæki í huga, auk séríslenskra reglna. Við sjáum því einstakt tækifæri í því að sameina Arion banka og Íslandsbanka. Þannig verður til skilvirkari og öflugri banki sem er betur í stakk búinn að mæta þörfum viðskiptavina, fjárfesta í auknum mæli í þróun og nýsköpun og styðja við vöxt íslensks efnahagslífs. Hægt verður að ná fram umtalsverðri samlegð með samruna bankanna og draga þar með úr kostnaði í íslensku fjármálakerfi neytendum og hluthöfum bankanna til góða.
Arion telur að samruni bankanna myndi uppfylla öll þrjú skilyrði leiðbeininga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um lárétta samruna; ávinningur neytenda er verulegur, hann er mælanlegur og næst ekki með öðrum leiðum. Í bréfi Arion banka til Íslandsbanka, sem er meðfylgjandi, er nánar farið yfir þá kosti sem Arion banki sér í samruna bankanna. |
|||
|