2012-02-28 15:51:21 CET

2012-02-28 15:52:22 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Orkuveita Reykjavíkur - Fyrirtækjafréttir

Uppstokkun í rekstri Orkuveitunnar lokið


Uppstokkun í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur, sem staðið hefur undanfarin
misseri, lauk í dag. Skipulagi og verklagi er breytt hjá fyrirtækinu og 20
manns var sagt upp störfum. Fækkun starfsfólks er liður í þeirri áætlun sem
stjórn Orkuveitunnar og eigendur samþykktu vorið 2011. Hún gerir ráð fyrir
verulegri lækkun rekstrarkostnaðar. 


Starfsfólki Orkuveitunnar hefur nú fækkað um 200, úr rúmlega 600 þegar þeir
voru flestir árið 2008, í rúmlega 400 nú í lok febrúar.´(Í viðhengi má sjá
myndrit er sýnir starfsmannafjölda OR 2000-2012) 

Skuldabyrði Orkuveitunnar er enn mjög þung. Hagræðing í daglegum rekstri er
mikilvægur þáttur í að styrkja fjárhagsstöðuna og ráða fram úr skuldavandanum.
Aðgerðaáætlunin, sem Orkuveitan er rekin eftir, gerir ráð fyrir því að á árinu
2012 lækki rekstrarkostnaður um 900 milljónir króna. 


Aðgerðir á áætlun
Heildarmarkmið aðgerðaáætlunarinnar er að bæta sjóðstreymi Orkuveitunnar um 50
milljarða króna frá 2011 til og með 2016. Þar af stafa 30 milljarðar króna af
hagræðingu í rekstri, frestun fjárfestinga og sölu eigna, 12 milljarðar króna
eru fengnir að láni hjá eigendum og sérstakar gjaldskrárhækkanir, sem þegar
hafa gengið í gildi, munu skila 8 milljörðum króna frá 2011 til og með 2016. 
Í viðhenginu má sjá yfirlit yfir áætlunina frá 29. mars 2011, á upphaflegu
verðlagi hennar. 

Orkuveitan gerir reglulega grein fyrir framvindu áætlunarinnar með tilkynningum
til fjölmiðla og Kauphallar, samhliða árshlutauppgjörum. Allir þættir
aðgerðaáætlunarinnar eru á áætlun og aðgerðirnar í dag eru nauðsynlegar til að
tryggja að svo verði áfram. 

Mikil fækkun starfsfólks
Eftirtaldir meginþættir skýra fækkun starfsmanna hjá Orkuveitunni:

  -- Ítarleg greining á rekstri og verkefnum Orkuveitunnar hefur leitt til
     skipulagsbreytinga og hagræðingar á öllum sviðum starfseminnar.
  -- Verkefni utan kjarnastarfsemi hafa verið lögð niður.
  -- Fjárfestingum í veitukerfum frestað.
  -- Hægari uppbygging hjá sveitafélögum.
  -- Byggingu Hellisheiðarvirkjunar er lokið.

Fækkun starfsfólks hefur orðið með ýmsum hætti.

  -- Almennu ráðningarbanni, sem verið hefur síðastliðin misseri.
  -- Tilboði til starfsmanna sem náð hafa 63 ára aldri um að flýta starfslokum.
  -- Uppsögnum.

Fyrirtækið leggur áherslu á að milda áhrif uppsagnanna á það fólk sem fyrir
þeim verður. Í samræmi við það stendur því til boða 100.000 króna styrkur til
greiðslu náms- eða námskeiðsgjalda kjósi það að styrkja stöðu sína með námi. OR
greiðir starfsfólki laun á uppsagnarfresti í samræmi við lög og skyldur en að
auki eru viðbótargreiðslur sem miðast við starfsaldur viðkomandi hjá
fyrirtækinu. OR samdi við ráðningarþjónustu um vinnumarkaðsaðstoð og við
sálfræðistofu um að aðstoða þá sem þess óska.