2011-04-04 12:20:00 CEST

2011-04-04 12:21:49 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Reykjanesbær - Fyrirtækjafréttir

Seljanlegar eignir og helstu viðfangsefni á sviði fjármögnunar


Á fundi Reykjaneshafnar með kröfuhöfum þann 16. mars 2011 kom fram ósk um að
Reykjanesbær, sem ábyrgðaraðili hafnarinnar, myndi upplýsa kröfuhafana um
fjárhagsstöðu sína. Reykjanesbær tilkynnti þann 17. mars 2011 um
endurfjármögnun á lánasamningi við DePfa / pbb og um endurfjármögnun afborgana
yfirstandandi árs á lánum frá Lánasjóði Sveitarfélaga. Reykjanesbær gerði
ársreikning sinn fyrir árið 2009 opinberan þann 7. apríl 2010 og stefnir að því
að gera ársreikning sinn fyrir árið 2010 opinberan á næstu vikum. Í
ársreikningi kemur fram hin formlega og heildstæða sýn á fjárhagsstöðu
sveitarfélagsins hverju sinni. Til að verða við ósk kröfuhafa Reykjaneshafnar
frá 16. mars s.l. með sem bestum hætti, en án þess að vera í aðstöðu til þess
að birta ársreikning innan þeirra tímamarka sem beiðni kröfuhafa hafnarinnar
krefst, hefur Reykjanesbær tekið saman upplýsingar um helstu seljanlegu eignir
sínar sem ekki eru notaðar til þess að sinna lögbundnum skyldum
sveitarfélagsins, sem og stutta samantekt á helstu verkefnum á sviði
fjármögnunar sem sveitarfélagið er aðili að. 

Eignir A-hluta bæjarsjóðs

Helstu peningalegar og seljanlegar eignir utan lögbundins hlutverks
sveitarfélagsins telja 19 milljarða í lok mars 2011 sem hér segir: 

Innistæða í Landsbanka Íslands að fjárhæð 2,5 milljarðar, sem er bundin
ákveðnum skilmálum. 
Skuldabréf Magma Energy Sweden að fjárhæð 8,2 milljarðar, sem er á gjalddaga
16. júlí 2016. 
Eignarhlutur í HS Veitum er bókfærður á 6,5 milljarða í ársreikningi
Reykjanesbæjar 2009. 
Land og auðlindir undir virkjanasvæði á Reykjanesi sem hefur verið boðið
ríkissjóði á 1,8 milljarða. 
Til skoðunar er hvort unnt væri að losa um innistæðu í Landsbanka Íslands og
hvort og þá með hvaða hætti unnt væri að nota skuldabréf Magma til að styrkja
lausafjárstöðu sveitarfélagsins. Rétt er að setja ofangreinda eignastöðu í
samhengi við skuldir sveitarfélagsins, en í ársreikningi fyrir árið 2009 eru
tilgreindar 14,1 milljarður í skuldir og skuldbindingar A-hluta, auk 12,1
milljarðs leiguskuldbindingar vegna Eignarhaldsfélagsins Fasteignar og 1,4
milljarða leiguskuldbinding vegna annarra leigusala, eða samtals 27,6
milljarðar. Mismunur á stöðu ofangreindra eigna og skuldastöðu m.v. árslok 2009
nemur því tæpum 9 milljörðum. Til samanburðar voru tekjur A-hluta á árinu 2009
tæpir 7 milljarðar. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um að selja ofangreindar
eignir og endanlegt virði við sölu getur verið hærra eða lægra en að ofan
greinir. Einnig er rétt að taka fram að ef ráðist yrði í sölu einhverra eigna
gæti söluferlið tekið talsverðan tíma. 

Viðfangsefni á sviði fjármögnunar

Helstu viðfangsefni á sviði fjármögnunar sem nú er unnið að sem tengjast
sveitarfélaginu eru sem hér segir: 

Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. á í viðræðum við lánadrottna sína og leiðir
Lárus Blöndal, hæstaréttarlögmaður, samninganefnd félagsins. Reykjanesbær er
hluthafi í þessu félagi og leigir einnig af því skólahúsnæði og aðrar eignir
sem notaðar eru fyrir lögbundna starfsemi sveitarfélagsins. Í ársreikningi
Reykjanesbæjar fyrir árið 2009 er tilgreind 12,1 milljarðs króna skuldbinding
vegna þessara leigusamninga. 
Reykjaneshöfn á í viðræðum við lánadrottna sína og hefur ráðið
fjármálafyrirtækið Centra Fyrirtækjaráðgjöf hf. sér til aðstoðar í þeim
samskiptum. Reykjaneshöfn er B-hluta stofnun sveitarfélagsins og ber
Reykjanesbær fulla ábyrgð á öllum skuldum hafnarinnar, en skv. kynningu sem
Reykjaneshöfn birti þann 16. mars 2011 nema vaxtaberandi skuldir hennar samtals
4,5 milljörðum króna, fyrir utan viðskiptastöðu við Reykjanesbæ. 
Reykjanesbæ hefur verið gert að greiða samtals 1,8 milljarða króna í
fjármagnstekjuskatt vegna sölu á eignarhlut sínum í HS Orku. Áhöld eru um hvort
jafnræðisreglu hafi verið gætt við þessa skattlagningu. Í fjáraukalögum 2010
var samþykkt að ríkið gæti veitt Reykjanesbæ greiðslufrest á þessari
skattgreiðslu og samið um greiðslu til lengri tíma en eins árs. Beðið er eftir
að Fjármálaráðuneytið kalli til samningafundar vegna þessa máls.