2012-04-30 16:00:00 CEST

2012-04-30 16:00:02 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Reykjavíkurborg - Ársreikningur

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2011



Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2011 er til fyrri umræðu í
borgarstjórn í dag mánudaginn 30. apríl. Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í
A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er
fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, þ.e. rekstur fagsviða, og
Eignasjóð. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu
eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til
fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Bílastæðasjóður Reykjavíkur,
Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf.,
Malbikunarstöðin Höfði hf., Orkuveita Reykjavíkur, Skíðasvæði
höfuðborgarsvæðisins, Slökkvilið höfuðborgar­svæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó
bs, auk Aflvaka hf og Jörundar ehf. 

Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 2.808 mkr en áætlun gerði ráð fyrir
að niðurstaðan yrði jákvæð um 66 mkr. Niðurstaðan er því lakari en gert var ráð
fyrir, sem nemur 2.874 mkr. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var neikvæð
um 2.425 mkr en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 109 mkr.
Niðurstaðan fyrir fjármagnsliði var því 2.534 mkr lakari en áætlun gerði ráð
fyrir. Meginástæðu þessarar óhagstæðu niðurstöðu má rekja til gjaldfærslu
lífeyrisskuldbindingar en hún nam tæpum 4,4 milljörðum en áætlun gerði ráð
fyrir 600 mkr og einnig til aukins fjármagnskostnaðar vegna verðbólgu á árinu. 

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A og B hluta, var neikvæð um
4.675 mkr en árið 2010 var rekstrar­niðurstaðan jákvæð um 13.671 mkr.
Viðsnúning í rekstri er einkum að finna í fjármagnsliðnum sem nú reyndist
neikvæður um 22.691 mkr. en var jákvæður um 10.505 mkr árið 2010.
Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 11.459 mkr sem er um 512
mkr lakara en áætlun gerði ráð fyrir. Þegar litið er á samstæðuuppgjörið er
ljóst að þær miklu aðgerðir sem Orkuveita Reykjavíkur greip til 2010 og 2011
eiga mikinn þátt í þessum rekstrarárangri enda þótt gengistap, hár
fjármagnskostnaður vegna verðbólgu og há gjaldfærsla á lífeyrisskuld­bindingu í
A-hluta hafa leitt til neikvæðrar heildarniðurstöðu. Eiginfjárhlutfall og
skuldsetningarhlutfall samstæðunnar bera enn mikil merki gengisfalls krónunnar,
sérstaklega vegna erlendra skulda Orkuveitunnar. Sjóðstreymi samstæðunnar hefur
hins vegar styrkst verulega á milli ára og er veltufé frá rekstri um 26,3
milljarðar eða 8,2 milljörðum hærra en árið 2010 og reyndist 24% af tekjum
miðað við 19% árið 2010. 

Rekstrartekjur A- og B-hluta voru 108.868 milljónir króna eða um 3.367
milljónir umfram áætlun og rekstrargjöld voru 97.409 milljónir króna eða 3.879
milljónir umfram áætlun. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 22.691 milljón króna
en áætlun gerði ráð fyrir að þeir yrðu neikvæðir um 6.893 milljónir króna.
Munurinn skýrist einkum af gengis- og verðlagsbreytingum. 

Rekstrartekjur A-hluta voru 68.577 milljónir króna eða 2.946 milljónir yfir
áætlun sem skýrist af hærri skatttekjum en áætlun gerði ráð fyrir. 
Rekstrargjöld voru 71.003 milljónir króna eða um 5.481 milljón yfir áætlun, þar
af var gjaldfærsla á breytingu lífeyrisskuldbindinga 3.780 milljónir hærri en
áætlanir gerðu ráð fyrir. 

Eignir A-hluta voru 136.799 milljónir króna, hækka úr 128.123 milljónum króna
eða um 8.676 milljónir.  Skuldir A-hluta að frátöldum skuldbindingum hækka úr
39.381 milljón í 45.412 milljónir eða um 6.031 milljón en skuldbindingar hækka
um 3.116 milljónir, úr 8.428 milljónum í 11.544 milljónir. Eigið fé A-hluta
lækkar um 471 milljón úr 80.314 milljónum í 79.843 milljónir. 

Eignir A- og B-hluta voru 464.700 milljónir króna og hafa vaxið um 12.056
milljónir króna á árinu. Heildarskuldir A- og B-hluta að frátöldum
skuldbindingum eru 305.679 milljónir króna en voru 300.241 milljón króna í
árslok 2010 og hafa því aukist um 5.438 milljónir króna. Skuldbindingar lækkuðu
um 598 milljónir króna á árinu.   Eigið fé A- og B-hluta hækkar um 7.215
milljónir úr 139.315 milljónum í 146.530 milljónir, sem skýrist að stærstum
hluta af rekstrarniðurstöðu ársins og endurmati eigna. 

Veltufjárhlutfall hjá A- og B-hluta var 0,91 þann 31.12.2011 á móti 1,05 í
árslok 2010.  Hjá A hluta var hlutfallið 1,87 þann 31.12.2011 en 2,42 í árslok
2010.