2013-11-01 08:45:00 CET

2013-11-01 08:45:37 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Fjarskipti hf. - Fyrirtækjafréttir

Vodafone stefnir Símanum til greiðslu skaðabóta


Vodafone (Fjarskipti hf.) hefur stefnt Símanum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til
greiðslu skaðabóta vegna brota á samkeppnislögum á árunum 2001 til 2007. Brotin
fólust í ofrukkun á lúkningargjöldum sem innheimt voru fyrir hverja talaða
mínútu í símtölum sem enduðu í farsímakerfi Símans. Ofgreiðslur Vodafone vegna
þessa námu 913 milljónum króna á tímabilinu og krefst félagið þess að fá þá
upphæð endurgreidda auk vaxta.

Samkeppnislagabrotin viðurkennd
Með ákvörðun nr. 7/2012 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að
Síminn hf. hefði misnotað gróflega markaðsráðandi stöðu sína og brotið gegn 11.
og 19. gr. samkeppnislaga (nr. 44/2005) og 54. gr. EES-samningsins (sbr. lög nr.
2/1993). Brot Símans hf. fólust m.a. í því að hafa beitt samkeppnisaðila sína
ólögmætum verðþrýstingi frá árinu 2001 til 2007. Samkeppniseftirlitið taldi
ljóst að Síminn hf. hefði með háttsemi sinni komið í veg fyrir að Vodafone næði
fram eðlilegum hagnaði af starfsemi sinni og þannig raskað samkeppni á
farsímamarkaði með ólögmætum hætti. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti brot
Símans og niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins með úrskurði sínum nr. 1/2012. Vegna
brotanna var Síminn hf. sektaður um 390 milljónir króna.

Hinn 26. mars 2013 gerðu Samkeppniseftirlitið og Síminn hf. með sér heildarsátt
um lok tiltekinna mála sem stofnunin hafði haft til rannsóknar. Í sáttinni fólst
m.a. að úrskurður áfrýjunarnefndar í ofangreindu máli fæli í sér endanlegar
lyktir þess. Í því felst viðurkenning Símans hf. á því að hafa beitt Vodafone
ólögmætum verðþrýstingi líkt og um er fjallað í úrskurðinum.

Fjárhagsleg áhrif á Vodafone
Rétt er að taka fram að óvissa ríkir um niðurstöðu dómsmálsins, jafnvel þótt
Vodafone telji skaðabótakröfuna byggða á sterkum lagalegum grunni og
kröfufjárhæðin endurspegli það fjárhagslega tjón sem hlaust af umræddum
samkeppnislagabrotum. Verði Síminn dæmdur til greiðslu skaðabóta mun það hafa
jákvæð áhrif á fjárhag Vodafone.

Áður uppgefið um málið
Í skráningarlýsingu Fjarskipta hf. (bls. 19 í útgefandalýsingu) dags. 19.
nóvember 2012 er greint er frá málinu eins og staða þess var á þeim tíma. Þá
hafði ákvörðun um framvindu málsins ekki verið tekin, né heldur var ljóst hver
möguleg fjárhæð skaðabótakröfunnar væri.

Nánari upplýsingar verða veittar eftir því sem málinu vindur fram.

[HUG#1739807]