2015-02-16 12:25:19 CET

2015-02-16 12:26:21 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Landsbréf hf. - Ársreikningur

Ársreikningur Landsbréfa hf. 2014


188 milljóna króna hagnaður á árinu 2014

Landsbréf hf. hafa birt ársreikning vegna ársins 2014.  Helstu niðurstöður voru
þessar: 

  -- Hagnaður af rekstri Landsbréfa nam 188 milljónum króna á árinu 2014,
     samanborið við 187 milljóna króna hagnað fyrir rekstrarárið 2013.
  -- Hreinar rekstrartekjur námu 1.104 milljónum króna samanborið við 969
     milljónir króna rekstrarárið 2013.
  -- Eigið fé Landsbréfa í árslok nam um 1.832 milljónum króna samanborið við
     1.644 milljónir króna í lok árs 2013.
  -- Eiginfjárhlutfall sem reiknað er samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki var
     53,76%, en má lægst vera 8%.
  -- Í lok tímabilsins voru í rekstri Landsbréfa 31 sjóður og félög um
     sameiginlega fjárfestingu.
  -- Starfsmönnum voru 18 í lok árs.
  -- Eignir í stýringu voru í árslok um 111 milljarðar króna samanborið við um
     110 milljarða árið áður. Á árinu luku Landsbréf við umfangmikil verkefni
     sem m.a. fólust í úrvinnslu eigna Horns fjárfestingafélags ehf. sem slitið
     var í árslok. Við það hurfu úr stýringu rúmir 12 milljarðar, en þrátt fyrir
     það jókst heildarfjárhæð eigna í stýringu milli ára. Alls eru um 12 þúsund
     einstaklingar og lögaðilar með fjármuni í sjóðum eða í eignastýringu hjá
     Landsbréfum.
  -- Ávöxtun sjóða Landsbréfa var almennt góð á árinu 2014.

Rekstur Landsbréfa gekk vel á árinu 2014 og skilaði félagið ágætum hagnaði eða
188 milljónum króna, sem svarar til tæplega 10,3% arðsemi eigin fjár. Eftir
mikla vöruþróun og öran vöxt á árinu 2013 má segja að árið 2014 hafi einkennst
af stöðugleika þar sem leitast var við að skerpa línur í rekstri félagsins.
Ákveðið var að slíta nokkrum sjóðum sem lítil eftirspurn hafði reynst eftir eða
sameina þá öðrum sjóðum félagsins en meiri áhersla lögð á að þróa áfram  þá
sjóði sem fjárfestar hafa helst sýnt áhuga. Af nýjum sjóðum má nefna
fagfjárfestasjóðinn Brunn vaxtarsjóð slhf., sem mun fjárfesta í sprota- og
nýsköpunarverkefnum. Vinna við fjármögnun hans fór að mestu leyti fram á árinu
2014, en lauk í byrjun árs 2015. 



Ávöxtun sjóða Landsbréfa var góð á árinu 2014

Skuldabréfasjóðir Landsbréfa  skiluðu góðum árangri á árinu og sjóðurinn
Landsbréf - Sparibréf óverðtryggð sýndi samkvæmt óháðu vefsíðunni
www.sjodir.is, bestu nafnávöxtun allra ríkisskuldabréfasjóða á árinu eða
10,2%.. Það er fjórða árið í röð sem Landsbréf ná besta árangrinum við stýringu
ríkisskuldabréfasjóða. Aðrir skuldabréfasjóðir gáfu einnig góða ávöxtun í
samanburði við sambærilega sjóði. Skuldabréfasjóðir félagsins minnkuðu
lítilsháttar sem á sér þá skýringu helsta að fjárfestar færðu sig í auknum mæli
úr skuldabréfum í hlutabréf á árinu. Innlendir hlutabréfasjóðir Landsbréfa
stækkuðu um 14,6% á árinu og skiluðu þeir allir góðri ávöxtun sem var umfram
skilgreind viðmið. Heildarstærð þeirra í árslok var 16,5 milljarðar króna
samanborið við 14,4 milljarða árið áður. 



Umsvif tengd framtaksfjárfestingum voru veruleg á árinu 2014. Eignir í umsýslu
á þessu sviði námu alls 42,3 milljörðum króna í lok árs. Framtakssjóðurinn Horn
II slhf. og ferðasjóðurinn Landsbréf - ITF I slhf. stóðu fyrir umtalsverðum
fjárfestingum á árinu. Á árinu 2014 var lokið við úrvinnslu á eignasafni Horns
fjárfestingarfélags ehf. sem Landsbréf hafa haft umsjón með á undanförnum
misserum með mjög góðum árangri, en Horni var slitið í árslok. 



Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa:

„Sjóðir Landsbréfa skiluðu fjárfestum almennt góðri ávöxtun á árinu 2014 og
rekstur Landsbréfa skilaði eigendum sínum góðri arðsemi. Landsbréf eru stolt af
því að axla þá ábyrgð sem felst í því að að annast stýringu á fjármunum yfir 12
þúsund viðskiptavina. Hjá Landsbréfum starfar reynslumikið og hæft starfsfólk
sem leitast við að setja hagsmuni viðskiptavina félagsins í fyrirrúm, enda
góður árangur og ánægðir viðskiptavinir forsenda góðs rekstrar.“ 



Nánari upplýsingar um ársreikning Landsbréfa veitir Helgi Þór Arason,
framkvæmdastjóri í síma 410 2511.