2008-08-30 13:42:45 CEST

2008-08-30 13:43:52 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Milestone ehf. - Ársreikningur

- UPPGJÖR MILESTONE VEGNA FYRSTU SEX MÁNUÐA ÁRSINS 2008


Tap móðurfélags nemur 13,4 milljörðum eftir skatta.
Tap samstæðu er 34,9 milljarðar eftir skatta.

Eigið fé Milestone lækkaði um 14,9 milljarða frá áramótum og nam eigið fé
móðurfélags 69 milljörðum þann 30. júní 2008, en eigið fé samstæðu var 55
milljarðar. 

Heildareignir móðurfélags voru 134 milljarðar en heildareignir samstæðu námu
513 milljörðum. 

Lántökur móðurfélags námu 41,3 milljarði og 6,2 milljarðar króna af þeim koma
til greiðslu á árinu 2008. Heildarskuldir samstæðu Milestone, sem samanstanda
af tryggingasamningum, innstæðum frá viðskiptavinum og öðrum skuldum námu 458
milljörðum í lok annars ársfjórðungs. 

Eiginfjárhlutfall móðurfélags var 51% og eiginfjárhlutfall á samstæðugrunni nam
11%. 

Sænska fjármálafyrirtækið Moderna er 92% af heildareignum Milestone.
Heildareignir Moderna voru 444 milljarðar í lok tímabilsins, eigið fé þess var
59 milljarðar, eiginfjárhlutfall Moderna nam 13,2% og eiginfjárgrunnur
félagsins var 76% umfram þau mörk sem sænska fjármálaeftirlitið setur. 

ÞRÓUN Á FYRRI HLUTA ÁRSINS
Þann 1. janúar 2008 færði Milestone íslensku félögin Sjóvá og Askar Capital
undir sænsku fjármálasamstæðuna Moderna, sem verður áfram dótturfélag
Milestone. 

Eignatilfærslan styrkir grunnrekstur Moderna sem norrænnar fjármálasamstæðu.
Moderna er móðurfélag allra dótturfélaga samstæðunnar sem starfa á sviðumtrygginga, eignastýringar og bankastarfsemi á Norðurlöndum og í Benelux-löndum. 

Í kjölfar eignatilfærslunnar er Milestone eignarhaldsfélag um fjárfestingar í
fyrirtækjum í fjármálaþjónustu og mun í framtíðinni einbeita sér að uppbyggingu
á Moderna þar sem Milestone gegnir lykilhlutverki sem eini hluthafi félagsins. 

FJÁRHAGSÞRÓUN Á FYRRI HLUTA ÁRSINS 2008
Stærsta eign Milestone, Moderna, tapaði 6,2 milljörðum króna á fyrri helmingi
ársins. Þrátt fyrir það var vöxtur á helstu starfssviðum Moderna þótt árið hafi
verið róstusamt á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Það sem eftir lifir árs mun
Moderna beina kröftum sínum að áframhaldandi vexti auk þess sem dregið verður
úr kostnaði til að auka frekar arðsemi samstæðunnar. 

Um 8,2 milljarðar króna af tapi Milestone skýrast af niðurfærslu á bókfærðu
verði eigna í ljósi krefjandi markaðsaðstæðna. 

Varúðarniðurfærslur voru færðar á verði óskráðra eigna Milestone til að
endurspegla verðbreytingar sambærilegra skráðra verðbréfa. Þetta var gert til
að samstæðan verði betur undirbúin fyrir væntanlega skráningu Moderna í sænsku
kauphöllina á árinu 2009.
Gengistap Milestone nam 6,6 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2008.
Allar skráðar íslenskar eignir eru færðar á markaðsvirði í reikningum
dótturfélaga og hlutdeildarfélaga. Heildartap vegna skráðra íslenskra eigna var
5,9 milljarðar króna á fyrri hluta ársins 2008. 

Um 17,6% hlutur í norræna fjárfestingabankanum Carnegie er færður með
hlutdeildaraðferð af dótturfélaginu Moderna. Varúðarniðurfærsla að fjárhæð 5,2
milljarðar króna var hinsvegar færð á ársfjórðungnum til þess að endurspegla
betur muninn á markaðsvirði og bókfærðu virði eignarhlutarins. 


GuDmundur Ólason, forstjóri
„Grunnrekstur Moderna var sterkur á fyrri helming ársins og Milestone hefur
lagt kapp á að undirbúa Moderna fyrir skráningu í sænsku kauphöllina á næsta
ári. Í framtíðinni mun styrkur Milestone birtast í styrk Moderna sem stærstu
eign félagsins. Við lítum björtum augum til framtíðar og Moderna hefur náð
sterkri markaðshlutdeild á norrænum markaði. Trú okkar á norrænan
fjármálamarkað er mikil þrátt fyrir að erfiðleikar hafi steðjað að
fjármálafyrirtækjum að undanförnu. Frekari vöxtur Moderna á Norðurlöndum mun
auka áhættudreifingu Milestone til framtíðar og tryggja betur arðsemismarkmið
félagsins og frekari vöxt á sviði trygginga, eignastýringar og bankastarfsemi.“ 

HORFUR FYRIR SEINNI HLUTA ÁRSINS 2008
Milestone telur framtíðarhorfur góðar fyrir Moderna á norrænum fjármálamarkaði.
Eftir niðurfærslu óskráðra eigna félagsins til samræmis við almennar lækkanir á
skráðum eignum gefa reikningar Milestone skýra mynd af stöðu félagsins og getu
þess til að mæta krefjandi markaðsaðstæðum. Áfram verður lögð áhersla á
hagræðingu í rekstri og uppbyggingu á grunnrekstri Moderna. 

UM MILESTONE
Milestone er íslenskt eignarhaldsfélag sem fjárfestir í fyrirtækjum á sviði
fjármálaþjónustu. Milestone hefur leyfi FME til að fara með virkan eignarhlut í
fjármálafyrirtækjum og er með skráða víxla og skuldabréf á NASDAQ OMX Nordic
Exchange á Íslandi. Milestone er eini hluthafinn í norrænu fjármálasamstæðunni
Moderna Finance sem hefur skilgreint tryggingarekstur, eignastýringu og
bankastarfsemi sem kjarnastarfsemi sína. 


Nánari upplýsingar: 
www.milestone.is eða hjá Guðmundi Ólasyni, forstjóra í síma: 414 1800