2014-04-28 20:07:53 CEST

2014-04-28 20:08:54 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel hf. - Ársreikningur

Afkoma fyrsta ársfjórðungs 2014


Áhersla á bætta arðsemi, skilvirkni og vöxt

Afkoma fyrsta ársfjórðungs 2014
(Allar upphæðir í Evrum)

Áhersla á bætta arðsemi, skilvirkni og vöxt

  --  Tekjur á fyrsta ársfjórðungi 2014 námu 154,8 milljónum evra [Q1 2013: 158
     milljónir evra].
  --  EBITDA, leiðrétt fyrir kostnaði vegna hagræðingaraðgerða var 11,6
     milljónir evra, sem er 7,5% af tekjum. EBITDA var 8,1 milljón evra sem er
     5,2% af tekjum [Q1 2013: 16,9 milljónir evra].
  --  Leiðréttur rekstrarhagnaður (EBIT) var 4,6 milljónir evra, sem er 3% af
     tekjum. EBIT var 1.0 milljón evra sem er 0,7% af tekjum. [Q1 2013: 10,3
     milljónir evra].
  --  Tap fyrsta ársfjórðungs 2014 nam 1,9 milljónum evra samanborið við 5,7
     milljóna evra hagnað á fyrsta ársfjórðungi 2013. Hagnaður á hlut var
     neikvæður um 0,25 evru sent [Q1 2013: 0,78 evru sent á hlut].
  --  Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 19,4 milljónum
     evra á fyrsta ársfjórðungi 2014. [Q1 2013: 17,2 milljónir evra]. Nettó
     vaxtaberandi skuldir í lok fjórðungsins námu 208,4 milljónum evra [Q1 2013:
     239,3 milljónir evra].
  --  Pantanabók stóð í 138,4 milljónum evra í lok fyrsta ársfjórðungs 2014
     samanborið við 132,4 milljónir evra í upphafi ársins [Q1 2013: 151,1
     milljón evra].

Sala á stöðluðum lausnum og tækjum jókst á milli ára á meðan markaður fyrir
stærri verkefni hefur enn ekki tekið við sér. Rekstrarhagnaður á starfsemi
Marel í kjúklingaiðnaði var lægri en venjulega á fyrsta ársfjórðungi sem rekja
má til óhagræðis í framleiðslu og verkefna sem voru tekin við erfiðar
markaðsaðstæður á síðasta ári. Búast má við að kjúklingaiðnaðurinn muni skila
bættri arðsemi í öðrum ársfjórðungi byggt á stöðu pantanabókar. 

Áætlun um skýrari rekstraráherslur (e. simpler, smarter and faster) var hleypt
af stokkunum í upphafi árs og gengur samkvæmt áætlun. Markmiðið er að mæta
þörfum viðskiptavina með skilvirkari hætti og draga úr árlegum kostnaði um
20-25 milljónir evra. Nú þegar á fyrsta ársfjórðungi hefur tekist að minnka
árlegan kostnað um 3,6 milljónir evra. 

Afkoma fyrsta ársfjórðungs er einnig lituð af áhrifum nokkurra einskiptisliða
sem samtals nema um 2,4 milljónum evra. Sá kostnaður eru ekki liður í
hagræðingaráætluninni og er þar af leiðandi ekki bókaður sem
einskiptiskostnaður. 

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:

„Tekjur Marel á fyrsta ársfjórðungi námu 155 milljónum evra og leiðréttur
rekstrarhagnaður nam 4,6 milljónum evra sem er ekki í samræmi við getu
félagsins. Áætlun okkar um skýrari rekstraráherslur (e. Simpler, smarter and
faster) var hleypt af stokkunum í upphafi árs og gengur samkvæmt áætlun. Á
fyrsta ársfjórðungi höfum við náð þeim áfanga að draga úr árlegum kostnaði sem
nemur 3,6 milljónum evra. 

Við tökum ákveðin skref í þá átt að samþætta einingar og hámarka
framleiðslukerfið með það að leiðarljósi að gera fyrirtækið skilvirkara. Stefna
Marel er skýr og markaðsstaðan sterk en við þurfum að aðlaga reksturinn betur
að stefnu félagsins til að ná arðsemi í samræmi við samkeppnisstöðu. 

Í kjúklingaiðnaði kynnti Marel til leiks tvær vel heppnaðar lausnir,
Robobatcher og SensorX SmartSort. Á sama tíma erum við spennt fyrir FleXicut
sem búast má við að valdi straumhvörfum í hvítfiskvinnslu. 

Eins og við sögðum í upphafi árs teljum við að rekstrarhagnaður muni aukast
þegar líður á árið. Til skemmri tíma litið eru miklir möguleikar fyrir Marel í
Bandaríkjunum og í S-Ameríku þar sem þörf framleiðenda er að aukast eftir
endurnýjun og stækkun. Marel er í góðri stöðu til að grípa þau tækifæri. Í
Evrópu eru markaðsaðstæður hinsvegar litaðar af vaxandi spennu í Úkraínu. Á
nýmörkuðum byrjar árið með miklum sveiflum á fjármálamörkuðum en langtímahorfur
fyrir okkar iðnað eru góðar“. 

Simpler, smarter and faster
Áætlun um skýrari rekstraráherslur (e. Simpler, smarter and faster) var hleypt
af stokkunum í upphafi árs og gengur samkvæmt áætlun. Markmiðið er að mæta
þörfum viðskiptavina með skilvirkari hætti og draga úr árlegum kostnaði um
20-25 milljónir evra. Upphafsskrefin voru tekin í fyrsta ársfjórðungi og hefur
nú þegar tekist að draga úr árlegum kostnaði sem nemur 3,6 milljónum evra. 

Meðal aðgerða á fyrsta ársfjórðungi:
• Breytingar til einföldunar á skipulagi Marel í kjötiðnaði þar sem þrjár
einingar voru sameinaðar til að nýta betur nýsköpunar- og sölustarfsemi sem
þegar er til staðar innan félagsins 

• Endurskipulagning í vöruframboði á frystibúnaði

• Fækkun starfsmanna um 75, þar af 25 millistjórnendur

Marel mun halda áfram að auka skilvirkni og draga úr kostnaði með því að
samþætta einingar sem þjóna sömu þörfum viðskiptavina og byggja á samskonar
grunntækni. Framleiðslueiningar Marel eru dreifðar og sveiflur í nýtingu þeirra
veldur óhagræði. Framundan er hámörkun á framleiðslukerfinu, endurskoðun á
vöruframboði og aukinn skilvirkni á öllum sviðum til að tryggja að reksturinn
endurspegli getu og samkeppnisstöðu félagsins og að langtímamarkmiðum verði
náð. Til þess að styðja við áætlunina og flýta framkvæmd hennar hefur Marel
fengið rekstrarráðgjafafyrirtækið AlixPartners til liðs við sig. 
Á tímabilinu 2014-2015 mun kostnaður vegna aðgerða tengdum áætluninni nema í
kringum 20-25 milljónir evra. Aðgerðirnar munu styðja við langtímavöxt og
virðisaukningu. 

Pantanabók vex lítillega
Pantanabókin stóð í 138,4 milljónum evra í lok fyrsta ársfjórðungs 2014
samanborið við 132,4 milljónir evra í upphafi ársins. Nýjar pantanir námu 160,8
milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi 2014 samanborið við 162,4 milljónir á
fjórða ársfjórðungi 2013. Stórar pantanir eru enn með lægra móti á meðan sala á
stöðluðum lausnum jókst milli ára. 

Horfur
Búist er við að rekstrarhagnaður aukist þegar líður á árið. Marel gerir ráð
fyrir að ná 55 milljóna leiðréttum rekstrarhagnaði (e. adjusted EBIT) á árinu
2014 með innri vexti. Kostnaður vegna endurskipulagningar er áætlaður í kringum
20-25 milljónir yfir tímabilið 2014-2015 með það að markmiði að ná
rekstrarhagnaði félagsins yfir 100 milljónir árið 2017. 

Til meðal og lengri tíma litið, telur Marel að nýsköpun og sterk markaðsstaða
um allan heim í öllum iðnuðum félagsins muni skila góðum vexti og aukinni
arðsemi. Framtíðarhorfur eru góðar og markmið félagsins er að vaxa hraðar en
markaðurinn. 

Engu að síður má gera ráð fyrir að afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga
vegna efnahagsþróunar á heimsvísu, sveiflna í pöntunum og tímasetningar stærri
verkefna. 

Vinsamlegast athugið að tilkynning þessi tekur aðeins til helstu þátta
uppgjörsins en uppgjörstilkynning í fullri lengd á ensku er aðgengileg á
heimasíðu Marel: www.marel.com/2014Q1 
Þar er m.a. að finna lykiltölur og yfirlit yfir markaði félagsins.

Kynningarfundur 29. apríl 2014

Marel boðar til kynningarfundar um afkomu félagsins þriðjudaginn 29. apríl kl.
8:30 í húsnæði félagsins að Austurhrauni 9, Garðabæ. Fundinum verður einnig
netvarpað: www.marel.com/webcast. 

Birtingardagar fyrir reikningsárið 2014
 2. ársfjórðungur 2014 23. júlí 2014
 3. ársfjórðungur 2014 22. október 2014
 4. ársfjórðungur 2014 4. febrúar 2015
 Aðalfundur 2014 4. Mars 2015

Birting fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaðar.

Frekari upplýsingar veita:
Linda Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjárstýringar og fjárfestatengsla. Símar:
563 -8464 og 825-8464 
Auðbjörg Ólafsdóttir, sérfræðingur í fjárfestatengslum. Símar: 563-8626 og
853-8626