2022-05-19 22:11:31 CEST

2022-05-19 22:11:31 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Almenna leigufélagið ehf. - Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Alma íbúðafélag hf. frystir leiguverð á endurnýjuðum leigusamningum


Alma íbúðafélag hf. frystir leiguverð á endurnýjuðum leigusamningum

Stjórn Ölmu íbúðafélags hf. hefur tekið ákvörðun um að frá og með morgundeginum og út árið 2022 verði endurnýjaðir leigusamningar ekki hækkaðir umfram hækkun vísitölu neysluverðs. Mikil óvissa er uppi um þróun efnahagsmála á Íslandi og í heiminum öllum á næstu misserum. Með þessari aðgerð vill stjórn Ölmu íbúðafélags koma til móts við leigutaka fyrirtækisins og auka fyrirsjáanleika í útgjöldum þeirra á þessu og næsta ári.

Stjórn Ölmu íbúðafélags hf. bindur einnig vonir við að þessi frysting leiguverðs verði til þess að stjórnvöld, sveitarfélög og lífeyrissjóðir geri það sem í þeirra valdi stendur til að jafna starfsumhverfi ólíkra tegunda leigufélaga. Á það m.a. við um úthlutun lóða til frekari uppbygginga leiguíbúða, jöfnun niðurgreiðslu á leigu til viðskiptavina ólíkra leigufélaga og viðurkenningu á því að íbúðaleigufélög eiga að njóta betri kjara á skuldum sínum en félög sem leigja atvinnufasteignir. Einnig þurfa stjórnvöld að hækka húsnæðisbætur enn frekar til að mæta hækkun húsnæðiskostnaðar.

Það er alkunna að leiguverð hefur ekki fylgt hækkun fasteignaverðs og samkvæmt mælingum Þjóðskrár þá hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 60% síðustu fimm árin en leiguverð hefur hækkað helmingi minna.

Alma íbúðafélag hf. hefur unnið eftir þeirri stefnu undanfarna mánuði að uppfæra leiguverð svo að það endurspegli betur markaðsvirði undirliggjandi eigna en einnig með það að markmiði að sambærilegar íbúðir skuli leigjast út á sambærilegu verði.  Það hefur leitt til þess að einstaka leigjendur hafa þurft að taka á sig þónokkrar hækkanir til að ná jafnvægi í leiguverði í eignasafninu.

Félagið vill vera leiðandi í þróun leigumarkaðar á Íslandi og hefur félagið m.a. bætt við yfir 100 leiguíbúðum í eignasafn sitt á síðustu 12 mánuðum. Alma íbúðafélag hefur einnig boðið leigjendum sem gera nýja leigusamninga við félagið að festa leiguverð að raunvirði til allt að fimm ára. 

Nánari upplýsingar veitir Ingólfur Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri í síma 695 8591 eða ingolfur@al.is.

Um Ölmu íbúðafélag:

Alma er sjálfstætt fasteignafélag í eigu Langasjávar ehf. Félagið á og rekur tæplega 1.100 íbúðir sem staðsettar eru á höfuðborgarsvæðinu og víðsvegar um landið.

Hlutverk Ölmu er að fjárfesta í, reka og annast útleigu á íbúðarhúsnæði til einstaklinga. Jafnframt býður félagið stærri fjárfestum á íbúðamarkaði alhliða þjónustu við umsjón leiguíbúða, svo sem við auglýsingar, val á leigutökum, skjalagerð og umsjón með innheimtu og viðhaldi fasteigna.