2014-05-15 18:30:50 CEST

2014-05-15 18:31:50 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Hagar hf. - Ársreikningur

Hagar hf. ársuppgjör 2013/14


Ársreikningur Haga hf. fyrir rekstrarárið 2013/14 var samþykktur af stjórn og
forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 15. maí 2014. Reikningurinn er fyrir
tímabilið 1. mars 2013 til 28. febrúar 2014. Ársreikningurinn hefur að geyma
samstæðureikning félagsins og dóttur­félaga þess og er hann gerður í samræmi
við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Endurskoðendur félagsins, KPMG
ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralausri áritun. 



Helstu upplýsingar:

  -- Hagnaður rekstrarársins nam 3.953 millj. kr. eða 5,2% af veltu.
  -- Vörusala rekstrarársins nam 76.158 millj. kr.
  -- Framlegð rekstrarársins var 24,3%.
  -- Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 5.862
     millj. kr.
  -- Heildareignir samstæðunnar námu 26.605 millj. kr. í lok rekstrarársins.
  -- Handbært fé félagsins nam 4.143 millj. kr. í lok rekstrarársins.
  -- Eigið fé félagsins nam 12.098 millj. kr. í lok rekstrarársins.
  -- Eiginfjárhlutfall var 45,5% í lok rekstrarársins.

Vörusala rekstrarársins nam 76.158 milljónum króna, samanborið við 71.771
milljón króna árið áður. Söluaukning félagsins er 6,1%, sem er í takt við
veltuaukningu á dagvörumarkaði skv. tölum Hagstofu Íslands. Hækkun 12 mánaða
meðaltals vísitölu neysluverðs milli rekstrarára var 3,56%. Framlegð félagsins
var 18.471 milljón króna, samanborið við 17.286 milljónir króna árið áður eða
24,3% samanborið við 24,1% en framlegð síðustu sex ára þar á undan var að
meðaltali um 24,7%. Rekstrarkostnaður í heild hækkar um 254 milljónir króna eða
2,0% milli ára en kostnaðarhlutfallið lækkar úr 17,4% í 16,7%. 

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 5.862 milljónum
króna, samanborið við 4.963 milljónir króna árið áður. EBITDA framlegð var
7,7%, samanborið við 6,9% árið áður. 

Hagnaður rekstrarársins fyrir skatta nam 4.875 milljónum króna, samanborið við
3.738 milljónir króna árið áður.  Hagnaður eftir skatta nam 3.953 milljónum
króna á rekstrarárinu, sem jafngildir um 5,2% af veltu. en hagnaður eftir
skatta á fyrra ári var 2.958 milljónir. 

Heildareignir samstæðunnar í lok rekstrarársins námu 26.605 milljónum króna.
Fastafjármunir voru 13.049 milljónir króna og veltufjármunir 13.556 milljónir
króna. Þar af eru birgðir 4.831 milljón króna en birgðir hafa minnkað um 268
milljónir frá lokum síðasta rekstrarárs eða sem nemur 5,3%. 

Eigið fé félagsins var 12.098 milljónir króna í lok rekstrarársins og
eiginfjárhlutfall 45,5%.  Heildarskuldir samstæðunnar voru 14.507 milljónir
króna, þar af voru langtímaskuldir 6.738 milljónir króna. Nettó vaxtaberandi
skuldir félagsins í lok rekstrarársins voru 2.680 milljónir króna en 1.460
milljónir króna voru greiddar inn á langtímalán félagsins umfram lánssamning á
árinu. 

Handbært fé frá rekstri á rekstrarárinu nam 4.708 milljónum króna, samanborið
við 3.888 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar rekstrarársins
voru 799 milljónir króna og fjármögnunar­hreyfingar 2.713 milljónir króna en á
rekstrarárinu voru greiddar 586 milljónir króna í arðgreiðslu til hluthafa.
Handbært fé í lok rekstrarársins var 4.143 milljónir króna, samanborið við
2.947 milljónir króna árið áður. 



Bónus og Hagkaup styrkja Landspítalann til kaupa á aðgerðarþjarka (róbót):

Í tilefni af góðu uppgjöri félagsins afhentu Guðmundur Marteinsson,
framkvæmdastjóri Bónus og Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaups
Eiríki Jónssyni yfirlækni á Landspítalanum 25 milljóna króna framlag til kaupa
á svokölluðum aðgerðarþjarka (róbót).  Hann nýtist til margvíslegra
skurðaðgerða á grindarholslíffærum kvenna og við þvagfæraskurðlækningar.  Með
notkun aðgerðarþjarka er inngrip minna og bati skjótari auk þess sem hægt er að
hlífa betur nærliggjandi líffærum og viðkvæmri starfsemi. 



Framtíðarhorfur:

Horfur í rekstri á rekstrarárinu 2014/15 eru sambærilegar nýliðnu ári og gera
áætlanir félagsins ráð fyrir því. 

Hafin er vinna við að undirbúa byggingu nýs vöruhúss Banana en stór hluti
þeirrar fjárfestingar fellur til á því rekstrarári sem nú er hafið. Ekki hafa
verið teknar ákvarðanir um aðrar stórar fjárfestingar umfram eðlilegt viðhald
og endurnýjanir í rekstri samstæðunnar. Þó mun áframhaldandi vinna eiga sér
stað við að skoða og meta nýja fjárfestingakosti í kjarnastarfsemi, nýjar
staðsetningar fyrir verslanir og endurskoðun leigusamninga. Áframhaldandi
niðurgreiðsla vaxtaberandi skulda er áformuð og hefur m.a. verið tekin ákvörðun
um greiðslu 1.500 milljóna króna inn á lán félagsins í lok maí. 



Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa:

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn á Hilton
Reykjavík Nordica, föstudaginn 16. maí kl. 8:30, en þar mun Finnur Árnason
forstjóri Haga kynna afkomu félagsins og svara spurningum ásamt stjórnendum
félagsins. 

Kynningarefni, ásamt upptöku af fundinum, verður aðgengilegt að honum loknum á
heimasíðu Haga, www.hagar.is. 



Fjárhagsdagatal 2014/15:

Aðalfundur 5. júní 2014



1. ársfjórðungur (1. mars - 31. maí): 27. júní 2014

2. ársfjórðungur (1. mars - 31. ágúst): 23. október 2014

3. ársfjórðungur (1. mars - 30. nóvember): 9. janúar 2015

4. ársfjórðungur (1. mars - 28. feb): 12. maí 2015



Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.