2015-10-27 17:11:32 CET

2015-10-27 17:12:33 CET


REGLERAD INFORMATION

Isländska
Kópavogsbær - Fyrirtækjafréttir

Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2016 og langtímaáætlun fyrir tímabilið 2017-2019


Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2016 var lögð fram til fyrri umræðu í
bæjarstjórn Kópavogs í dag. Þá var einnig lögð fram langtímaáætlun fyrir
tímabilið 2017-2019. Í viðhengi eru fjárhagsáætlun bæjarins og langtímaáætlun. 

Meðfylgjandi er fréttatilkynning bæjarins um fjárhagsáætlun:

Skattar og skuldir lækka

Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2016 var lögð fram til fyrri umræðu í
bæjarstjórn Kópavogs í dag. Þá var einnig lögð fram langtímaáætlun fyrir
tímabilið 2017-2019. 

Áætlunin endurspeglar það að efnahagslegar aðstæður eru sveitarfélögum í
landinu óhagstæðar. Launahækkanir eru mjög miklar og mikil þensla á
byggingarmarkaði sem hefur áhrif á fjárfestingar sveitarfélaganna. Þá hefur
yfirtaka sveitarfélaganna á málefnum fatlaðra reynst mun kostnaðarsamari en
lagt var upp með. 

Markmið Kópavogsbæjar í niðurgreiðslu skulda næst engu að síður á næsta ári.
Skuldahlutafall bæjarins lækkar umtalsvert og hraðar en aðlögunaráætlun gerði
ráð fyrir, og verður komið niður í 156,1% í árslok 2016. Lögboðnar skyldur
sveitarfélagsins til að lækka skuldir hafa áhrif á getu sveitarfélagsins til
framkvæmda á næsta ári. 

Meðal nýrra verkefna sveitarfélagsins á næsta ári er aukin áhersla á
íbúalýðræði. Meðal annars verður veitt 100 milljónum til verkefna í
nærsamfélaginu sem íbúar geta tekið þátt í að ráðstafa með kosningu og
hverfaráðin verða efld. Þá verður ráðist í heildarstefnumótun fyrir alla
starfsemi bæjarins og árangursmælingar teknar upp. 

„Fjárhagsáætlun bæjarins sýnir þá áherslu sem við höfum lagt á skattalækkanir
annars vegar og niðurgreiðslu skulda bæjarfélagsins hins vegar. Fjórða árið í
röð lækkum við fasteignaskatt og áfram er útsvar undir leyfilegu hámarki.
Skuldahlutfall bæjarins lækkar verulega sem er í samræmi við þá ábyrgð sem við
leitumst við að sýna í rekstri bæjarfélagsins. Hagur bæjarins er að vænkast og
íbúar njóta góðs af því,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs. 

A-hluti bæjarsjóðs verður rekinn með 85 milljóna rekstrarafgangi á næsta ári að
því er fram kemur í fjárhagsáætlunni. Þá verður samstæða Kópavogsbæjar rekin
með 246 milljón króna rekstrarafgangi á næsta ári. 

Gert er ráð fyrir að skuldahlutfall Kópavogsbæjar komist undir 150% viðmið árið
2017. Um síðustu áramót var skuldahlutfallið 175,2% en áætlun fyrir árið 2015
gerir ráð fyrir skuldahlutfallið verði 165,6% í árslok 2015.