2011-11-15 15:00:04 CET

2011-11-15 15:01:05 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Reykjavíkurborg - Fyrirtækjafréttir

Jafnvægi náð í fjármálum Reykjavíkurborgar - AÐHALD Í STAÐ NIÐURSKURÐAR




Ákveðnu jafnvægi hefur verið náð í rekstri Reykjavíkurborgar eftir tímabil
þriggja ára niðurskurðar. Tekist hefur að ná utan um erfiða fjárhagsstöðu
borgarinnar og fyrirtækja hennar. Þetta kemur fram í frumvarpi til
fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2012. Jón Gnarr, borgarstjóri,
leggur frumvarpið fram til fyrri umræðu á fundi borgarstjórnar í dag. 

Nauðsynlegar aðgerðir sem farið var í til að bæta fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur
hafa eytt óvissu og skila sér nú í umtalsvert meira öryggi fyrir rekstur
Reykjavíkurborgar. Niðurgreiðsla skulda Orkuveitunnar er þegar hafin. 

Nýgerðir kjarasamningar þýða verulegan kostnaðarauka fyrir Reykjavíkurborg.
Fagsvið borgarinnar fá hækkun á fjárhagsáætlun sinni til að mæta þeim kostnaði
en þurfa að öðru leyti áfram að beita ströngu aðhaldi í rekstri sínum. 

Fjárhagsáætlun ársins 2012 einkennist af ábyrgri fjármálastjórn. Sterkri stöðu
borgarsjóðs verður viðhaldið til að tryggja fjármögnun Reykjavíkurborgar og
fyrirtækja hennar á sem hagstæðustum kjörum. Háar skuldir fyrirtækja
borgarinnar kalla á að skilað verði rekstrarafgangi næstu ár svo hægt verði að
greiða niður skuldir. 

Valin er varfærin leið aðhalds í rekstri og hóflegra hækkana á þjónustugjöldum
sem munu aðeins fylgja verðlagshækkunum. Reykjavíkurborg mun því áfram verða
ódýrasta sveitarfélagið í þjónustu við barnafjölskyldur. Þá mun ekki verða
dregið úr velferðarþjónustu borgarinnar. 

Fasteignagjöld lækka úr 0.225% í 0.2%. Tekjur af fasteignaskatti af
íbúðarhúsnæði lækka um 75 milljónir króna en hefðu að óbreyttu hækkað um 230
mkr. Lóðarleiga vegna íbúðarhúsnæðis hækkar hins vegar úr 0.165% í 0.2% til
mótvægis og fara tekjur af henni úr 258 milljónir króna í 350 mkr. Þetta
tryggir að fasteignagjöld verða svipuð að krónutölu hjá langflestum
fasteignaeigendum á milli ára. Reykjavíkurborg mun því áfram bjóða upp á ein
lægstu álagningargjöld fasteigna á landinu. 

Framkvæmdastigi verður áfram haldið háu en varið verður 6.5 milljörðum í
framkvæmdir sem snúast einkum um verkefni sem auka ekki fastan rekstrarkostnað
borgarinnar. 

Enn fremur er opnað fyrir aukna lýðræðislega aðkomu almennings að
fjárhagsáætlanavinnu við skiptingu smærri nýframkvæmda og viðhaldsverkefna í
hverfum borgarinnar. Samráðsvefurinn Betri Reykjavík verður notaður til að taka
við hugmyndum frá íbúum um þessi verkefni. Þau verða síðan kostnaðarmetin og að
lokum stillt upp í rafræna, bindandi kosningu. 

Gert er ráð fyrir því að fjárhagsleg staða heildarreksturs Reykjavíkurborgar
batni umtalsvert miðað við árið 2011. Samkvæmt áætluninni styrkist
eiginfjárhlutfall á ný, veltufjárhlutfall batnar og hlutfall skuldsetningar
lækkar. 

Nánari upplýsingar veitir aðstoðarmaður borgarstjóra: Sigurður Björn Blöndal í
síma: 661 - 9899