2021-10-21 17:58:07 CEST

2021-10-21 17:58:09 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Vátryggingafélag Íslands hf. - Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

VÍS: Uppgjör 3. ársfjórðungs 2021


Árshlutareikningur félagsins fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2021 var staðfestur af stjórn og forstjóra á stjórnarfundi þann 21. október 2021.

Helstu niðurstöður 3F 2021

  • Hagnaður fjórðungsins var 2,2 milljarðar samanborið við 1,0 milljarð á sama tíma í fyrra.
  • Hagnaður af vátryggingarekstri í fjórðungnum var 628 milljónir samanborið við 358 milljóna hagnað á sama tímabili 2020.
  • Samsett hlutfall fjórðungsins var 90,5% en var 94,5% á sama tíma í fyrra.
  • Iðgjöld tímabilsins voru 5.955 milljónir í samanburði við 5.735 milljónir á sama tíma í fyrra.
  • Tekjur af fjárfestingarstarfsemi voru 2,0 milljarðar en var 1,1 milljarður á sama tímabili 2020.

Helstu niðurstöður 9M 2021

  • Hagnaður fyrstu níu mánuði ársins var 6,7 milljarðar en á sama tíma í fyrra var tap upp á 15 milljónir.
  • Hagnaður af vátryggingarekstri fyrir tímabilið var 543 milljónir samanborið við 1.210 milljóna tap árið áður.
  • Samsett hlutfall fyrstu níu mánuði ársins er 97,7% en var 108,0% á sama tímabili í fyrra.
  • Tekjur af fjárfestingarstarfsemi á fyrstu níu mánuðum ársins nema 7,1 milljarði en námu 2,6 milljörðum árið áður.

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS:

„Fjórðungurinn var góður, með tilliti til fjárfestinga og trygginga. Hagnaður fjórðungsins nam 2,2 milljörðum króna. Afkoman fyrir fyrstu níu mánuði ársins er 6,7 milljarðar ─ sem er mikill viðsnúningur frá því í fyrra. Afkoma af tryggingarekstrinum á fjórðungnum nam 628 milljónum og er í takt við væntingar okkar. Tjónahlutfall fjórðungsins var 68,6% og hefur ekki verið lægra í þrjú ár. Samsett hlutfall fjórðungsins var 90,5% en var 94,5% á sama tíma í fyrra. Gefin var út afkomuspá í byrjun árs sem er enn í gildi ─ og áfram er gert ráð fyrir að samsett hlutfall ársins verði á bilinu 97-99%.  

Góð ávöxtun hlutabréfa

Fjárfestingartekjur í fjórðungnum námu tveimur milljörðum sem jafngildir 4,5% nafnávöxtun. Fjárfestingartekjur frá áramótum nema sjö milljörðum og er nafnávöxtunin 16,2%. Stærsti hluti fjárfestingartekna í fjórðungnum er af hlutabréfum eða um 1,7 milljarðar. Fjárfestingareignir félagsins hafa aldrei verið meiri og nema nú 46 milljörðum króna.

Einfaldlega betri tryggingar

Á fjórðungnum kynntum við til sögunnar nýtt og stórbætt kaupferli líf- og sjúkdómatrygginga. Þetta er stafrænt ferli frá upphafi til enda ─ þar sem upplifun viðskiptavina og sjálfvirkni leika aðalhlutverk. Nú er hægt er að ganga frá kaupunum á örfáum mínútum. Ég er virkilega stoltur af þeim endurbættu tryggingum sem við höfum kynnt til sögunnar á árinu. Ökuvísir er nýjung í ökutækjatryggingum en fjölmargir viðskiptavina okkar borga lægra verð vegna þess að þeir keyra betur. Við teljum okkur líka bjóða upp á þá bestu kaskótryggingu sem völ er á hér á landi ─ því hún er með víðtækustu verndina. Þetta eru einfaldlega betri tryggingar.

Jafnrétti er ákvörðun

Við erum stolt af því að hafa náð að útrýma launamun kynjanna hjá félaginu. Allt frá því að við settum jafnréttismálin á oddinn fyrir tæpum 20 árum hefur hver áfangasigurinn unnist. Við vorum í hópi þeirra fyrirtækja sem fyrst fengu jafnlaunavottun fyrir fjórum árum eða í lok árs 2017 ─ og í samræmi við vottunina hefur launamunur verið óverulegur og innan viðmiðunarmarka. Nú höfum við náð þeim mikilvæga áfanga að ekki mælist launamunur hjá félaginu. Þetta er afrakstur margra ára ásetnings um að útrýma launamun kynjanna. Ég er því mjög stoltur af þessum áfanga. Við leggjum ríka áherslu á jafnrétti ─ og má geta þess að hlutfall framkvæmdastjóra og forstöðumanna er til helmings konur og karlar.“

Horfur

Langtímamarkmið félagsins er að samsetta hlutfallið sé ekki hærra en 95% og arðsemi eigin fjár sé að lágmarki 15%. Farið verður yfir samsett hlutfall hvers ársfjórðungs í uppgjörum ásamt stöðu og horfum í rekstri félagsins. 

Horfur um samsett hlutfall ársins 2021 

Félagið gerir ráð fyrir að samsett hlutfall ársins 2021 verði á bilinu 97-99%.

Félagið mun tilkynna ef breytingar verða á horfum ársins um samsett hlutfall, s.s. vegna stórra tjóna eða annars sem hefur umtalsverð áhrif á rekstur félagsins, svo að verðmótandi teljist fyrir hlutabréf þess. 

Kynningarfundur

Kynningarfundur vegna uppgjörsins fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn föstudaginn 22. október, klukkan 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 3. Helgi Bjarnason, forstjóri, mun kynna uppgjörið og svara spurningum.

Hægt verður að fylgjast með fundinum á þessari slóð: https://vis.is/3-arsfjordungur-2021/ og þar verður einnig hægt að nálgast upptöku af fundinum. Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast á sömu slóð.  

Fjárhagsdagatal

Ársuppgjör 2021  ||  24. febrúar 2022
Aðalfundur 2022  ||  17. mars 2022

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri VÍS, í síma 660-5260 eða með netfanginu erlat@vis.is


Viðhengi