2016-11-17 17:54:25 CET

2016-11-17 17:54:25 CET


REGLAMENTUOJAMA INFORMACIJA

Islandų
Reginn hf. - Fyrirtækjafréttir

Reginn hf.: Samkomulag um kaup á fasteignafélaginu FM-hús ehf.


Þann 17. nóvember 2016 var undirritað samkomulag á milli Regins hf. (Reginn),
Vátryggingafélags Íslands hf. (VÍS) og eigenda fasteignafélagsins FM-hús ehf.
(hér eftir „FM-hús“ og „félagið“) um kaup Regins og VÍS á 63,0% hlutafjár í
FM-húsum. Eignarhlutur Regins í félaginu verður 47,0% og VÍS mun eignast 16,0%
Samkomulagið er með fyrirvörum m.a um áreiðanleikakönnun,  samþykki
Samkeppniseftirlitsins o.fl. 

Fyrirhuguð kaup á FM-húsum miðast við að heildarvirði (EV) eignasafns félagsins
sé 3.750 m.kr. Gert er ráð fyrir að félagið verði nánast skuldlaust við kaupin.
Nýir hluthafar í félaginu munu greiða fyrir eignarhluti sína með reiðufé.
Arðsemi viðskiptanna (e. yield) er um 7%. 

Tilgangur viðskiptanna er að kaupa gott og arðbært eignasafn sem mun að
ákveðnum tíma liðnum verða alfarið í eigu Regins. Kaupin eru í samræmi við
fjárfestingarstefnu félagsins og þá sýn að fjölga samstarfsverkefnum þar sem
einkaaðilar og opinberir aðilar vinna saman að uppbyggingu og rekstri verkefna. 

FM-hús er gamalgróið og fjárhagslega sterkt fasteignafélag. Félagið er einkar
áhugaverður fjárfestingarkostur m.t.t. leigusamninga, gæða eigna og leigutaka.
Fasteignasafnið samanstendur af 5 fasteignum og heildarfermetrafjöldi þeirra er
um 10.500 fermetrar. Um er að ræða skólabyggingar að Vesturbrú 7 í Garðabæ,
Kríuási 1, Kríuási 2 og Tjarnabraut 30 í Hafnarfirði auk skrifstofu- og
atvinnuhúsnæðis að Bæjarhrauni 8 í Hafnarfirði. Útleiguhlutfall fasteignanna er
100%. Leigutakar eru 9 og standa opinberir aðilar, Hafnarfjarðarbær og Garðabær
á bak við 90% af leigutekjum fasteignasafnsins og er meðaltími leigusamninga um
10 ár. Í hluta eignanna sinnir leigusali stoðþjónustu sem veitt er leigutaka
s.s. ræstingu og þrif á húsnæði, öryggisgæslu, umsjón húsnæðis, lóðar o.fl. 

Með fjárfestingu þessari skapast tækifæri til að nýta styrk og getu félagsins
til frekari vaxtar. Núverandi og væntanlegir hluthafar FM-húsa telja að
eignasamsetning, fjárhagslegur styrkur og fjárhagsskipan félagsins henti vel
til frekari fjárfestinga og uppbyggingar á kjarnasviði félagsins. Fyrirhugað er
að ráðast strax í frekari fjárfestingar gangi kaupin eftir. Áætlað er að
heildarvirði (EV) eignasafns félagsins geti orðið allt að 12 - 15 ma.kr. í lok
fjárfestingatímabilsins. 

Áætlað er að innan 12 – 18 mánaða eða við lok fjárfestingatímabilsins muni
félagið renna inn í samstæðu Regins með kaupum þess á öllu hlutafé FM-húsa. 
Fyrirhugað er að endanlegt hluthafasamkomulag milli hluthafa í FM húsum, sem
verði undirritað samhliða kaupsamningi, innihaldi ákvæði um að Reginn eigi
kauprétt að hlutum annarra hluthafa í félaginu næstu 18 mánuði eftir undirritun
kaupsamnings. Ef til slíkra kaupa kemur mun Reginn jafnframt hafa möguleika á
að afhenda hlutafé í Reginn sem greiðslu í slíkum viðskiptum.  Slíkt er þó háð
samþykki hluthafafundar Regins. 

Eftir viðskiptin verða hluthafar FM-húsa, auk Regins og VÍS, Benedikt Rúnar
Steingrímsson (18,5%), Magnús Jóhannsson (14,8%) og Særún Garðarsdóttir (3,7%). 

Ráðgjafi Regins í viðskiptunum er Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans.

Nánari upplýsingar veitir:

Helgi S. Gunnarsson

Forstjóri Regins hf.

S: 512 8900 / 899 6262