2016-05-12 18:49:20 CEST

2016-05-12 18:49:20 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Hagar hf. - Ársreikningur

Hagar hf. ársuppgjör 2015/16


Ársreikningur Haga hf. fyrir rekstrarárið 2015/16 var samþykktur af stjórn og
forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 12. maí 2016. Reikningurinn er fyrir
rekstrarárið 1. mars 2015 til 29. febrúar 2016. Ársreikningurinn hefur að geyma
samstæðureikning félagsins og dóttur­félaga þess og er hann gerður í samræmi
við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Endurskoðendur félagsins, KPMG
ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralausri áritun. 



Helstu upplýsingar

  -- Hagnaður rekstrarársins nam 3.596 millj. kr. eða 4,6% af veltu.
  -- Vörusala rekstrarársins nam 78.366 millj. kr.
  -- Framlegð rekstrarársins var 24,4%.
  -- Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 5.659
     millj. kr.
  -- Heildareignir samstæðunnar námu 29.705 millj. kr. í lok rekstrarársins.
  -- Handbært fé félagsins nam 3.810 millj. kr. í lok rekstrarársins.
  -- Eigið fé félagsins nam 16.368 millj. kr. í lok rekstrarársins.
  -- Eiginfjárhlutfall var 55,1% í lok rekstrarársins.



Söluaukning félagsins var 1,6% og rekstrarkostnaður hækkaði umfram
framlegðaraukningu 

Vörusala rekstrarársins nam 78.366 milljónum króna, samanborið við 77.143
milljónir króna árið áður. Söluaukning félagsins milli ára var því 1,6%. Hækkun
12 mánaða meðaltals vísitölu neysluverðs milli rekstrarára var 1,86% en hækkun
vísitölunnar án húsnæðis var 0,35%. Framlegð félagsins var 19.109 milljónir
króna, samanborið við 18.504 milljónir króna árið áður eða 24,4% framlegð
samanborið við 24,0% á fyrra ári. Framlegð hækkar um 605 milljónir króna milli
ára. Hins vegar hækkar rekstrarkostnaður í heild um 639 milljónir króna eða
4,9% milli ára. Rekstrarkostnaður hækkar því um 34 milljónir króna umfram
framlegðaraukningu á rekstrarárinu. Laun hækka um 7,2% milli ára og annar
rekstrarkostnaður hækkar um 2,5%. Kostnaðarhlutfallið í heild hækkar úr 16,9% í
17,4%. 

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 5.659 milljónum
króna, samanborið við 5.616 milljónir króna árið áður. EBITDA hlutfall var
7,2%, samanborið við 7,3% árið áður. 

Á fjórða ársfjórðungi féllu tvö dómsmál sem Hagar voru aðili að. Annars vegar
voru Hagar dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness til að greiða Norvik hf. skaðabætur
vegna tjóns af völdum svonefnds mjólkurverðstríðs á árunum 2005-2006. Færð
hefur verið skuldbinding að fjárhæð 413 milljónir króna vegna málsins en Hagar
munu áfrýja málinu til Hæstaréttar. Hins vegar féll dómur í Hæstarétti í máli
Haga gegn íslenska ríkinu en þar var ríkinu gert að endurgreiða félaginu
ólögmæta gjaldtöku ríkisins af innfluttum landbúnaðarvörum. Upphæðin er ekki
tekjufærð í uppgjörinu og verður ekki tekjufærð þar sem dæmdum fjármunum verður
skilað aftur til viðskiptavina í formi lægra vöruverðs. 

Hagnaður rekstrarársins fyrir skatta nam 4.498 milljónum króna, samanborið við
4.795 milljónir króna árið áður. Hagnaður eftir skatta nam 3.596 milljónum
króna á rekstrarárinu, sem jafngildir um 4,6% af veltu, en hagnaður eftir
skatta á fyrra ári var 3.838 milljónir. 

Heildareignir samstæðunnar í lok rekstrarársins námu 29.705 milljónum króna.
Fastafjármunir voru 16.684 milljónir króna og veltufjármunir 13.021 milljónir
króna en þar af eru birgðir 4.756 milljón króna. 

Eigið fé félagsins var 16.368 milljónir króna í lok rekstrarársins og
eiginfjárhlutfall 55,1%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 13.337 milljónir
króna, þar af voru langtímaskuldir 4.257 milljónir króna. Nettó vaxtaberandi
skuldir félagsins í lok rekstrarársins voru 701 milljónir króna en alls voru
greiddar afborganir að fjárhæð 752 milljónir króna inn á langtímalán félagsins
á rekstrarárinu. 

Handbært fé frá rekstri á rekstrarárinu nam 5.754 milljónum króna, samanborið
við 4.349 milljónir króna á fyrra ári, en 937 milljónir króna voru greiddar í
tekjuskatt á rekstrarárinu. Fjárfestingarhreyfingar rekstrarársins voru 2.548
milljónir króna og voru þar af fjárfestingar í fasteignum 1.371 milljónir
króna. Fjármögnunarhreyfingar voru 2.744 milljónir króna en á rekstrarárinu
voru greiddar 1.992 milljónir króna í arð til hluthafa. Félagið fjárfesti auk
þess í öllu hlutafé í Gargon ehf. en eina eign félagsins er fasteignin
Smiðjuvöllum 32 Akranesi, þar sem verslun Bónus er til húsa. Gargon verður
sameinað Högum frá og með 1. mars 2016. 

Handbært fé í lok rekstrarársins var 3.810 milljónir króna, samanborið við
3.348 milljónir króna árið áður og hækkaði handbært fé því um 462 milljónir
króna á rekstrarárinu. 



Staðan og framtíðarhorfur

Rekstrarárið sem var að líða stóðst áætlanir félagsins og var mjög sambærilegt
uppgjörinu ári áður. Fyrsti ársfjórðungur rekstrarársins einkenndist þó af
áhrifum verkfalla og kostnaðarauka vegna kjarasamninga. Annar ársfjórðungur var
nokkuð betri og jókst hagnaður milli ára umfram áætlanir félagsins. Þriðji og
fjórði ársfjórðungur hafa einkennst af stöðugleika. 

Fjárfestingar á rekstrarárinu sem var að líða námu 2.548 milljónum króna en þar
af fjárfesti félagið 1.371 milljónum króna í fasteignaverkefnum. Vinnu lauk við
byggingu nýs vöruhúss Banana við Korngarða í Reykjavík og flutti fyrirtækið
starfsemi sína í febrúar sl. Auk þess fjárfesti félagið í tveimur fasteignum,
annars vegar í Skipholti í Reykjavík og við Túngötu í Reykjanesbæ þar sem Bónus
hefur opnað verslanir. Þá festi félagið kaup á fasteigninni undir verslun Bónus
á Smiðjuvöllum 32 á Akranesi í gegnum Gargon ehf. 

Á rekstrarárinu voru opnaðar þrjár nýjar Bónusverslanir. Í ágúst opnaði verslun
Bónus í Skipholti og í október opnaði Bónus verslun sína við Túngötu í
Reykjanesbæ. Það var svo í byrjun febrúar sem Bónus opnaði í Vestmannaeyjum en
þar leigir Bónus húsnæði undir starfsemi sína. Verslanirnar eru allar
glæsilegar og hafa fengið frábærar móttökur. Þess má einnig geta að í upphafi
árs var Bónus valið vinsælasta fyrirtæki landsins í könnun Frjálsrar verslunar
þriðja árið í röð. Var þetta í 14. skipti sem Bónus hlýtur þessa nafnbót. 

Framkvæmdir eru hafnar við minnkun verslunar Hagkaups í Smáralind en í desember
sl. skrifaði fyrirtækið undir nýjan leigusamning um 5.600 m2 til 10 ára. Gert
er ráð fyrir að ný og glæsileg verslun opni í byrjun nóvember nk. Samið hefur
verið til skamms tíma fyrir Debenhams og mun núverandi samningur því renna út í
maí 2017. 

Verslun Karen Millen var lokað í Smáralind í lok febrúar sl. Tekin hefur verið
ákvörðun um lokun verslunar Evans í Smáralind í lok júní. 



Arðgreiðslustefna félagsins

Á síðasta ári markaði stjórn félaginu arðgreiðslustefnu þar sem stefnt er að
því að Hagar greiði hluthöfum sínum árlegan arð, sem nemi að lágmarki 50%
hagnaðar næstliðins rekstrarárs. Stjórn félagsins mun leggja til við aðalfund
þann 3. júní nk. að greiddur verði arður til hluthafa sem nemur 1,7 krónu á
hlut eða tæpar 1.992 milljónir króna. Er þetta óbreytt arðgreiðsla á hlut frá
fyrra ári en hlutfall hennar nemur 55,4% hagnaðar. Arðgreiðslan í fyrra nam
tæpum 52% hagnaðar. 

Stjórn félagsins leggur auk þess til að stefnt verði að kaupum á eigin bréfum,
sé svigrúm til þess, skv. formlegri endurkaupaáætlun, í þeim tilgangi að lækka
hlutfé félagsins. Verður tillaga þess efnis lögð fram á næsta aðalfundi. 



Hagar skila ólögmætum gjöldum ríkissjóðs til viðskiptavina sinna

Þann 21. janúar sl. var kveðinn upp dómur í Hæstarétti í máli Haga gegn
íslenska ríkinu. Högum voru dæmdar 245 milljónir króna auk vaxta vegna
ólögmætrar gjaldtöku ríkissjóðs af innfluttum landbúnaðarvörum. Eftir dóminn
gerði félagið kröfu á íslenska ríkið um greiðslu 338 milljóna króna til
viðbótar, auk vaxta. Hluti þeirrar kröfu hefur fengist greiddur, eða 217
milljónir króna, en ágreiningur er um eftirstöðvarnar. Afstaða Haga til þess
hvernig fjármununum skyldi varið hefur ávallt legið fyrir en þeim verður skilað
til viðskiptavina félagsins í gegnum lægra vöruverð. Bónus og Hagkaup hafa nú
þegar boðið innfluttan heilan kjúkling og kjúklingabringur á lækkuðu verði
vegna framangreindrar endurgreiðslu og mun félagið áfram bjóða vörur á lægra
verði en ella þar til öllum framangreindum fjármunum hefur verið skilað til
viðskiptavina. 



Bónus og Hagkaup styrkja góð málefni

Í tilefni af góðu uppgjöri félagsins mun Guðmundur Marteinsson,
framkvæmdastjóri Bónus, afhenda styrk til Umhyggju, félags til stuðnings
langveikra barna að upphæð 2 milljónir króna, til BUGL, barna- og
unglingageðdeildar Landspítalans að upphæð 2 milljónir króna og til fræðslu- og
batasetursins Vin, sem Rauði krossinn rekur að upphæð 1 milljón króna. Gunnar
Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, mun að sama skapi afhenda styrki
til Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra vegna Reykjadals að upphæð 2 milljónir
króna, Sjónarhóls, félags fyrir sérstök börn til betra lífs að upphæð 2
milljónir króna og Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna að upphæð 1 milljónir
króna.  Auk framangreindra málefna styrkja fyrirtæki Haga árlega fjölmörg
æskulýðs-, góðgerðar og mannúðarmál. 



Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn á Hilton
Reykjavík Nordica, föstudaginn 13. maí kl. 8:30, en þar mun Finnur Árnason
forstjóri Haga kynna afkomu félagsins og svara spurningum ásamt stjórnendum
félagsins. 

Kynningarefni, ásamt upptöku af fundinum, verður aðgengilegt að honum loknum á
heimasíðu Haga, www.hagar.is. 



Fjárhagsdagatal 2016/17



Aðalfundur 3. júní 2016



1. ársfjórðungur (1. mars – 31. maí): 29. júní 2016

2. ársfjórðungur (1. mars – 31. ágúst): 27. október 2016

3. ársfjórðungur (1. mars – 30. nóvember): 12. janúar 2017

4. ársfjórðungur (1. mars – 28. feb): 15. maí 2017



Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.