2024-06-28 18:00:00 CEST

2024-06-28 18:00:01 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Arion Bank hf. - Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Arion banki gerir sátt við fjármálaeftirlitið


Arion banki hefur gert sátt við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands. Sáttin er gerð í kjölfar könnunar eftirlitsins, sem fram fór sumarið 2022, á aðgerðum bankans gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og skráningu og rekjanleika í upplýsingakerfum bankans í tengslum við þær aðgerðir. Sáttin felur í sér að bankinn fellst á að greiða sekt að upphæð 585 milljónir króna.

Könnun fjármálaeftirlitsins árið 2022 leiddi í ljós annmarka á framkvæmd bankans þegar kemur að almennu áhættumati vegna peningaþvættis og fjármögnun hryðjuverka og áhættumati samningssambanda og einstakra viðskipta. Einnig á framkvæmd áreiðanleikakannanna, reglubundins eftirlits og tilkynninga.

Með sáttinni viðurkennir bankinn annmarka á framangreindri framkvæmd og þykir okkur miður að ekki hafi verið rétt staðið að málum á þessum tíma.

Arion banki hefur unnið markvisst að því að efla fyrirkomulag varna gegn peningaþvætti í allri starfsemi sinni. Athugasemdum fjármálaeftirlitsins var strax tekið alvarlega og ráðist í allsherjar endurskoðun á framkvæmd þessara mála og er úrbótavinna langt á veg komin.

Meðal annars voru viðeigandi deildir og svið endurskipulögð og efld. Þar á meðal er sérhæfð deild bankans sem skipuð er reynslumiklu starfsfólki sem vinnur þétt með framlínu bankans við að fylgja eftir aðvörunum úr færslueftirlitskerfum og ábendingum frá starfsfólki um óhefðbundna viðskiptahegðun og önnur atriði sem benda til aukinnar hættu á peningaþvætti. Einnig hefur verið fjárfest í nýjum upplýsingakerfum og starfsfólki sem sinnir þessu eftirlitshlutverki bankans verið fjölgað umtalsvert. Jafnframt var sjálfstæðri einingu innan regluvörslu bankans nýlega komið á fót sem hefur það hlutverk að leiða vinnu við gerð og uppfærslu áhættumats til að bera kennsl á og meta hættu á peningaþvætti í starfsemi bankans.