2015-05-12 19:21:12 CEST

2015-05-12 19:22:13 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Hagar hf. - Ársreikningur

Hagar hf. ársuppgjör 2014/15


Ársreikningur Haga hf. fyrir rekstrarárið 2014/15 var samþykktur af stjórn og
forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 12. maí 2015. Reikningurinn er fyrir
rekstrarárið 1. mars 2014 til 28. febrúar 2015. Ársreikningurinn hefur að geyma
samstæðureikning félagsins og dóttur­félaga þess og er hann gerður í samræmi
við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Endurskoðendur félagsins, KPMG
ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralausri áritun. 



Helstu upplýsingar

  -- Hagnaður rekstrarársins nam 3.838 millj. kr. eða 5,0% af veltu.
  -- Vörusala rekstrarársins nam 77.143 millj. kr.
  -- Framlegð rekstrarársins var 24,0%.
  -- Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 5.616
     millj. kr.
  -- Heildareignir samstæðunnar námu 27.609 millj. kr. í lok rekstrarársins.
  -- Handbært fé félagsins nam 3.348 millj. kr. í lok rekstrarársins.
  -- Eigið fé félagsins nam 14.764 millj. kr. í lok rekstrarársins.
  -- Eiginfjárhlutfall var 53,5% í lok rekstrarársins.



Söluaukning félagsins var 1,3% og framlegðarhlutfall lækkaði á milli ára um
0,3%-stig 

Vörusala rekstrarársins nam 77.143 milljónum króna, samanborið við 76.158
milljónir króna árið áður. Söluaukning félagsins milli ára var því 1,3%. Hækkun
12 mánaða meðaltals vísitölu neysluverðs milli rekstrarára var 1,74% en hækkun
vísitölunnar án húsnæðis var 0,45%. Framlegð félagsins var 18.504 milljónir
króna, samanborið við 18.471 milljónir króna árið áður eða 24,0% framlegð
samanborið við 24,3% á fyrra ári. Rekstrarkostnaður í heild hækkar um 284
milljónir króna eða 2,2% milli ára. Þar af hækka laun um 3,2% milli ára og
annar rekstrarkostnaður hækkar um 1,3%. Kostnaðarhlutfallið í heild hækkar úr
16,7% í 16,9%. 



Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 5.616 milljónum
króna, samanborið við 5.862 milljónir króna árið áður. EBITDA framlegð var
7,3%, samanborið við 7,7% árið áður. 



Hagnaður rekstrarársins fyrir skatta nam 4.795 milljónum króna, samanborið við
4.875 milljónir króna árið áður.  Hagnaður eftir skatta nam 3.838 milljónum
króna á rekstrarárinu, sem jafngildir um 5,0% af veltu, en hagnaður eftir
skatta á fyrra ári var 3.953 milljónir. 



Heildareignir samstæðunnar í lok rekstrarársins námu 27.609 milljónum króna.
Fastafjármunir voru 14.520 milljónir króna og veltufjármunir 13.089 milljónir
króna. Þar af eru birgðir 4.606 milljón króna en birgðir hafa minnkað um 225
milljónir frá lokum síðasta rekstrarárs eða sem nemur 4,7%. 



Eigið fé félagsins var 14.764 milljónir króna í lok rekstrarársins og
eiginfjárhlutfall 53,5%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 12.845 milljónir
króna, þar af voru langtímaskuldir 4.791 milljónir króna. Nettó vaxtaberandi
skuldir félagsins í lok rekstrarársins voru 1.640 milljónir króna en 1.957
milljónir króna voru greiddar inn á langtímalán félagsins umfram lánssamning á
árinu. 



Handbært fé frá rekstri á rekstrarárinu nam 4.349 milljónum króna, samanborið
við 4.708 milljónir króna á fyrra ári, en 998 milljónir króna voru greiddar í
tekjuskatt á rekstrarárinu, sem er 313 milljónum króna meira en á fyrra ári.
Fjárfestingarhreyfingar rekstrarársins voru 2.136 milljónir króna og voru þar
af fjárfestingar í fasteignum 1.365 milljónir króna. Fjármögnunarhreyfingar
voru 3.008 milljónir króna en á rekstrarárinu voru greiddar 1.172 milljónir
króna í arð til hluthafa. Í september endurfjármagnaði félagið langtímalán sitt
við Arion banka að fjárhæð 4.300 milljónir króna en auk þess tók félagið nýtt
lán í febrúar vegna fasteignakaupa. 



Handbært fé í lok rekstrarársins var 3.348 milljónir króna, samanborið við
4.143 milljónir króna árið áður og lækkaði handbært fé því um 795 milljónir
króna á rekstrarárinu. 



Staðan og framtíðarhorfur

Rekstrarárið sem var að líða stóðst áætlanir félagsins. Stöðugleiki einkennir
uppgjörið. Sambærilegar horfur eru í rekstri fyrir rekstrarárið 2015/16 sem
hófst í mars sl. og gera áætlanir félagsins ráð fyrir því. Mikil óvissa ríkir á
vinnumarkaði en í áætlun ársins gerði félagið ráð fyrir hóflegri hækkun launa
og stöðugleika í verðlagi og gengi íslensku krónunnar. Ef til víðtækra
verkfalla kemur munu verkföllin hafa áhrif á félagið, þó að á þessari stundu
séu fjárhagsleg áhrif þeirra óljós. 



Fjárfestingar á rekstrarárinu sem var að líða námu 2.136 milljónum króna en þar
af fjárfesti félagið 1.365 milljónum króna í fasteignaverkefnum. Hafin er vinna
við byggingu nýs vöruhúss Banana við Korngarða í Reykjavík og fellur hluti
þeirrar fjárfestingar á nýliðið rekstrarár. Þungi fjárfestingarinnar mun þó
falla á rekstrarárið 2015/16 en áætlanir gera ráð fyrir að starfsemi Banana
verði flutt í hið nýja húsnæði fyrir lok rekstrarársins. Auk verkefnis við
Korngarða fjárfesti félagið í fasteigninni við Stekkjarbakka 4-6 í Reykjavík en
hluti fjárfestingarinnar var fjármagnaður með langtímaláni hjá Arion banka. 
Áform eru um að opna Bónusverslun á þeim hluta lóðarinnar sem stendur við hlið
Garðheima og ÁTVR, en eignin er tekjuberandi og langtímaleigusamningar við þá
tvo aðila fylgdu kaupum eignarinnar. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvenær
verslunin verður opnuð. 



Í nóvember opnaði Hagkaup stórglæsilega sérvöruverslun á efri hæð Kringlunnar í
samstarfi við alþjóðlegu tískuvörukeðjuna F&F. F&F býður gæða tískufatnað fyrir
konur, karla og börn á lægra verði. Það sem af er nýju rekstrarári hefur
Hagkaup opnað fjórar nýjar F&F verslanir, í verslunum sínum í Garðabæ,
Akureyri, Spöng og Skeifu. Viðtökur hafa verið umfram væntingar og kunna
viðskiptavinir augljóslega að meta góðar vörur og hagstætt verð í F&F. 



Á rekstrarárinu verða opnaðar tvær nýjar Bónusverslanir, annars vegar í
Skipholti í Reykjavík og hins vegar í Vestmannaeyjum. Vonir standa til að báðar
verslanir opni á haustmánuðum. Félagið hefur gert samning um kaup á
fasteigninni í Skipholti en gerður var langtímaleigusamningur um
verslunarhúsnæðið í Vestmannaeyjum.  Bónus var í upphafi árs valið vinsælasta
fyrirtæki landsins í könnun Frjálsrar verslunar og er þetta í þrettánda skipti
sem Bónus hlýtur þessa nafnbót. 

Enn er unnið í samningum um framtíð félagsins í verslunarmiðstöðinni Smáralind.
Tveir stórir leigusamningar renna út í lok árs 2016 en ljóst er að félagið vill
fækka leigufermetrum í húsinu. Félagið hefur einnig fækkað leigufermetrum í
Kringlu en verslun Evans var lokað þar nú í febrúarlok. 



Áherslubreyting í arðgreiðslustefnu

Stjórn félagsins hefur markað félaginu arðgreiðslustefnu þar sem lögð skal
áhersla á að skila til hluthafa, beint eða óbeint, þeim verðmætum sem skapast í
rekstrinum á hverju ári, umfram nauðsynlegar fjárfestingar í rekstrarfjármunum.
Í því skyni stefnir félagið að áframhaldandi reglubundnum arðgreiðslum. Félagið
hyggst ekki kaupa eigin hlutabréf að sinni. Á undanförnum árum hefur félagið
greitt niður skuldir, en stjórn telur ekki frekari þörf á niðurgreiðslu skulda
umfram ákvæði lánssamninga. 



Stefnt er að því að Hagar greiði hluthöfum sínum árlegan arð, sem nemi að
lágmarki 50% hagnaðar næstliðins rekstrarárs. Að auki mun félagið, ef tækifæri
gefast, kaupa fasteignir á hagstæðu verði sem nýtast félaginu í starfsemi
sinni. Ef fjárfest er í fasteignum er stefnt að því að eiginfjárframlag
félagsins verði að lágmarki 30% af kaupverði. Stjórn félagsins mun leggja til
við aðalfund þann 4. júní nk. að greiddur verði arður til hluthafa sem nemur
1,7 krónu á hlut eða tæpar 1.992 milljónir króna. 



Kristín Friðgeirsdóttir stjórnarformaður - Ánægjuleg breyting í ráðstöfun
fjármuna 

Í tilefni af ársuppgjöri Haga hf. sagði Kristín Friðgeirsdóttir
stjórnarformaður: „Stjórn félagsins hefur undanfarin misseri lagt mikla áherslu
á að minnka vaxtaberandi skuldir félagsins og búa það undir aukna samkeppni. Ég
vil fyrir hönd stjórnar þakka starfsfólki fyrir frábæran árangur.  Félagið
býður viðskiptavinum sínum lægsta vöruverðið á landinu og sama verð um land
allt. Minni skuldsetning og þar með vaxtagreiðslur hafa nú skapað svigrúm til
þess að hluthafar njóti aukins arðs af rekstri félagsins. Á árunum 2008 - 2011
greiddi félagið árlega að meðaltali rúmlega 2,1 milljarð króna í vexti og
verðbætur. Á rekstrarárinu sem var að líða voru nettó fjármagnsgjöld félagsins
147 milljónir króna, þökk sé minni skuldsetningu. Það er ánægjulegt að sjá
þessa jákvæðu breytingu í ráðstöfun þeirra fjármuna sem skapast í rekstri
félagsins á sama tíma og félagið er ódýrasti valkosturinn á markaði og berst
ötullega fyrir bættum hag viðskiptavina sinna“. 



Skattkerfisbreytingar og styrking íslensku krónunnar skila sér í lægra verði
til viðskiptavina 

Um síðustu áramót varð umfangsmikil skattkerfisbreyting sem tók til neðra og
efra þreps virðisaukaskatts, auk vörugjalda. Vörugjöldin voru um 1 milljarður
króna af veltu félagsins án virðisaukaskatts á síðasta almanaksári. Félagið
lagði ríka áherslu á að skila að fullu og án tafar lækkun vörugjalda í verðlagi
til viðskiptavina sinna. Félagið lækkaði m.a. verð á birgðum af eigin
innflutningi strax um áramótin. Lækkunin kostaði félagið rúmlega 30 milljónir
króna. Framlegð félagsins á síðasta ári ber þess skýr merki að félagið skilaði
skattkerfisbreytingum og gengisstyrkingu íslensku krónunnar að fullu í lægra
verði til viðskiptavina sinna, enda leggur félagið ríka áherslu á
langtímasamband við viðskiptavini sína. 



Bónus og Hagkaup styrkja góð málefni

Í tilefni af góðu uppgjöri félagsins mun Guðmundur Marteinsson,
framkvæmdastjóri Bónus afhenda styrki til BUGL barna og unglingageðdeildar að
upphæð 3 milljónir króna, til sumarbúða fatlaðra í Reykjadal að upphæð 2
milljónir króna og til Ljóssins endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir
fólk sem hefur fengið krabbamein að upphæð 2 milljónir króna. Gunnar Ingi
Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaups mun að sama skapi afhenda styrki til
Krafts stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og
aðstandendur þess að upphæð 2 milljónir króna, LSH dag- og göngudeildar fyrir
átröskun (Hvítabandið) að upphæð 2 milljónir króna og Grensásdeild til
tækjakaupa að upphæð 3 milljónir króna. 



Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn á Hilton
Reykjavík Nordica, miðvikudaginn 13. maí kl. 8:30, en þar mun Finnur Árnason
forstjóri Haga kynna afkomu félagsins og svara spurningum ásamt stjórnendum
félagsins. 



Kynningarefni, ásamt upptöku af fundinum, verður aðgengilegt að honum loknum á
heimasíðu Haga, www.hagar.is. 



Fjárhagsdagatal 2015/16



Aðalfundur 4. júní 2015



1. ársfjórðungur (1. mars - 31. maí): 30. júní 2015

2. ársfjórðungur (1. mars - 31. ágúst): 28. október 2015

3. ársfjórðungur (1. mars - 30. nóvember): 12. janúar 2016

4. ársfjórðungur (1. mars - 29. feb): 12. maí 2016





Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.