2015-05-12 20:18:19 CEST

2015-05-12 20:19:24 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Arion Bank hf. - Ársreikningur

Afkoma Arion banka á fyrstu þremur mánuðum ársins 2015


Hagnaður Arion banka á fyrstu þremur mánuðum ársins 2015 markast mjög af
óreglulegum liðum. Þar hafa mest áhrif einskiptisatburðir eins og skráning og
sala bankans á hlutum í fasteignafélaginu Reitum og alþjóðlega
drykkjaframleiðandanum Refresco Gerber. Hagnaður bankans á tímabilinu nam 14,9
milljörðum króna samanborið við 2,9 milljarða króna á sama tímabili 2014.
Arðsemi eigin fjár var 35,1% samanborið við 7,8% á sama tímabili árið 2014.
Hagnaður af reglulegri starfsemi á tímabilinu nam 4,0 milljörðum króna
samanborið við 1,7 milljarða á sama tímabili 2014. Arðsemi eigin fjár af
reglulegri starfsemi nam 9,8% á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 4,6% á sama
tímabili 2014. Heildareignir námu 1.004,3 milljörðum króna samanborið við 933,7
milljarða króna í árslok 2014. 

Eiginfjárhlutfall bankans í lok tímabilsins var 23,9% en var 26,3% í árslok
2014. Hlutfall eiginfjárþáttar A nam 21,2% samanborið við 21,8% í lok árs 2014. 

Helstu atriði árshlutareikningsins

  -- Hagnaður eftir skatta nam 14,9 mö.kr. samanborið við 2,9 ma.kr. á sama
     tímabili 2014.
  -- Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 4,0 milljörðum króna samanborið við
     1,7 milljarð króna á sama tímabili 2014.
  -- Eiginfjárhlutfall nam 23,9% í lok tímabils samanborið við 26,3% í árslok
     2014.
  -- Arðsemi eigin fjár var 35,1% samanborið við 7,8% á sama tímabili 2014. Af
     reglulegri starfsemi nam arðsemin 9,8% á tímabilinu, samanborið við 4,6% á
     fyrsta ársfjórðungi 2014.
  -- Hreinar vaxtatekjur námu 5,8 mö.kr. samanborið við 5,5 ma.kr. á sama
     tímabili 2014.
  -- Hreinar þóknanatekjur námu 3,8 mö.kr. samanborið við 3,1 ma.kr. á sama
     tímabili 2014.
  -- Rekstrartekjur hækka á milli ára og námu 21,8 mö.kr. samanborið við 9,0
     ma.kr. á sama tímabili 2014. Mikil hækkun rekstrartekna er einkum tilkomin
     vegna söluhagnaðar og hækkunar á verðmati á eignarhlut í Reitum
     fasteignafélagi hf. og Refresco Gerber í tengslum við skráningu félaganna á
     markað.
  -- Hrein virðisbreyting er jákvæð á tímabilinu og nemur 1,8 ma.kr., samanborið
     við 2,0 ma.kr. á sama tímabili 2014.
  -- Tekju- og bankaskattar námu samtals 2,5 mö.kr. samanborið við 1,9 ma.kr. á
     sama tímabili 2014.
  -- Kostnaðarhlutfall var 29,3% en var 69,0% á sama tímabili 2014. Af
     reglulegri starfsemi nam kostnaðarhlutfall 53,2% samanborið við 69% á
     fyrsta ársfjórðungi 2014.
  -- Eigið fé bankans var 177,1 ma.kr. en nam 162,2 mö.kr. í lok árs 2014.



Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Afkoman á fyrsta ársfjórðungi þessa árs er mjög góð. Afkoman er vel umfram
væntingar þar sem betur tókst til við skráningu og sölu á hluta af eigarhlutum
bankans í tveimur félögum, í alþjóðlega drykkjarvöruframleiðandanum Refresco
Gerber og í Reitum fasteignafélagi. Þannig markast uppgjörið með jákvæðum hætti
af þessum óreglulegu liðum og þar sem um fyrsta ársfjórðung er að ræða eru
áhrifin mikil á helstu kennitölur. Þetta er vissulega góð og sterk byrjun á
árinu en það er ljóst að óreglulegir liðir munu ekki hafa þetta mikil  áhrif á
afkomu bankans það sem eftir lifir árs. 

Regluleg starfsemi bankans gekk vel á fyrsta ársfjórðingi og skilar ágætri
afkomu. Arðsemi reglulegrar starfsemi er tæplega 10% á tímabilinu. Við höldum
áfram að vinna að því að styrkja grunnrekstur bankans. Við höfum þar lagt mikla
áherslu á að auka hlutdeild þóknanatekna í heildartekjum bankans og jukust þær
um 19% miðað við sama tímabil fyrir ári. Af þóknanatekjum bankans koma rúm 80%
frá fyrirtækjum en tæp 20% úr þjónustu við einstaklinga í viðskiptabankanum. 

Sá mikilvægi áfangi náðist á tímabilinu að bankinn gaf út skuldabréf í evrum
sem nam 300 milljónum evra, eða um 45 milljörðum króna. Um var að ræða stærstu
skuldabréfaútgáfu íslensks banka í fjölmörg ár. Útgáfan sýnir vel þann árangur
sem hefur náðst hér á landi í efnahagsmálum sem og endurspeglar útgáfan trú
fjárfesta á bankanum og vinnu hans undanfarin ár. 

Á fjórðungnum fór fjöldi heimsókna í Arion appið í fyrsta skipti fram úr fjölda
heimsókna í netbanka í einstökum mánuði. Þessi þjónusta hefur opnað nýjar
víddir fyrir viðskiptavini í aðgengi og þjónustu og við sjáum þetta þróast
hraðar en metnaðarfull markmið okkar stóðu til. Nú eru um 40 þúsund virkir
notendur að Arion appinu. Þetta endurspeglar umbreytingu i bankaþjónustu og við
sjáum mikla fjárfestingu okkar í þessum tæknilausnum skila sér til
viðskiptavina.“ 



Fundur með markaðsaðilum

Arion banki mun halda símafund á ensku fyrir markaðsaðila, miðvikudaginn 13.
maí klukkan 9:00. Á fundinum mun Stefán Pétursson, fjármálastjóri Arion banka,
fara yfir helstu atriði í uppgjöri bankans. Áhugasamir geta sent tölvupóst á
ir@arionbanki.is fá í kjölfarið sendar nánari upplýsingar. 

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka,
haraldur.eidsson@arionbanki.is