2022-10-03 15:42:59 CEST

2022-10-03 15:43:02 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Orkuveita Reykjavíkur - Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Fjárhagsspá OR-samstæðunnar 2023-2027 samþykkt


Fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árin 2023-2027 ber með sér mikinn vöxt í fjárfestingum og rekstri. Ástæðurnar eru einkum tvær; stækkun og uppbygging dreifikerfa Veitna vegna nýs íbúðarhúsnæðis og nýrra samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu og bygging  förgunarstöðva Carbfix fyrir koldíoxíð úr útblæstri eða andrúmslofti. Alls er gert ráð fyrir fjárfestingum sem nema 184 milljörðum króna á árunum 2023 til og með 2027. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, telur fyrirtækin í samstæðunni og starfsfólk þeirra vel í stakk búin að takast á við þessi umfangsmiklu verkefni.

Fjárhagsspáin er samandregin fyrir Veitur, Orku náttúrunnar, Ljósleiðarann og Carbfix auk móðurfélagsins. Hún byggir á spám samþykktum í stjórnum dótturfélaganna og var samþykkt af stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í dag. Spáin fer til umræðu í borgarstjórn sem hluti fjárhagsáætlunar samstæðu Reykjavíkurborgar.

CODA-förgunarstöðin við Straumsvík komin í áætlanir

Áætlað er að Carbfix verji um 40 milljörðum króna í baráttuna við loftslagsvána með uppbyggingu förgunarstöðva fyrir koldíoxíð og í frekari rannsóknir til að þróa Carbfix-aðferðina sem breytir gróðurhúsalofttegundinni varanlega í stein. Umfangsmest eru áformin við Straumsvík, þar sem CODA-verkefnið verður byggt upp og fjárfestingar verða mestar á árunum 2024 og 2025. Undirbúningur sölu nýs hlutafjár í Carbfix stendur yfir til að fjármagna hluta fjárfestinganna og verkefnið hefur hlotið raunarlegan styrk úr Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins.

Átak í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, þétting byggðar og framfylgd Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins bætast við hefðbundin verkefni Veitna við viðhald og uppbyggingu vatnsveitna, rafveitna, hitaveitna og fráveitna á sunnan- og vestanverðu landinu. Veitur sjá nú þegar merki þenslu á verktakamarkaði sem reynir á hagkvæmni framkvæmda. Á spátímabilinu lýkur einnig átaksverkefni Veitna við innleiðingu snjallra orkumæla hjá viðskiptavinum.

Orkuskipti og nýr landshringur fjarskipta

Aukin sjálfbærni með bættri nýtingu og minni sóun er grunnstef þróunar Orku náttúrunnar á næstu árum. Ekki eru áform um aukna vinnslu rafmagns heldur bætta og aukna nýtingu þess sem þegar er framleitt af orku. Fjárfest er í gufuöflun og efldri gufuveitu fyrir Hellisheiðarvirkjun auk aðgerða til að draga úr umhverfisspori rekstursins. Viðskiptaþróun verður mikilvægur þáttur þar sem stuðningur við orkuskipti, einkum í samgöngum, og hagnýting hugmynda hringrásarhagkerfis í Jarðhitagarðinum eru í fyrirrúmi. Í Jarðhitagarðinum starfa nú þegar nokkur framsækin nýsköpunarfyrirtæki sem nýta meðal annars aukaafurðir jarðhitavinnslunnar.  Á tímabili spárinnar er gert ráð fyrir að umsvif í Jarðhitagarðinum aukist talsvert og tekjur af honum þar með.

Ljósleiðarinn hefur leitt uppbyggingu öflugra heimilistenginga fjarskipta hér á landi og á síðustu misserum brugðist við breyttum aðstæðum á fjarskiptamarkaði með aukinni áherslu á þjónustu við fjarskiptafyrirtæki. Uppbygging nýs landshrings fjarskipta er þáttur í þeirri aðlögun. Fyrir liggja hugmyndir um að fjármagna þessa og aðrar nauðsynlegar fjárfestingar með auknu hlutafé í fyrirtækinu. Hömlur eru á því að OR leggi það til. Því er í spánni gert ráð fyrir aukningu hlutafjár með aðkomu annarra fjárfesta en OR, fáist til þess heimild eigenda OR.

Traustur rekstur og fjárhagur

Traustur grunnrekstur og fjárhagur gerir OR vel kleift að styðja við þessa uppbyggingu og á sama tíma greiða eigendum arð. Þannig gerir fjárhagsspáin ráð fyrir að greiða eigendum samtals 27,5 milljarða króna arð á tímabili hennar. Eiginfjárhlutfall mun hækka á tímabili spárinnar.

Mikil uppbygging hitaveitna og aukin öflun heits vatns auk styrkingar rafveitna vegna orkuskipta kalla á að gjaldskrár þessarar þjónustu muni hækka. Hinsvegar er í spánni gert ráð fyrir að vatnsgjald lækki árið 2023 og fráveitugjald verði óbreytt, þrátt fyrir verðbólguna.

Bjarni Bjarnason, forstjóri:

Það er mikið verkefni að tryggja að þessi vöxtur samstæðunnar verði sjálfbær og komandi kynslóðum ábati fremur en baggi; fjárhagslega, samfélagslega og umhverfislega. Miklar fjárfestingar kalla á að Orkuveitusamstæðan sem vinnustaður standist fyrirséð álag og að vel sé fylgst með fjárfestingaverkefnum.

Átaksverkefnin fram undan ná til allra fyrirtækjanna í samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur og miða öll að því að efla sjálfbærni samfélagsins sem við rekum hér saman og auka lífsgæði. Það liggur mikið við að okkur takist vel til og ég tel að starfsfólk samstæðunnar sé vel undir verkefnin búið.


Tengiliður:
Benedikt Kjartan Magnússon
Framkvæmdastjóri fjármála OR
516 6100

Viðhengi