2013-07-24 19:24:04 CEST

2013-07-24 19:25:05 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel hf. - Ársreikningur

Afkoma annars ársfjórðungs 2013


Afkoman í samræmi við hægari viðsnúning á mörkuðum

(Allar fjárhæðir í EUR)

  -- Tekjur á 2. ársfjórðungi 2013 námu 178,4 milljónum evra, sem samsvarar 4,3%
     lækkun samanborið við sama tímabil árið 2012 [186,5 milljónir evra].

  -- EBITDA var 19 milljónir evra, sem er 10,6% af tekjum [Q2 2012: 18,6 
     milljónir evra].
  -- Rekstrarhagnaður (EBIT) var 12,3 milljónir evra, sem er 6,9% af tekjum [Q2
     2012: 12,2 milljónir evra].
  -- Hagnaður eftir skatta nam 5,2 milljónum evra [Q2 2012: 7 milljónir evra].
     Hagnaður á hlut (e. basic EPS) var 0,71 evru sent[Q2 2012: 0,96 evru sent].

  -- Sjóðstreymi er traust og nettó vaxtaberandi skuldir námu 228,8 milljónum
     evra í lok fjórðungsins samanborið við 262 milljónir evra í lok 2.
     ársfjórðungs 2012.
  -- Pantanabók stóð í 131,8 milljónum evra í lok fjórðungsins [Q2 2012: 182,6
     milljónir evra] sem samsvarar um 13% lækkun miðað við lok síðasta
     ársfjórðungs [151.1 milljón evra].



6,7% EBIT framlegð á fyrri hluta ársins 2013

  -- Tekjur námu 336,5 milljónum evra á fyrri hluta ársins 2013, sem er 9,4%
     samdráttur samanborið við sama tímabil árið 2012 [1H 2012: 371,3 milljónir
     evra].
  -- Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 22,6 milljónum evra á fyrri hluta ársins, sem
     er 6,7% af tekjum [1H 2012: 33,3 milljón evra].
  -- Hagnaður eftir skatta nam 10,9 milljónum evra á fyrri hluta ársins [1H
     2012: 20,1 milljón evra].

Afkoma Marel á fyrri helmingi ársins 2013 endurspeglar krefjandi
markaðsaðstæður og áframhaldandi töf á fjárfestingu á helstu mörkuðum
félagsins. Tekjur félagsins drógust saman um 9,4% samanborið við fyrri helming
ársins 2012. Staða pantanabókarinnar er lægri en hún var í lok annars
ársfjórðungs 2012 en þó 6 milljónum hærri en hún var í lok síðasta árs (125,4
milljónir evra). Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 6,7% sem er undir langtíma
rekstrarmarkmiði félagsins um 10-12% (H1 2012: 9%). Helsta skýringin á því að
framlegðin er undir þrýstingi er lægri tekjur en félagið er vel í stakk búið
til að mæta aukinni eftirspurn. 

Annar ársfjórðungur er í samræmi við væntingar félagsins en heildartekjur
fjórðungsins námu 178,4 milljónum evra og batnandi rekstarhagnaður nam 6,9% af
veltu. Skýr batamerki sjást í Bandaríkjunum á meðan enn er lægð á mörkuðum í
Evrópu. Mismunandi aðstæður ríkja á nýmörkuðum en framtíðarhorfur eru áfram
bjartar. 

Mikilvægar pantanir bárust frá löndum eins og Ástralíu, Bandaríkjunum, Kanada,
Mexíkó, Brasilíu, Tyrklandi, Rúmeníu og Bretlandi. 

Marel gerir ráð fyrir að viðsnúningur á mörkuðum verði á næsta ári í stað
seinni hluta þessa árs og gerir ráð fyrir hóflegri lækkun tekna fyrir árið í
heild. 



Theo Hoen, forstjóri:

“Þessi ársfjórðungur var viðunandi í ljósi krefjandi markaðsaðstæðna.
Matvælaframleiðendum með búnað og lausnir frá Marel hefur fjölgað mikið á
undanförnum árum. Það ásamt þéttriðnu sölu- og þjónustuneti skilar sér í
síauknum tekjum af varahlutum og þjónustu. Á sama tíma hefur töf á
fjárfestingum í stærri verkefnum leitt til þess að framleiðslugeta hefur ekki
verið fullnýtt sem hefur áhrif á framlegðina. 

Marel mun áfram leggja ríka áherslu á rekstrarhagkvæmni án þess að fjárfesta
minna í nýsköpun og markaðssókn. 

Við erum enn bjartsýn á horfurnar en teljum að markaðurinn verði lengur að
rétta úr kútnum en við gerðum áður ráð fyrir. Undirliggjandi vöxtur markaðarins
er til staðar og því er fjárfestingarþörfin að byggjast upp. Við erum því vel í
stakk búin til að mæta eftirspurninni þegar markaðsaðstæður batna.“ 



Staðlaðar vörur seljast vel á meðan stærri verkefni bíða

Nýjar pantanir á öðrum ársfjórðungi námu 159,1 milljón evra samanborið við
179,6 milljónum evra á 2. ársfjórðungi 2012. Samdráttur í nýjum pöntunum olli
því að staða pantanabókarinnar er lægri en í lok síðasta fjórðungs.
Pantanabókin stóð í 131,8 milljónum evra í lok fjórðungsins samanborið við
151,1 milljón evra í lok 1. ársfjórðungs [Q2 2012: 182,6 milljónir evra]. 
Samdrátt í nýjum pöntunum má einkum rekja til þess að framleiðendur eru hikandi
í fjárfestingum, sérstaklega þegar kemur að stærri verkefnum, á meðan staðlaðar
vörur, varahlutir og þjónusta ganga vel. Ljóst er að áframhaldandi óvissa um
markaðsþróun, sérstaklega í Evrópu, gæti tafið fjárfestingar enn frekar. Marel
telur að eftirspurn eftir nýjum tækjum og uppfærslum á vinnslukerfum haldi
áfram að vaxa. Skýr batamerki eru sjáanleg á bandaríska markaðnum eftir þriggja
ára tímabil þar sem fjárfestingar kjúklingaframleiðenda hafa verið í lágmarki. 



Horfur

Marel gerir enn ráð fyrir viðsnúningi á helstu mörkuðum. Í ljósi samdráttar í
nýjum pöntunum og tafar á fjárfestingum telur félagið nú að viðsnúnings sé að
vænta á næsta ári í stað seinni helmings þessa árs. Þess vegna væntir Marel
þess að ná 10-12% EBIT markmiði sínu á næsta ári. 

Til meðal og lengri tíma litið, telur Marel að nýsköpun og sterk markaðsstaða
um allan heim stuðli að góðum vexti og aukinni arðsemi, þar sem undirliggjandi
markaðsvöxtur er til staðar. 

Engu að síður má gera ráð fyrir að afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga
vegna efnahagsþróunar á heimsvísu, sveiflna í pöntunum og tímasetningar stærri
verkefna. 



Vinsamlegast athugið að tilkynning þessi tekur aðeins til helstu þátta
uppgjörsins en uppgjörstilkynning í fullri lengd á ensku er aðgengileg á
heimasíðu Marel: www.marel.com/2013Q2. Þar er m.a. að finna lykiltölur og
yfirlit yfir markaði félagsins. 



Kynningarfundur 25. júlí 2013

Marel boðar til kynningarfundar um afkomu félagsins fimmtudaginn 25. júlí kl.
8:30 í húsnæði félagsins að Austurhrauni 9, Garðabæ. Fundinum verður einnig
netvarpað: www.marel.com/webcast. 




Birtingardagar fyrir reikningsárið 2013

  -- 3. ársfjórðungur 2013                                                    
     23. október 2013
  -- 4. ársfjórðungur 2013                                                    
     5. febrúar 2014



Birting fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaðar.

Frekari upplýsingar veita:

Helga Björk Eiríksdóttir, fjárfesta- og almannatengill. Símar: 563 8543 og 853
8543. 

Erik Kaman, fjármálastjóri. Sími: 563 8072.





Um Marel                                                                        
Marel er í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja Íslands og er í fararbroddi á     
 heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á    
 fiski, kjöti og kjúklingi. Fyrirtækið starfrækir skrifstofur og dótturfyrirtæki
 í meira en 30 löndum, auk 100 umboðsmanna og dreifingaraðila.                  
Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:                                      
Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og  
 áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna   
 við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við
 vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif 
 að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir
 í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað
 þetta varðar.                                                                  
Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og     
 ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af  
 ensku yfir á íslensku.