2014-12-04 19:15:30 CET

2014-12-04 19:16:31 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Landsbankinn hf. - Fyrirtækjafréttir

Landsbankinn hf.: Samkomulag Landsbankans og LBI um breytingar á skilmálum skuldabréfa öðlast gildi


Þann 8. maí 2014 komust Landsbankinn hf. og slitastjórn LBI hf. að samkomulagi
um breytingar á uppgjörsskuldabréfum sem samið var um í desember 2009.  Af
hálfu slitastjórnar LBI var hins vegar gerður fyrirvari um að tilteknar
undanþágur fengjust í samræmi við lög um gjaldeyrismál. 

Slitastjórn LBI hefur í dag tilkynnt Landsbankanum að stjórnvöld hafi samþykkt
fullnægjandi undanþágur og að samkomulagið hafi því öðlast gildi. 

Lokagreiðsla Landsbankans til LBI verður innt af hendi í október 2026 í stað
október 2018. Eftirstöðvar skuldarinnar greiðast með tíu skuldabréfum sem koma
til greiðslu á tveggja ára fresti, útgefnum í sterlingspundum, bandaríkjadölum
og evrum. Landsbankinn hefur heimild til að greiða skuldina niður að hluta eða
að fullu án kostnaðar, hvenær sem er á tímabilinu. 

Landsbankinn og slitastjórn LBI hafa einnig samið um breytingar sem m.a. veita
Landsbankanum rétt við ákveðnar aðstæður, til að fresta greiðslu hluta þeirrra
fjárhæða sem eru á gjalddaga 2018 og 2020. Þá lækkar lágmarksveðhlutfall úr
125% í 115% af eftirstöðvum skuldar á hverjum tíma. 

Vaxtakjör verða óbreytt til október árið 2018, þ.e. 2,9% álag ofan á LIBOR
vexti. Eftir það fer vaxtaálagið stighækkandi og verður 3,5% vegna gjalddaga
2020 og að lokum 4,05% vegna lokagjalddagans árið 2026. 

Hver gjalddagi á árabilinu  frá 2016 til 2026 verður að jafnvirði um 30
milljarðar króna, nema árið 2018, en þá koma til greiðslu jafnvirði um 40
milljarða króna. Við gildistöku samkomulagsins nú greiðir Landsbankinn
jafnvirði um 30 milljarða króna og eru eftirstöðvar skuldabréfanna að lokinni
þeirri greiðslu um 196 milljarðar króna. 

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans: „Þetta eru góð tíðindi fyrir
íslenskt efnahagslíf. Með þessu er stigið veigamikið skref til að leysa
viðfangsefni er varða skuldastöðu þjóðarbúsins og afnám fjármagnshafta.
Skilmálar nýju skuldabréfanna eru mjög vel viðráðanlegir fyrir Landsbankann og
mun þessi breyting auðvelda bankanum alþjóðlega lánsfjármögnun eins og áður
hefur komið fram. Þá felur samkomulagið í sér að sérstökum hömlum á
arðgreiðslur hefur verið hrundið úr vegi til hagsbóta fyrir hluthafa bankans.
Fyrir Landsbankann er þetta gríðarlega mikilvægur áfangi sem unnið hefur verið
að hörðum höndum undanfarin ár.“ 

Skuldabréfin voru upphaflega gefin út á grundvelli ákvarðana
Fjármálaeftirlitsins samkvæmt ákvæðum neyðarlaganna. Fjárhæðin var ákveðin sem
mismunur á virði eigna og skulda sem fluttar voru yfir til Landsbankans. 



Nánari upplýsingar:

Kristján Kristjánsson, pr@landsbankinn.is 410 4011 eða 899 9352