2015-10-12 16:22:51 CEST

2015-10-12 16:23:51 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Landsbankinn hf. - Fyrirtækjafréttir

Landsbankinn gefur út skuldabréf í evrum


Landsbankinn hf. hefur í dag gefið út skuldabréf að fjárhæð 300 milljónir evra,
eða sem nemur um 43 milljörðum króna.  Skuldabréfin eru til 3ja ára, bera fasta
3,00% vexti og voru seld á kjörum sem jafngilda 295 punkta álagi ofan á
millibankavexti í evrum. 

Í september 2015 réð Landsbankinn fjárfestingarbankana Citi, Deutsche Bank og
J.P. Morgan til þess undirbúa ofangreinda útgáfu.  Fjárfestafundir fóru fram
dagana 21. - 25. september 2015 í Kaupmannahöfn, Osló, Helsinki, Stokkhólmi og
London.  Skuldabréfin voru seld til fagfjárfesta og bárust tilboð fyrir 470
milljónir evra frá tæplega 60 fjárfestum.  Skuldabréfin eru gefin út undir 1
milljarðs evra Euro Medium Term Note (EMTN) skuldabréfaramma Landsbankans og
verða bréfin skráð í kauphöllina á Írlandi. 

Landsbankinn mun nýta andvirði útgáfunnar til þess að fyrirframgreiða veðtryggð
skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum sem eru á gjalddaga í október 2016 og að
hluta skuldabréf sem eru á gjalddaga í október 2018, sbr. fréttatilkynningu
bankans frá 18. september sl. 

Landsbankinn mun áfram vinna að því að breikka og styrkja fjármögnun bankans í
erlendum gjaldmiðlum, m.a. í þeim tilgangi að endurfjármagna útistandandi
veðtryggð skuldabréf  bankans á hagstæðari kjörum.  Í framhaldi af útgáfunni í
dag, en með fyrirvara um að slitastjórn LBI hf. ljúki nauðasamningi með
greiðslu stöðugleikaframlags, mun Landsbankinn jafnframt greiða upp
eftirstöðvar 2018 gjalddaga veðtryggðra skuldabréfa bankans í erlendum
gjaldmiðlum, samtals að jafnvirði um 22 milljarðar króna. LBI hf. mun frá sama
tíma ávaxta sömu fjárhæð í erlendum gjaldmiðlum með bundnum innlánum til
október 2018 hjá Landsbankanum, á kjörum sem samsvara 1,50% álagi ofan á
millibankavexti. 

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans:

„Útgáfan í dag er ánægjulegur áfangi og afar mikilvæg fyrir Landsbankann enda
breikkar hún og styrkir verulega fjármögnun bankans í erlendri mynt.  Aðgangur
Landsbankans að erlendum fjármagnsmörkuðum byggir m.a. á sterkri fjárhagsstöðu
bankans sem endurspeglast í því að í sumar hækkaði alþjóðlega
lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's lánshæfiseinkunn Landsbankans í BBB-,
og er einkunnin jafnframt með jákvæðum horfum.” 

Ítarlegar upplýsingar um Landsbankann eru aðgengilegar fyrir fjárfesta og aðra
áhugasama á  vef bankans á slóðinni:
https://bankinn.landsbankinn.is/fjarfestar/ 



Nánari upplýsingar:

Fjárfestatengsl:  Hanna K. Thoroddsen ; ir@landsbankinn.is ; s: 410 7100