2016-02-03 19:42:40 CET

2016-02-03 19:42:40 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel hf. - Ársreikningur

Marel: Arðbær vöxtur og stefnumarkandi skref tekin


Marel kynnir afkomu ársins 2015
(Allar upphæðir í evrum)



4F 2015 –  Sterk rekstrarniðurstaða og yfirtaka á MPS

  -- Tekjur á fjórða ársfjórðungi 2015 námu 201,9 milljónum evra [4F 2014:
     200,0m].
  -- Leiðrétt EBITDA* á fjórða ársfjórðungi var 30,0 milljónir evra sem er 14,9%
     af tekjum [4F 2014: 28,1m]. EBITDA var 23,6 milljónir evra sem er 11,7% af
     tekjum [4F 2014: 21,0m].
  -- Leiðréttur rekstrarhagnaður (adj. EBIT) á fjórða ársfjórðungi var 22,2
     milljónir evra, sem er 11,0% af tekjum [4F 2014: 16,1m]. EBIT var 14,6
     milljón evra sem er 7,2% af tekjum [4F 2014: 8,5m].
  -- Hagnaður fjórða ársfjórðungs 2015 nam 9,9 milljónum evra [4F 2014: 3,0m].
     Hagnaður á hlut var 1,40 evru sent [4F 2014: 0,41 evru sent á hlut].
  -- Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 26,9 milljónum
     evra á fjórða ársfjórðungi 2015 [4F 2014: 32,7 milljónir evra].
  -- Pantanabókin stóð í 180,9 milljónum evra við lok fjórða ársfjórðungs 2015
     samanborið við 187,7 milljónir evra  við lok þriðja ársfjórðungs 2015.
     [2014: 174,9m]



2015 – Leiðréttur rekstrarhagnaður 100 milljónir evra, 12,2% af tekjum

  -- Tekjur ársins 2015 námu 818,6 milljónum evra og hækkuðu um 14,9% frá fyrra
     ári [2014: 712,6m].
  --  Leiðrétt EBITDA var 135,7 milljónir evra sem er 16,6% af tekjum samanborið
     við 83,7 milljónir evra og 11,7% fyrir árið 2014. EBITDA var 120,8
     milljónir evra sem er 14,8% of tekjum [2014: 66,7m og 9,4%].
  --  Leiðréttur rekstrarhagnaður (adj.EBIT) árið 2015 var 99,9 milljónir evra
     sem er 12,2% af tekjum samanborið við 48,8 milljónir og 6,8% árið 2014.
     EBIT var 81,6 milljónir evra sem er 10,0% af tekjum [2014: 29,2m og 4,1%].
  -- Hagnaður ársins 2015 nam 56,7 milljónum evra [2014: 11,7m]. Hagnaður á hlut
     nam 7,93 evru sentum  [2014: 1,60 evru sent].
  -- Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 119,7 milljónum
     evra [2014: 102,2m]. Nettó vaxtaberandi skuldir í lok ársins 2015 námu
     142,8 milljónum evra [2014: 174,3m].


Marel náði 15% tekjuvexti á árinu 2015. Tekjur voru 819 milljónir evra og var
leiðréttur rekstrarhagnaður (EBIT) 100 milljónir evra eða 12,2% af tekjum
samanborið við 49 milljónir evra árið 2014 (6,8%).  Hagnaður ársins 2015 nam 57
milljónum evra samanborið við 12 milljónir evra árið 2014. Sjóðstreymi ársins
2015 var sterkt sem leiðir til þess að skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) er
1,05 samanborið við 2,08 í árslok 2014. Hagnaður á hlut árið 2015 er 7,93 evru
sent samanborið við 1,60 evru sent árið 2014. Pantanabókin í upphafi ársins
2016 stendur í 181 milljónum evra samanborið við 175 milljónir evra í
árs-byrjun 2015. 

Marel gekk þann 29.janúar 2015 formlega frá kaupum á MPS. Heildarkaupverð var
382 milljónir evra. Samkvæmt  drögum að uppgjöri frá MPS fyrir rekstrarárið
2015 nema tekjur ársins 158 milljónum evra og EBITDA nemur 41 milljónum evra.
Pantanastaða MPS er sterk og námu pantanir 190 milljónum evra á árinu 2015 og
stendur pantanabók félagsins nærri 140 milljónum evra í byrjun árs 2016. 

Marel hefur gengið frá hagstæðri langtímafjármögnun til 5 ára að heildarfjárhæð
um 670 milljónum evra.  Fjármögnunin er á góðum vaxtakjörum og tekur mið af
fjárhagslegum styrk félagsins og markaðs-aðstæðum. Vaxtakjör eru EURIBOR/LIBOR
+ 275 bps sem mun breytast í takt við skuldsetningarhlutfall félagsins. Við
undirritun samningsins var skuldsetning sem hlutfall af EBITDA síðustu 12
mánaða undir 3. 

Hagnaður á hlut nam 7,93 evru sentum fyrir árið 2015 samanborið við 1,60 evru
sent fyrir árið 2014. Gert er ráð fyrir að kaupin á MPS muni auka hagnað á hlut
umtalsvert horft fram á veginn. Stjórn Marel mun leggja til við aðalfund
félagsins að arður að upphæð 1,58 evru sent á hlut verði greiddur fyrir
rekstrarárið 2015 samtals að fjárhæð 11,3 milljónum evra sem samsvarar um 20%
af hagnaði ársins eftir skatta. 

Tekjur sameinaðs félags Marel og MPS (e. pro-forma) á árinu 2015 námu 977
milljónum evra og leiðréttur rekstrarhagnaður (EBIT) 133 milljónum evra.
Pantanabók sameinaðs félags í upphafi ársins 2016 stendur í 320 milljónum evra
samanborið við 280 milljónir evra í ársbyrjun 2015. Eftir tímabil mikils vaxtar
gerir Marel ráð fyrir  hóflegum innri vexti í tekjum og rekstrarhagnaði (EBIT)
sameinaðs félags fyrir árið 2016 (e. pro-forma) leiðrétt fyrir ráðstöfun
kaupverðs (e. purchase price allocation). 


Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel:

“2015 var frábært ár fyrir Marel. Tveggja ára áætlun okkar um einfaldara og
skilvirkara Marel hefur nú runnið sitt skeið og skilað miklum árangri, sem m.a.
má sjá í hagræðingu á vöruframboði og framleiðslu-einingum félagsins auk þess
sem reksturinn hefur verið straumlínulagaður. Á sama tíma tókst okkur að
þjónusta viðskiptavini enn betur sem skilaði 15% aukningu í tekjum og
rekstrarhagnaði upp á 100 milljónir evra, samanborið við 49 milljónir evra árið
2014. 

Með kaupunum á MPS styrkir Marel stöðu sína sem alþjóðlegur leiðtogi í
framleiðslu og þjónustu á kerfum til vinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski.
Skrefin sem við tökum nú í kjötvinnslunni eru um margt lík þeim sem tekin voru
fyrir átta árum í kjúklingavinnslu með yfirtöku Marel á Stork. Við væntum þess
að yfirtakan á MPS muni auka hag viðskiptavina og hluthafa félagsins líkt og
yfirtakan á Stork hefur gert. 

Samhliða kaupunum á MPS gekk félagið frá hagstæðri langtímafjármögnun fyrir
félagið í heild sem mun styðja rekstrar- og fjárhagsgrunn félagsins. Við erum
afar þakklát fyrir það áframhaldandi traust sem lánveitendur sýna félaginu sem
gerir því kleift að leiða frekari samþættingu í iðngreininni. 

Rétt eins og hjá Marel var liðið ár afar gott í rekstri MPS. Samanlagðar tekjur
félaganna námu 977 milljónum evra með leiðréttan rekstrarhagnað (adj. EBIT) upp
á 133 milljónir evra. Eftir tímabil sem hefur einkennst af verulegum vexti
gerum við ráð fyrir hóflegum innri vexti í tekjum og rekstrarhagnaði félagsins
á árinu 2016.” 

Einfaldara og skilvirkara Marel

Áætlun um einfaldara og skilvirkara Marel (e. simpler, smarter, faster) er nú
lokið. Verkefnið sem hófst í ársbyrjun 2014 og hefur staðið yfir í tvö ár hefur
gengið mjög vel og tekjur og arðsemi hafa aukist ásamt því að sjóðstreymi er
sterkt. Áhersla verður nú lögð á áætlun um „Full Potential“ þar sem
samkeppnisstaða félagsins verður styrkt enn frekar með nýsköpun og frekari
fjárfestingu. 

Með áætluninni um einfaldara og skilvirkara Marel tókst félaginu að hagræða í
rekstrinum, skerpa á vöruframboði sínu og fækka framleiðslustöðum úr 19 í 9. Á
sama tímabili fækkaði starfsmönnum félagsins á heimsvísu um 200 og tekjur
jukust. Samhliða þessum aðgerðum hefur félagið lagt áherslu á fjárfestingu í
nýsköpun og á aðrar fjárfestingar sem búa félagið undir framtíðarvöxt og
virðisaukningu. 

Frá því að áætluninni um einfaldara og skilvirkara Marel var hleypt af
stokkunum, að teknu tilliti til sölu rekstrareininga, er heildarkostnaður til
greiðslu vegna hagræðingaraðgerða áætlaður 16 milljónir evra en kostnaður í
rekstrarreikningi fyrir sama tímabil er 35 milljónir evra. Þar af eru 4,3
milljónir evra í fjórða ársfjórðungi 2015. Kostnaðurinn í fjórða ársfjórðungi
er að mestu tilkominn vegna flutninga á framleiðslu-starfsemi frá Des Moines
til Gainsville í Bandaríkjunum sem var lokið fyrir  árslok 2015. 

Hagræðingaraðgerðum verður haldið áfram á árinu 2016. Endurskipulagning
rekstrar í Seattle og fullvinnslu (further processing) er þegar hafin með
áherslu á að styðja við virðisaukningu viðskiptavina félagsins í kjúklingi,
kjöti og fiski. 

Marel býður nú upp á heildarlausnir í kjöti
Marel gekk þann 29. janúar 2016 formlega frá kaupunum á MPS. Heildarkaupverðið
var 382 milljónir evra. Þann 21. nóvember 2015 tilkynnti Marel að félagið hefði
samþykkt kaup á MPS en kaupin voru gerð með fyrirvara um samþykki
samkeppnisyfirvalda sem fékkst í janúar án athugasemda. 

Sameinað félag verður í fararbroddi í þróun og sölu á heildarlausnum til
kjötframleiðenda. Félögin eiga vel saman og skörun í vörulínum er afar
takmörkuð. Þá fellur alþjóðleg starfsemi félaganna vel saman sem skapar
grundvöll fyrir áframhaldandi vöxt og arðsemi. 

MPS er leiðandi á heimsvísu í framleiðslu og þróun búnaðar til frumvinnslu á
kjöti. Undir forystu styrkra stjórnenda hefur félagið vaxið og hagnast vel á
síðustu misserum. MPS hefur yfir að ráða öflugu alþjóðlegu neti sölu- og
þjónustueininga sem sinna fjölbreyttum viðskiptahópi um allan heim. 

Með kaupunum styrkir Marel stöðu sína sem leiðandi framleiðandi á háþróuðum
búnaði og kerfum til vinnslu á kjúklingi, kjöti, og fiski. Kaupin eru að fullu
í samræmi við áður kynnta stefnu Marel um frekari vöxt og aukna arðsemi
félagsins til frambúðar. Kaupin styðja við framboð Marel á heildarlausnum í
kjötvinnslu og stuðlar einnig að jafnari tekjuskiptingu, bæði á milli
mismunandi iðnaða og markaðssvæða. Í sameinuðu félagi er áætlað að kjötiðnaður
muni skila um það bil 30% af heildartekjum og EBITDA á ársgrundvelli. 

Samkvæmt drögum að uppgjöri MPS fyrir rekstrarárið 2015 nema tekjur ársins 2015
158 milljónum evra og EBITDA nemur 41 milljón evra. Reikningar MPS eru gerðir
upp samkvæmt hollenskum GAAP reikningsskilastöðlum en verða færðir yfir í IFRS
reikningsskilastaðla á fyrri helmingi 2016. Niðurstöður ársins 2016 verða
litaðar af ráðstöfun kaupverðs (Purchase Price Allocation) sem felur í sér
útdeilingu á kaupverði á einstaka liði efnahagsreikningssins þar með talið
óefnislegar eignir. 

Pantanastaða MPS er sterk og námu pantanir 190 milljónum evra á árinu 2015 og
stendur pantanabók félagsins nærri 140 milljónum evra í byrjun árs 2016. 

Tekjur sameinaðs félags Marel og MPS (e. pro-forma) á árinu 2015 námu 977
milljónum evra og leiðréttur rekstrarhagnaður (EBIT) 133 milljónum evra.
Pantanabók sameinaðs félags í upphafi ársins 2016 stendur í 320 milljónum evra
samanborið við 280 milljónir evra í ársbyrjun 2015. 

Ráðgjafakostnaður Marel í tengslum við kaupin á MPS nemur 3,3 milljónum evra og
er að fullu gjaldfærður í fjórða ársfjórðungi 2015. 

Tillaga um arðgreiðslu

Á aðalfundi Marel, sem haldinn verður 2. mars næstkomandi, mun stjórn Marel
leggja til að hluthafar fái greidd 1,58 evru sent í arð á hlut fyrir
rekstrarárið 2015. Fyrirhuguð heildararðgreiðsla nemur um 11,3 milljónum evra
sem samsvarar um 20% af nettó hagnaði ársins. Arðgreiðslutillaga þessi er í
samræmi við markmið um fjármagnsskipan og arðgreiðslustefnu félagsins. 
Verði tillagan samþykkt af hluthöfum félagsins, munu hlutabréf sem skipta um
hendur frá og með 3. mars 2016 (e. ex-date = arðleysisdagur) verða án
arðsréttinda og réttur hluthafa til arðgreiðslu verður miðaður við hlutaskrá
félagsins í lok viðskipta hinn 4. mars 2016 sem yrði arðsréttindadagur (e.
record date). 


Horfur

Tekjur sameinaðs félags Marel og MPS (e. pro-forma) á árinu 2015 námu 977
milljónum evra og leiðréttur rekstrarhagnaður (EBIT) 133 milljónum evra. Eftir
tímabil mikils vaxtar gerir Marel ráð fyrir hóflegum innri vexti í tekjum og
rekstrarhagnaði (EBIT) sameinaðs félags fyrir árið 2016 (e. pro-forma) leiðrétt
 fyrir ráðstöfun kaupverðs (e. purchase price allocation). 

Sterkt vöruframboð og markviss markaðssókn ásamt meðbyr á mörkuðum hafa verið
helstu drifkraftar öflugs tekjuvaxtar Marel á síðustu ársfjórðungum. Til meðal
og lengri tíma litið, telur Marel að nýsköpun og sterk markaðsstaða um allan
heim í öllum iðnuðum félagsins muni skila góðum vexti og aukinni arðsemi.
Framtíðarhorfur eru góðar og gert er ráð fyrir því að markaðsvöxtur nemi 4-6% á
næstu árum. Markmið Marel er að halda áfram að vaxa hraðar en markaðurinn. 

Engu að síður má gera ráð fyrir að afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga
vegna efnahagsþróunar á heimsvísu, sveiflna í pöntunum og tímasetningar stærri
verkefna. 

Vinsamlegast athugið að tilkynning þessi tekur aðeins til helstu þátta
uppgjörsins en uppgjörstilkynning í fullri lengd á ensku er aðgengileg á
heimasíðu Marel: http://marel.com/404?url=/2015Q4 
Þar er m.a. að finna lykiltölur og yfirlit yfir markaði félagsins.

Kynningarfundur 4. febrúar 2016

Marel boðar til kynningarfundar um afkomu félagsins fimmtudaginn 4. febrúar kl.
8:30 í húsnæði félagsins að Austurhrauni 9, Garðabæ. Fundinum verður einnig
netvarpað: www.marel.com/webcast. 

Birtingardagar fyrir reikningsárið 2016

 1. ársfjórðungur 2016                                 25. apríl 2016
 2. ársfjórðungur 2016                                 27. júlí 2016
 3. ársfjórðungur 2016                                 26. október 2016
 4. ársfjórðungur  2016                                1. febrúar 2017

Birting fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaðar.

Frekari upplýsingar veitir:
Auðbjörg Ólafsdóttir, yfirmaður fjárfestatengsla og samskipta. Símar: 563-8626
og 853-8626