2016-06-29 18:14:45 CEST

2016-06-29 18:14:45 CEST


BIRTINGARSKYLDAR UPPLÝSNINGAR

Íslenska Enska
Lánamál ríkisins - Fyrirtækjafréttir

Gjaldeyrisútboð Seðlabanka Íslands hinn 16. júní sl.


Fyrir útboð sem fram fór 16. júní sl. kallaði Seðlabanki Íslands eftir tilboðum
um sölu á aflandskrónaeignum gegn greiðslu reiðufjár í erlendum gjaldeyri. Hinn
21. júní sl. kynnti Seðlabankinn helstu niðurstöður útboðsins og greindi
jafnframt frá því að bankinn byðist til að kaupa aflandskrónaeignir, á genginu
190 kr. á evru, sem ekki hefðu verið seldar í útboðinu. Skilmálar þeirra
viðskipta voru kynntir hinn 22. júní sl. 

Nú liggja fyrir endanlegar tölur um niðurstöðu gjaldeyrisútboðsins 16. júní sl.
að teknu tilliti til viðskipta sem áttu sér stað á grundvelli tilboðs
Seðlabanka Íslands hinn 21. júní sl. Alls bárust 1.715 tilboð og var 1.688
tilboðum tekið eða 98,4% af fjölda tilboða. Fjárhæð samþykktra tilboða nam um
83 ma.kr. af 188 ma.kr. sem boðnar voru í útboðinu og í tilboðsferlinu í
kjölfar útboðsins. Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands minnkar um rúmlega 54
ma.kr. í kjölfar útboðsins. 

Aflandskrónur sem boðnar voru til sölu í útboðinu skiptust milli eignaflokka
eins og sýnt er í eftirfarandi töflu: 

Eignaflokkar aflandskróna   m.kr.
---------------------------------
Reiðufé                    46.260
Innstæðubréf Seðlabankans   5.448
Ríkisbréf                  15.484
Ríkisvíxlar                 7.163
Skuldabréf Íbúðalánasjóðs     559
Önnur verðbréf*             7.971
---------------------------------
Samtals                    82.885
=================================

*Hefur ekki bein áhrif á gjaldeyrisforða

Útboðið var liður í aðgerðaáætlun um losun fjármagnshafta, sbr. áætlun
ríkisstjórnar Íslands og Seðlabankans um losun fjármagnshafta frá 8. júní 2015.
Útboðið hinn 16. júní sl. var hið síðasta í röð útboða þar sem eigendum
aflandskróna bauðst að kaupa erlendan gjaldeyri áður en stjórnvöld hæfu losun
hafta á innlenda aðila, þ.e. lífeyrissjóði, aðra lögaðila og einstaklinga.
Stefnt er að því að áætlun um losun fjármagnshafta á innlenda aðila liggi fyrir
síðla sumars og að frumvörp sem lúta að næstu skrefum verði lögð fram á þingi
þegar það kemur saman í ágúst. Í framhaldinu verður skoðað hvenær og með hvaða
hætti losað verður um höft á aflandskrónueigendur sem kusu að taka ekki þátt í
útboðinu. Ljóst er að þátttakan í útboðinu mun einfalda það ferli verulega.
Eftir standa færri og einsleitari aðilar en áður og útistandandi fjárhæð hefur
lækkað verulega. 

Már Guðmundsson seðlabankastjóri vill koma eftirfarandi á framfæri af þessu
tilefni: „Með útboðinu og nýlegum lagabreytingum hefur síðustu stóru
hindruninni verið rutt úr vegi þess að hægt verði að stíga stór skref til að
losa um fjármagnshöft gagnvart innlendum aðilum án hættu á óstöðugleika.
Aflandskrónahengjan hefur minnkað úr rúmlega þriðjungi af landsframleiðslu árið
2009 í u.þ.b. 11% af landsframleiðslu að útboði loknu. Þótt ekki hafi verið
unnt að taka tilboðum í aflandskrónaeignir að andvirði 105 ma.kr. auðveldar það
lausn þess vanda sem eftir stendur að eigendum krafna hefur fækkað mjög. Þá
hefur verið búið svo um hnútana að aflandskrónur sem eftir standa valdi ekki
óstöðugleika á meðan losun fjármagnhafta á innlenda aðila gengur yfir.
Smitunaráhrif ættu því að vera hverfandi og hætta á óstöðugleika lítil.“ 


Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.