2008-10-22 18:21:50 CEST

2008-10-22 18:22:50 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Nýherji hf. - Ársreikningur

- Uppgjör Nýherja hf. fyrir þriðja ársfjórðung 2008


Helstu niðurstöður fyrir níu mánuði ársins 2008

•  Sala á vöru og þjónustu nam 10.729 mkr  og jókst um 38% miðað við sama
   tímabil í fyrra 

•  EBITDA var 393 mkr en 489 mkr árið 2007

•  Eiginfjárhlutfall 25% eftir  730 mkr gengistap

•  Tap á árinu nam 694 mkr samanborið við 302 mkr hagnað á sama tíma í fyrra

•  Innleiðing á nýju viðskiptamódeli að hefjast en það eykur hagkvæmni og
   sérhæfingu dótturfélaga 


Þórður Sverrisson, forstjóri:

„Rekstur grunnstarfsemi Nýherja er samkvæmt áætlun í ársfjórðungnum og skilar
ágætri afkomu fyrir fyrstu níu mánuðina. Sama gildir um hluta dótturfélaga
hérlendis og fyrir hugbúnaðarstarfsemi erlendis. Tekjur erlendra 
dótturfyrirtækja Nýherja eru nú um 22% af heildartekjum samstæðunnar og eykur
það stöðugleika í rekstri félagsins. 

Nýtt viðskiptamódel Nýherjasamstæðunnar, sem unnið hefur verið að frá því í
vor, var kynnt í byrjun október og lýkur innleiðingu í nóvember. Markmið þess
er að skerpa þjónustu við viðskiptavini, með sérhæfingu dótturfélaga á
einstökum sviðum, ásamt því að auka hagkvæmni í rekstri félagsins. 

Starfsemi Nýherja er fjölþætt og dreifð, fjárhagsstaða traust og er
eiginfjárhlutfall 25,4%, þrátt fyrir gjaldfærslu á 730 mkr. gengistapi á
árinu.“ 


Yfirlit yfir rekstur

Nýtt viðskiptamódel fyrir Nýherjasamstæðuna var kynnt í byrjun október og
verður innleitt í nóvembermánuði. Með því mun félagið skerpa sýn og áherslur á
völdum sérsviðum og skapa dótturfélögum sveigjanleika og sóknarfæri. Einnig
næst fram kostnaðarleg hagkvæmni og samlegð í sölustarfsemi. 

Nýherji verður móðurfélag sex megindótturfélaga, en innan Nýherja verður einnig
sala og vörustjórnun á tölvu- og tæknibúnaði. 

Megin dótturfélög Nýherja eru eftir breytinguna: 

•  Skyggnir ehf. sérhæft á sviði bestunar UT kerfa, samþættingu samskiptalausna
   og rekstrarþjónustu. 

•  Sense ehf. fyrir stafrænar lausnir, svo sem fyrir hljóð- og myndbúnað. 

•  TM Software ehf. með áherslu á viðamikla hugbúnaðarþróun og samþættingu
   kerfa. 

•  Applicon ehf. með áherslu á viðskiptahugbúnað, fjármálalausnir og sérhæfðar
   atvinnugreinalausnir. 

•  Nýtt félag verður stofnað um alla sameiginlega stoðþjónustu fyrir samstæðuna.
•  ParX ehf. sem mun áfram sérhæfa sig í viðskiptaráðgjöf.

Hluti af starfsemi Nýherja mun flytjast að Urðarhvarfi 6 í Kópavogi, þar sem TM
Software er nú til húsa, en félagið verður einnig með starfsemi í húsnæði
Nýherja að Borgartúni 37. 

Rekstur kjarnastarfsemi Nýherja hefur gengið vel það sem af er þessu ári og er
afkoma nærri áætlun. Ágæt sala hefur verið í miðlægum tölvulausnum, 
gagnageymslulausnum og í hönnun og uppbyggingu tölvurýma. Ennfremur var
töluverð eftirspurn eftir samskiptalausnum, svo sem IP símkerfum og
fjarfundalausnum, svo og hýsingarþjónustu. Sala á prentsmiðjulausnum hefur
verið á áætlun. Sala á einmenningstölvum er hins vegar minni en á sama tíma í
fyrra. 

Afkoma Applicon fyrirtækjanna er jákvæð, einkum hjá Applicon AB í Svíþjóð og
Applicon A/S í Danmörku. Í þessum félögum er verkefnastaðan góð og í takt við
væntingar. Hins vegar hefur rekstur Applicon ehf. á Íslandi reynst þungur.  Þá
var halli á starfsemi Applicon Solutions A/S í Danmörku og Applicon Solutions
Ltd. í Bretlandi. 

Rekstur Dansupport A/S í Danmörku hefur verið endurskipulagður og þar eru
söluhorfur góðar og er gert ráð fyrir að starfsemi þess nái jafnvægi á árinu. 

Hugbúnaðarstarfsemi TM Software hefur skilað ágætum hagnaði en unnið er að
margþættum breytingum í rekstarþjónustu til þess að ná betri afkomu úr þeirri
starfsemi. Meðal annars mun Skyggnir starfa sem sérstakt félag og starfsemi
tæknideilda Nýherja verða hluti af því. Þessi breyting gefur félaginu margþætt
sóknarfæri, svo sem í verkefnum erlendis. 

Horfur
Horfur um rekstur hérlendis eru nú óljósari en áður og óvissa meiri vegna
áhrifa af breytingum á rekstri viðskiptabanka og stöðu á fjármálamörkuðum. Þótt
samdráttur kunni að verða í vörusölu hérlendis eru þjónustutekjur nokkuð
stöðugar, auk þess sem tekjur og afkoma erlendra dótturfélaga Nýherja er ágæt.
Vegna óvissunnar má ætla að afkoma Nýherja samstæðunnar verði nokkuð undir
áætlun í fjórða ársfjórðungi, en brugðist verður við breyttum aðstæðum með
hagræðingaraðgerðum. Lögð er áhersla á að undirstöður í rekstri Nýherja eru
traustar og skuldsetning hófleg, en í ljósi stöðunnar í efnahagsmálum er afar
erfitt að spá fyrir um rekstrarforsendur næstu mánaða. 

Samþykkt árshlutareiknings.
Árshlutareikningur fyrir þriðja ársfjórðung 2008 fyrir Nýherja hf. var
samþykktur á stjórnarfundi 22. október.  Árshlutareikningurinn er gerður í
samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS-International Financial
Reporting Standards). 

Fjárhagsdagatal fyrir 2008
Áætluð birting árshlutauppgjörs fyrir árið 2008.

Fjórði ársfjórðungur		23. janúar 2009
Aðalfundur Nýherja 2009		6. febrúar 2009			

Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar veitir:
Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja, í síma +354 893 3630.


Nýherji hf
Hlutverk Nýherja hf. er að skapa viðskiptavinum sínum virðisauka með þekkingu
starfsmanna á upplýsingatækni, rekstri fyrirtækja og þörfum viðskiptavina.
Nýherji býður fyrsta flokks ráðgjöf og fagþjónustu á sviði upplýsingatækni og
vandaðan tölvu-, skrifstofu- og hugbúnað ásamt traustri tækni- og
rekstrarþjónustu. Félög Nýherja samstæðunnar eru 20 bæði hér heima og erlendis
og er heildarfjöldi stöðugildi 721. Hlutabréf Nýherja hf. eru skráð í OMX
Kauphöll Íslands. 

Stjórn Nýherja: Benedikt Jóhannesson, stjórnarformaður, Árni Vilhjálmsson og
Guðmundur Jóh. Jónssson. Þórður Sverrisson er forstjóri Nýherja.