2014-08-28 21:44:07 CEST

2014-08-28 21:45:07 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Eimskipafélag Íslands hf. - Ársreikningur

Eimskip kynnir afkomu annars ársfjórðungs 2014


EBITDA var 11,0 milljónir evra, hækkaði um 1,2 milljónir evra eða 12,3% frá Q2
2013 


  -- Rekstrartekjur námu 109,0 milljónum evra og hækkuðu um 0,9 milljónir evra
     frá Q2 2013
  -- EBITDA nam 11,0 milljónum evra og hækkaði um 1,2 milljónir evra frá Q2 2013
  -- Hagnaður eftir skatta nam 4,6 milljónum evra og jókst um 2,6 milljónir evra
     frá Q2 2013
  -- Flutningsmagn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 7,1% frá Q2
     2013
  -- Flutningsmagn í frystiflutningsmiðlun jókst um 4,9% frá Q2 2013
  -- Eiginfjárhlutfall var 65,4% og nettóskuldir námu 32,0 milljónum evra í lok
     júní
  -- Áætluð EBITDA fyrir árið 2014 er áfram óbreytt, á bilinu 37 til 41 milljón
     evra

Gylfi Sigfússon, forstjóri

„Rekstrarafkoma annars ársfjórðungs er í samræmi við okkar væntingar.
Rekstrartekjur á öðrum ársfjórðungi námu 109,0 milljónum evra samanborið við
108,1 milljón evra fyrir sama tímabil í fyrra. EBITDA á öðrum ársfjórðungi
jókst um 12,3% á milli ára og nam 11,0 milljónum evra. Vöxturinn skýrist meðal
annars af auknu flutningsmagni og aukinni hagkvæmni í siglingakerfinu eftir
breytingar á rauðu leiðinni og eftir að gráu leiðinni var bætt við á fyrsta
ársfjórðungi á þessu ári. Hagnaður eftir skatta meira en tvöfaldaðist á milli
ára, nam 4,6 milljónum evra og jókst um 2,6 milljónir evra frá öðrum
ársfjórðungi 2013, einkum vegna gengisbreytinga. 

Tekjur á fyrstu sex mánuðum ársins voru þær sömu og á sama tímabili í fyrra og
námu 213,2 milljónum evra. EBITDA fyrir fyrstu sex mánuðina hélst einnig
óbreytt á milli ára og nam 17,1 milljón evra. Flutningsmagn á fyrstu sex
mánuðum ársins í kerfum félagsins á Norður-Atlantshafi jókst um 9,1% frá sama
tímabili í fyrra. Innflutningur til Íslands hefur aukist sem af er þessu ári og
ánægjulegt er að sjá jákvæða þróun í vöruflokkum eins og bifreiðum og
byggingavörum eftir stöðnun undanfarinna ára. Magn í frystiflutningsmiðlun
jókst um 9,2% samanborið við sama tímabil í fyrra, einkum vegna aukinna
viðskipta við móttakanda vöru þar sem Eimskip annast tollafgreiðslu og flutning
gáma alla leið, svokallaðra “door-to-door” flutninga. 

Fyrra skipið af gámaskipunum tveimur sem félagið hefur verið með í smíðum í
Kína, Lagarfoss sem er 875 gámaeiningar að stærð, var afhent í Kína þann 24.
júní. Skipið, sem kom til Reykjavíkur 17. ágúst, er nú þegar komið í þjónustu
og leysir Selfoss af á gulu leiðinni. Lagarfoss mun auka afkastagetu þeirrar
leiðar um 151 gámaeiningu, auk þess að vera hraðskreiðara, hagkvæmara í rekstri
á hverja gámaeiningu og umhverfisvænna skip. Selfoss mun leysa af hólmi
leiguskipið Horst B á rauðu leiðinni í september. Gert er ráð fyrir að þessar
tilfærslur á skipum muni auka núverandi EBITDA um 2-3% á ársgrundvelli.
Lagarfoss mun auka áreiðanleika þjónustunnar, sem er mjög mikilvægt fyrir
útflutning á sjávarafurðum frá Íslandi og Færeyjum til Bretlands og meginlands
Evrópu. Koma Lagarfoss gefur auk þess tækifæri á að bæta við fleiri
viðkomuhöfnum til að auka þjónustu við viðskiptavini okkar. Við erum mjög stolt
af því að Lagarfoss skuli loks vera kominn í rekstur. 

Ákveðið hefur verið að ganga frá samningum um að ljúka við smíði Bakkafoss,
systurskips Lagarfoss. Skipasmíðastöðin hefur boðið frekari afslátt af
kaupverði skipsins sem nemur 0,8 milljónum dollara og er gert ráð fyrir
afhendingu þess á fjórða ársfjórðungi 2015. Eftir afsláttinn mun umsamið
kaupverð Bakkafoss nema 18,0 milljónum dollara. 

Enn er óvissa á vinnumarkaði á Íslandi og fyrirtækið er með opna samninga við
hluta af íslenskum áhöfnum gámaskipa og Herjólfs. Þá er einnig óvissa á
alþjóðamörkuðum, sérstaklega varðandi innflutningsbann á matvælum til Rússlands
sem tóku gildi nú í ágúst. Óvíst er hvaða áhrif viðskiptabannið mun hafa á
rekstur Eimskips, en gert er ráð fyrir að það hafi áhrif á flutninga á
sjávarafurðum frá Nýfundnalandi og Noregi til Rússlands. Ísland er ekki meðal
þeirra landa sem viðskiptabann Rússa nær til. 

Varðandi rannsókn Samkeppniseftirlitsins þá hefur Eimskip enn ekki fengið í
hendur umbeðnar upplýsingar um bakgrunn málsins til að öðlast betri skilning á
rannsókninni. Félagið ákvað að senda inn kæru til Áfrýjunarnefndar
samkeppnismála í kjölfar frekari gagnaöflunar eftirlitsins í júní á þessu ári.
Félagið bíður nú síðari úrskurðar Áfrýjunarnefndar samkeppnismála. 

Eimskip vinnur áfram að því að meta tækifæri til ytri vaxtar til að styrkja
núverandi stöðu sína á mörkuðum utan Íslands, tækifæri sem falla að stefnu
félagsins um að vera leiðandi flutningafélag á Norður-Atlantshafi. Áfram er
unnið að því að skoða tvíhliða skráningu félagsins í tengslum við þessi
mögulegu fjárfestingarverkefni. 

Við höldum afkomuspá okkar fyrir árið óbreyttri og gerum ráð fyrir að EBITDA
ársins 2014 verði áfram á bilinu 37 til 41 milljón evra.” 

Frekari upplýsingar

  -- Gylfi Sigfússon, forstjóri, sími: 525 7202
  -- Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs,
     sími: 525 7202
  -- Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla, sími: 825 7220, netfang:
     investors@eimskip.is