2011-04-13 18:55:07 CEST

2011-04-13 18:56:07 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Icelandair Group hf. - Fyrirtækjafréttir

Icelandair: Stefnir í metfjölgun ferðamanna til Íslands


  -- 15-20% fjölgun ferðamanna í sumar
  -- Gæti orðið stærsta ferðaár sögunnar 
  -- 75-100 þúsund fleiri ferðamenn 2011 en í fyrra
  -- Gjaldeyristekjur af ferðamönnum gætu aukist um 30 milljarða króna milli ára
  -- Aukið flugframboð og öflugt markaðsstarf ástæðan


Áætlað er að 50% fleiri ferðamenn komi til landsins með Icelandair í apríl en í
sama mánuði í fyrra og 15% fleiri en 2009. Jafnframt er áætlað að fjölgunin
verði 15-20% yfir vor- og sumarmánuðina framundan samkvæmt bókunum félagsins.
Því má reikna með að um 75-100 þúsund fleiri ferðamenn sæki Ísland heim í ár en
á síðasta ári og þeir verði í heild allt að 600 þúsund. Gjaldeyristekjur af
aukningunni einni verði þannig um 30 milljarðar króna. Þetta er einhver mesti
vöxtur ferðaþjónustunnar á Íslandi á einu ári frá upphafi mælinga. "Þegar við ákváðum að auka flugframboð okkar á þessu ári og bættum tveimur
Boeing 757 vélum við flugflotann, settum við okkur markmið um að vaxa á
ferðamannamarkaðinum til Íslands, og nú sýna bókanir fyrir vorið og sumarið um
15-20% fjölgun farþega Icelandair til landsins. Þessi árangur er afrakstur af
auknu flugframboði og öflugu heils árs markaðsstarfi Icelandair í vetur, og
jákvæðra áhrifa af "Inspired by Iceland" átakinu gætir enn. Þetta er í samræmi
við þær áætlanir sem við höfum áður kynnt og að sjálfsögðu háð því að
ófyrirséðir atburðir setji ekki strik í reikninginn,"segir Birkir Hólm
Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. 

Hinn mikla vöxt milli ára í aprílmánuði má einnig rekja til áhrifa eldgossins á
síðasta ári, en síðari hluta aprílmánaðar afbókuðu margir ferðir sínar. Þessara
áhrifa gætir einnig í maí. Samt sem áður er um mikla aukningu frá árinu 2009 að
ræða og hjá Icelandair verður aprílmánuður sá stærsti frá upphafi þegar miðað
er við fjölda ferðamanna til landsins. 

Svipaður fjöldi ferðamanna, eða um 500 þúsund, kom til Íslands árin 2009 og
2010. Á síðasta vori var útlit fyrir töluverða fjölgun ferðamanna, en eldgosið
í Eyjafjallajökli dró úr áhuga á Íslandsheimsókn og um tíma stefndi í hrun. Úr
því rættist, m.a. með sameiginlegu markaðs- og kynningarátaki undir merki"Inspired by Iceland", og ferðamannafjöldinn varð svipaður og árið á undan. 

Beinar gjaldeyristekjur af komu erlendra ferðamanna á árinu 2009 og 2010 voru
um 155 milljarðar króna og því má gera ráð fyrir að aukningin í ár auki
gjaldeyristekjur þjóðarbúsins um 30 milljarða króna. "Ferðaþjónustan er ein af undirstöðuatvinnugreinunum hér á landi og hún byggir
mjög mikið á leiðakerfi Icelandair, eins og þessar tölur sína. Þegar okkur
tekst að auka flugframboðið eins og við gerum nú í ár, þá fylgir því gjarnan
samsvarandi fjölgun ferðamanna vegna þess hve mikilvæg starfsemi félagsins er.
Því er ánægjulegt, nú þegar eitt ár er liðið frá upphafi eldgossins í
Eyjafjallajökli, að sjá að nú stefnir í mikla fjölgun í vor, og einnig í
september og október, en langtíma markmið okkar er að lengja ferðamannatímann
og leggja áherslu á vetrarferðamennsku", segir Birkir.