2011-04-13 19:34:28 CEST

2011-04-13 19:35:28 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Landsvirkjun - Fyrirtækjafréttir

Landsvirkjun og Landsbankinn gera samning um skuldabréfaútgáfu að fjárhæð 100 milljónir Bandaríkjadala


Landsvirkjun undirritaði í dag samning um útgáfu skuldabréfa fyrir 100
milljónir Bandaríkjadala eða sem svarar til rúmra 11,2 milljarða íslenskra
króna. Útgáfan er tvíþætt, annars vegar að fjárhæð 50 milljónir Bandaríkjadala
til fimm ára og hins vegar 50 milljónir dala til sjö ára.  Bréfin bera
breytilega millibankavexti á bandaríkjamarkaði auk 3,5% vaxtaálags. Kaupandi
bréfanna er Landsbankinn. 

Eins og fram hefur komið er fyrirvari í lánasamningi Landsvirkjunar og Evrópska
fjárfestingarbankans (EIB) um lánshæfi ríkissjóðs. Þessari skuldabréfaútgáfu er
ætlað að tryggja fjármagn til Búðarhálsvirkjunar óháð niðurstöðu erlendra
matsfyrirtækja á lánshæfi Ríkissjóðs Íslands. Lánið frá EIB verður nýtt um leið
og aðstæður leyfa. 

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar segir útgáfuna mjög jákvæða fyrir
fyrirtækið: 

„Það er mikilvægt fyrir Landsvirkjun að hafa aðgang að fjölbreyttum
fjármögnunarkostum. Afar ánægjulegt er að Landsbankinn og Landsvirkjun hafi
getað sameinað krafta sína til að tryggja framgang þessa mikilvæga verkefnis
sem Búðarhálsvirkjun er.“ 

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans segir mikilvægt að nýta styrk
bankans til að byggja upp íslenskt efnahagslíf: 

,,Fjárhagslegur styrkur Landsbankans og langtíma fjármögnun í erlendum myntum
gerir bankanum kleift að styðja með myndarlegum hætti við Landsvirkjun og taka
þátt í stórum framkvæmdum á borð við Búðarhálsvirkjun. Forsvarsmenn
Landsbankans hafa lýst þeim vilja sínum að vera hreyfiafl og nýta styrk bankans
til að hraða uppbyggingu íslensks efnahagslífs og þetta verkefni fellur mjög
vel að þeirri stefnumörkun.“ 

Nánari upplýsingar

Landsvirkjun: Ragna Sara Jónsdóttir, yfirmaður samskiptasviðs; sara@lv.is, 849
2122. 

Landsbankinn: Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi; pr@landsbankinn.is,
899 9352.