2017-08-22 18:10:22 CEST

2017-08-22 18:10:22 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Fjarskipti hf. - Ársreikningur

Fjarskipti hf.: Rekstrarkostnaður lækkar um 8% á fyrstu 6 mánuðum ársins


Árshlutareikningur Fjarskipta hf. fyrir annan ársfjórðung 2017 var samþykktur af
stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 22. ágúst 2017.

  * Tekjulækkun um 2% samanborið við annan ársfjórðung 2016
  * Framlegð 1.521 m.kr. en var 1.605 m.kr. á sama tímabili 2016
  * Kostnaðarverð stóð í stað frá 2F 2016
  * Rekstrarkostnaður lækkaði um 4% frá 2F 2016
  * EBITDA hagnaður nam 761 m.kr., hækkun um 1% milli ára
  * EBITDA hlutfall 22,5% og EBIT hlutfall 11,1% á fjórðungnum
  * Hagnaður tímabilsins nam 239 m.kr.
  * Eiginfjárhlutfall nam 48,3%
  * Handbært fé frá rekstri nam 513 m.kr.


Stefán Sigurðsson, forstjóri:

"Rekstur annars fjórðungs gekk ágætlega og hækkaði EBITDA um 1% frá síðasta ári.
Mjög góður gangur var í rekstrinum í apríl og maí en lækkun reikitekna í júní í
tengslum við innleiðingu á Roam like Home innan EES hafði neikvæð áhrif.  Ekki
bætti úr skák í samanburði að júní á síðasta ári var besti reikimánuður ársins
þar sem margir Íslendingar fóru til Frakklands að styðja íslenska landsliðið.
Innleiðing Roam like Home dró þannig úr aukningu rekstrarhagnaðar á fjórðungnum
en vöxtur í tekjum af  sjónvarpsstarfsemi félagsins og  mikill árangur í lækkun
rekstrarkostnaðar skilaði engu að síður ágætu uppgjöri.  Rekstrarkostnaður
fyrstu 6 mánuði ársins lækkar um 8% frá sama tímabili í fyrra sem sýnir að
hagræðingaraðgerðir sem félagið fór í fyrir um ári eru að skila sér. Tekjur
félagsins af interneti hækkuðu í uppgjörinu einkum vegna þess að félagið tók
yfir rukkun aðgangsgjalda Gagnaveitu Reykjavíkur gagnvart viðskiptavinum en sú
breyting hefur sambærileg áhrif á kostnaðarverð seldra vara.

Félagið hefur nú fengið reynslu af reiki í júlí , eftir innleiðingu Roam like
Home,  það er bæði af notkun Íslendinga erlendis og notkun erlendra aðila á
Íslandi. Reynslan er í stuttu máli sú að viðskiptavinir Vodafone sem ferðast í
Evrópu innan landa EES hafa aukið gagnamagnsnotkun sína mun meira en þeir
viðskiptavinir íslenskra fjarskiptafélaga sem ferðast til Íslands.
Viðskiptavinir Vodafone juku meðal gagnamagnsnotkun um 351% sem er næstum
tvöfalt meira en aukning meðal gagnamagnsnotkunar viðskiptavina evrópskra
fjarskiptafyrirtækja á kerfum Vodafone á Íslandi sem var 160%.  Þessi notkun
Íslendinga er mun meiri en forsendur gerðu ráð fyrir og eykur nokkuð kostnað
félagsins af þessari breytingu. Áhrif afnáms reikis í Evrópu mun hafa þau áhrif
á fyrirtækið að árstíðasveifla í rekstrinum mun minnka þar sem ekki koma
sérstakar tekjur af ferðalögum viðskiptavina í Evrópu. Þriðji fjórðungur sem
hefur verið stærsti fjórðungur félagsins verður með minni árstíðarsveiflu og
þannig svipaðari öðrum fjórðungum.  Félagið hefur nú þegar gripið til ýmissa
aðgerða á kostnaðar- og tekjuhliðinni sem munu draga úr áhrifum á rekstur
félagsins enda stendur félagið við horfur sínar um að skila EBTIDA fyrir árið í
kringum 3.250 m.kr.

Á fjórðungnum hélt ferli við að kaupa eignir 365 áfram með samskiptum við
Samkeppniseftirlitið þar sem félagið skilaði bæði samrunaáætlun, fékk viðbrögð
eftirlitsaðila og markaðarins við henni og gerði tillögu að skilyrðum. Búast má
við endanlegu svari í byrjun september eða október og ganga kaupin þá í gegn
mánuði síðar verði þau heimiluð. Þrátt fyrir ítarleg og öflug skilyrði til að
gæta samkeppni getur félagið staðið við fyrri yfirlýsingar um hækkun EBITDA
félagins við kaupin upp á 1.750 m.kr. sem færu að fullu að hafa áhrif innan 18
mánaða frá sameiningu."


[]