2016-11-08 17:28:47 CET

2016-11-08 17:28:47 CET


BIRTINGARSKYLDAR UPPLÝSNINGAR

Íslenska
Akureyrarbær - Fyrirtækjafréttir

Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2017


Jafnvægi í rekstri samstæðunnar

Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2017 er lögð fram í bæjarstjórn
Akureyrar í dag. Rekstarafkoma A- og B-hluta er áætluð jákvæð um 273,1 milljón
króna eftir fjármagnsliði og tekjuskatt. Jafnframt var lögð fram þriggja ára
áætlun áranna 2018-2020. 

Fjárhagsáætlunin er sett fram samkvæmt reikningsskilum sveitarfélaga.
Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins
vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð
með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, Fasteignir Akureyrarbæjar,
Framkvæmdamiðstöð og Eignasjóð gatna. Til B-hluta teljast fjárhagslega
sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins en
rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin
eru: Félagslegar íbúðir,  Strætisvagnar Akureyrabæjar, Öldrunarheimili
Akureyrabæjar, Framkvæmdasjóður Akureyrarbæjar, Bifreiðastæðasjóður
Akureyrabæjar, Hafnarsamlag Norðurlands, Norðurorka hf.,  Byggingasjóður
Náttúrufræðistofnunar og Gjafasjóður Öldrunarheimila Akureyrarbæjar. 

Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi samstæðunnar mun veltufé frá rekstri nema
2.325 millj.kr. Fjárfestingarhreyfingar nema samtals 3.489 millj.kr.
Fjármögnunarhreyfingar munu nema samtals 1.105 millj.kr. Áætlað er að
afborganir langtímalána nemi 979 millj.kr. Ný langtímalán eru áætluð 2.130
millj.kr. Handbært fé sveitarfélagsins í árslok er áætlað 2.036 millj.kr. 

Skatttekjur samstæðu eru áætlaðar 10.775 millj.kr, tekjur frá jöfnunarsjóði
2.740 millj.kr. og aðrar tekjur 9.625 millj.kr.  Heildartekjur samstæðunnar eru
því áætlaðar 23.140 millj.kr. 

Heildarlaunagreiðslur ásamt launatengdum gjöldum hjá samstæðunni eru áætlaðar
13.403 millj.kr. Meðal launagjalda hefur verið færð hækkun vegna
lífeyrisskuldbindinga, hækkun á mótframlagi í opinberu lífeyrirssjóðina og
framlag til að mæta ófyrirséðum launahækkunum á næsta ári. Samtals nema þessi
útgjöld 790 milljónum króna í áætluninni. Laun og launatengd gjöld
sveitarfélagsins, í hlutfalli við rekstrartekjur þess, eru áætluð 57,9%. Annar
rekstrarkostnaður er áætlaður 29,1% af rekstrartekjum. Skatttekjur
sveitarfélagsins og tekjur frá jöfnunarsjóði eru áætlaðar 727 þús.kr. á hvern
íbúa en tekjur samtals 1.244 þús.kr. á hvern íbúa. Árið 2016 eru skatttekjurnar
ásamt jöfnunarsjóði áætlaðar skv. útkomuspá 687 þús.kr. á hvern íbúa og
heildartekjurnar 1.166 þús.kr. 

Áætlað er að eignir sveitarfélagsins í efnahagsreikningi 31.12.2017 verði
bókfærðar á 44.199 millj.kr., þar af eru veltufjármunir 4.317 millj.kr. Skuldir
sveitarfélagsins með lífeyrisskuldbindingum nemi þá samkvæmt efnahagsreikningi
26.111 millj.kr., þar af verði skammtímaskuldir 5.623 millj.kr. Áætlað er að
heildareignir á hvern íbúa muni nema 2.377 þús.kr. og skuldir 1.260 þús.kr.
Veltufjárhlutfallið er áætlað 0,77 í árslok 2017, en er áætlað 1,22 í árslok
2016. Bókfært eigið fé er áætlað að nemi 18.088 millj.kr í árslok 2017.
Eiginfjárhlutfall í árslok er áætlað að nemi 41%. 

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um fjárhagsáætlun á tveimur fundum í
sveitarstjórn og verður hún til fyrri umræðu í dag í bæjarstjórn Akureyrar og
til síðari umræðu þann 6. desember nk. 

Meðfylgjandi í pdf-skjali er frumvarp að fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir
árið 2017, samstæðan ásamt A-hluta, málaflokkayfirliti og framkvæmdayfirliti.
Auk fjárhagsáætlunarinnar fyrir árið 2017 er birt í frumvarpinu þriggja ára
áætlun vegna áranna 2018-2020 ásamt útkomuspá fyrir árið 2016. 



Nánari upplýsingar veitir Dan Brynjarsson, fjármálastjóri, í síma 460 1000.