2009-03-03 12:58:56 CET

2009-03-03 12:59:59 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Sparisjóður Mýrasýslu - Fyrirtækjafréttir

- Sparisjóður Mýrasýslu framlengir samningi um kyrrstöðutímabil (standstill) við helstu lánardrottna félagsins til 1. apríl.


Sparisjóður Mýrasýslu hefur um nokkurn tíma unnið að fjárhagslegri
endurskipulagningu sjóðsins eftir að ljóst varð að ekki yrði af samningi við
Kaupþing banka hf. í kjölfar hruns íslensku viðskiptabankanna. 
Í nóvember 2008 undirrituðu Nýi Kaupþing banki hf. og Borgarbyggð samkomulag um
kaup bankans á öllu stofnfé Sparisjóðs Mýrasýslu. Kaupin eru háð því að
samningar náist við lánardrottna um fjárhagslega endurskipulagningu sjóðsins
auk þess sem fyrirvari er gerður um samþykki Fjármálaeftirlits og
Samkeppniseftirlits. 

Þann 27. janúar sl. undirritaði sparisjóðurinn samkomulag við alla helstu
lánardrottna sína, innlenda sem erlenda, þess efnis að lánadrottnar skuldbinda
sig til að gjaldfella ekki lán sparisjóðsins innan tilskilins frests sem er til
2. mars næstkomandi. Samkomulaginu hefur verið framlengt til 1. apríl
næstkomandi við alla lánadrottna utan einn en gert er ráð fyrir að ljúka
samningum við hann á næstu dögum. 

Áfram gildir að höfuðstóll lána verður ekki greiddur á tímabilinu og heldur
ekki vextir af víkjandi lánum. Sparisjóðurinn mun hins vegar greiða vexti af
öðrum lánum, eftir því sem við á, á kyrrstöðutímabilinu og samkomulagið hefur
ekki áhrif á stöðu sparifjáreigenda eða þeirra sem eiga almennar
viðskiptakröfur á sparisjóðinn. 

Eigendur skuldabréfa sem tekin hafa verið til viðskipta í kauphöll eru ekki
aðilar að þessu samkomulaginu en stefnt er að þátttöku þeirra í fjárhagslegri
endurskipulagningu. Þegar hefur verið samið við einn eiganda útgefinna bréfa að
fresta gjalddaga bréfana og vonast er til að fleiri komi að málinu á síðari
stigum þess. 

Sparisjóður Mýrasýslu hefur eins og komið hefur fram átt í viðræðum við
lánardrottna um nokkurn tíma vegna stöðu sjóðsins og eru sparisjóðsstjóri og
stjórn sparisjóðsins eru bjartsýnir á að samningar muni nást um fjárhagslega
endurskipulagningu. Undiritun samkomulags við lánardrottna er jákvætt skref í
átt að því að tryggja framtíðarrekstur sparisjóðsins og að tryggja hagsmuni
viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila. 

Frekari upplýsingar veitir:

Bernhard Þór Bernhardsson
Sparisjóðsstjóri
Sími: 4307500
Netfang: bernhard@spm.is