2014-01-28 09:33:55 CET

2014-01-28 09:34:07 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Fjarskipti hf. - Fyrirtækjafréttir

EFTA dómstólinn ógildir ákvörðun ESA


EFTA dómstólinn hefur ógilt ákvörðun ESA um að opna ekki formlega rannsókn á
útboði á tveimur ljósleiðaraþráðum í eigu NATO. Niðurstaða EFTA dómstólsins
felur í sér að ESA mun endurupptaka málið og hefja formlega rannsókn á næstu
vikum á því hvort ríkisaðstoð sé fyrir hendi og hvort hún sé ólögmæt. Niðurstaða
EFTA dómstólsins felur ekki sér neina efnislega afstöðu um ríkisaðstoð.

Áður uppgefið um málið í skráningarlýsingu bls. 19 í útgefandalýsingu dags. 19.
nóvember 2012:"Kvörtun Mílu til Eftirlitsstofnunar EFTA vegna útboðs á NATO-streng
Í júní 2008 buðu Ríkiskaup f.h. Varnarmálastofnunar út til leigu og starfrækslu
tvo ljósleiðaraþræði í eigu NATO. Í útboðinu var lögð sérstök áhersla á að örva
samkeppni. Fjarskipti voru eitt þeirra fyrirtækja sem gengið var til samninga
við á grundvelli útboðsins og lá samningur fyrir í febrúar 2010. Í kjölfarið
kvartaði Míla til Eftirlitsstofnunar EFTA og taldi að samningurinn fæli í sér
ólögmæta ríkisaðstoð þar sem Míla hefði í reynd verið útilokuð frá þátttöku í
útboðinu vegna framangreindrar áherslu á samkeppni, en Míla er núverandi eigandi
ljósleiðara sem lagðir höfðu verið af íslenska ríkinu um land allt auk þess að
starfrækja eigið gagnaflutningskerfi á kopar.

Þar sem málið er tilkomið vegna meintrar ólögmætrar ríkisaðstoðar er það rekið á
milli Eftirlitsstofnunar EFTA og íslenska ríkisins og eru Fjarskipti því ekki
beinn aðili málsins. Engu að síður gæti niðurstaðan haft áhrif á félagið. Komist
Eftirlitsstofnun EFTA að þeirri niðurstöðu að um ólögmæta ríkisaðstoð hafi verið
að ræða yrði hún byggð á þeirri ályktun að leiguverð samkvæmt samningnum væri
lægra en markaðsverð. Fjarskiptum yrði þá gert að greiða mismuninn á þessu
tvennu. Ekki er mögulegt fyrir félagið að meta um hvaða fjárhæðir yrði að ræða í
slíku tilviki, enda felst það í mati á hugsanlegum markaðskjörum slíkrar leigu.

Það er afstaða Fjarskipta að ekki sé um ólögmæta ríkisaðstoð að ræða þar sem
samningurinn hafi verið gerður á grundvelli útboðs. Allt að einu vísar félagið
til þess að samningurinn samrýmist leiðbeiningarreglum Eftirlitsstofnunar EFTA
um breiðbandsþjónustu13 (e. broadband guidelines) þannig að skilyrði
almannaþjónustu séu uppfyllt. Enn fremur vísar félagið til þess að telji
stofnunin engu að síður að um ríkisaðstoð gæti verið að ræða séu skilyrði c-
liðar 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins uppfyllt í málinu að mati félagsins.
Frekari umfjöllun um samninginn er að finna í kafla 1.3.3. Mikilvægir
samningar."


Áður uppgefið í viðauka við lýsingu dagsettum 29. nóvember 2012, bls. 1."Niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA varðandi útboð á NATO streng
Þann 21. nóvember 2012 komst Eftirlitsstofnun EFTA að þeirri niðurstöðu að
samningur um leigu á ljósleiðara sem undirritaður var á milli
Varnarmálastofnunar og Fjarskipta hf. (þá Og Fjarskipta ehf.) þann 1. febrúar
2010 feli ekki í sér ríkisaðstoð í skilningi EES samningsins. Fjarskipti voru
ekki beinn aðili málsins, sem rekið var á milli Mílu og íslenska ríkisins, en
engu að síður hefði niðurstaða þess getað haft fjárhagsleg áhrif á félagið.
Hefði Eftirlitsstofnun EFTA komist að þeirri niðurstöðu að um ólögmæta
ríkisaðstoð væri að ræða hefði félagið mögulega þurft að greiða mismuninn á
leiguverðinu, skv. umræddum samningi við Varnarmálastofnun, og markaðsverði eins
og það hefði verið skilgreint af Eftirlitsstofnun EFTA. Með úrskurðinum er nú
ljóst að svo verður ekki og að leiguverð skv. samningnum mun standa óbreytt.

Aðrar upplýsingar sem fram koma í kafla 1.3.6. Ágreinings- og dómsmál í
útgefandalýsingu Fjarskipta,  dagsettri 19. nóvember 2012, eru óbreyttar."

Nánir upplýsingar verða veittar eftir því sem málinu vindur fram.

[HUG#1757479]