2015-10-15 00:36:04 CEST

2015-10-15 00:37:05 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Vátryggingafélag Íslands hf. - Hluthafafundir

Hluthafafundur í Vátryggingafélagi Íslands hf. verður haldinn 10. nóvember 2015


Stjórn Vátryggingafélags Íslands hf. („VÍS“/“félagið“) boðar til hluthafafundar
í félaginu og verður hann haldinn í höfuðstöðvum félagsins að Ármúla 3, 108
Reykjavík, þriðjudaginn 10. nóvember 2015 og hefst hann stundvíslega kl. 16:00. 

Dagskrá fundarins er svohljóðandi:

1.     Kosning stjórnar

2.     Önnur mál

Stjórn félagsins barst eftir lokun markaðar í dag bréf frá hluthöfunum SNV
Holding ehf. og Heddu eignarhaldsfélagi ehf. sem samtals eiga 5,05% í VÍS. Í
bréfinu óska félögin í sameiningu eftir því að boðað verði til hluthafafundar
þar sem kosið verði til stjórnar. Í 85. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 og 1.
mgr. 9. gr. samþykkta VÍS kemur fram að boða skuli til auka hluthafafundar ef
hluthafar, sem ráða yfir minnst 5% hlutafjárins, krefjast þess skriflega og
greina fundarefni. Með boðun þessari er stjórn að verða við skyldu sinni
samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum. 

Hluthafa er heimilt að sækja fund ásamt ráðgjafa, sem hvorki hefur málfrelsi,
tillögurétt né atkvæðisrétt. Hluthafa er þó heimilt að gefa ráðgjafa sínum
orðið fyrir sína hönd. Einnig getur hluthafi falið umboðsmanni sínum að sækja
fyrir sig fund og skal hann þá leggja fram skriflegt og dagsett umboð. 

Hluthafi á rétt á því að fá ákveðin mál tekin fyrir á hluthafafundi, ef hann
gerir um það skriflega eða rafræna kröfu til stjórnar félagsins,
(stjorn@vis.is), með það miklum fyrirvara að unnt sé að taka málið á dagskrá
fundarins. 

Atkvæðagreiðslur verða einungis skriflegar á fundinum ef einhver atkvæðisbærra
fundarmanna krefst þess. Þó skal stjórnarkjör jafnan vera skriflegt ef tillögur
koma fram um fleiri stjórnarmenn en kjósa skal.  Stjórnarkjör fer fram skv.
hlutfallskosningu eftir samþykktum félagsins.  Vakin er athygli á ákvæðum 16.
gr. samþykkta félagsins um stjórnarkjör þar sem fjallað er um kynjakvóta. 

Ekki verður hægt að greiða atkvæði með rafrænum hætti á fundinum. Hluthafar
geta óskað eftir því að fá atkvæðaseðla senda til sín og skal skrifleg beiðni
þar um hafa borist á heimili félagsins a.m.k. fimm dögum fyrir auglýstan
hluthafafund. Einnig geta hluthafar vitjað atkvæðaseðla sína á heimili
félagsins frá sama tíma eða greitt þar atkvæði. 

Hluthafafundur er lögmætur án tillits til fundarsóknar ef hann er löglega
boðaður. 

Endanleg dagskrá verður birt á vefsíðu félagsins og mun liggja frammi á
skrifstofu þess að Ármúla 3, 108 Reykjavík, viku fyrir hluthafafundinn. 

Upplýsingar um frambjóðendur til stjórnar verða lagðar fram hluthöfum til sýnis
á skrifstofu félagsins eigi síðar en tveimur dögum fyrir hluthafafund.
Upplýsingarnar verða auk þess aðgengilegar á vefsíðu félagsins,
www.vis.is/fjarfestar. 

Fundargögn verða afhent á fundarstað.



Reykjavík, 14. október 2015.

Stjórn Vátryggingafélags Íslands hf.