2009-02-16 12:01:17 CET

2009-02-16 12:02:18 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Nýsir hf. - Fyrirtækjafréttir

- Fjárhagsleg endurskipulagning Nýsis hf.


Helstu lánardrottnar Nýsis hf. hafa undanfarna mánuði unnið sameiginlega í
óformlegu greiðslustöðvunarferli að því að tryggja verðmæti í félaginu í
samræmi við vinnubrögð hinnar svokölluðu Lundúnarleiðar um úrlausn vanda
fyrirtækja í fjárhagslegum erfiðleikum.  Haft var til grundvallar að hin
óformlega greiðslustöðvun skyldi leiða til þess að kröfuhafar væru betur
staddir að afloknu þessu ferli en  ef til gjaldþrots hefði komið.  Að mati
helstu lánardrottna félagsins, sem og óveðtryggra kröfuhafa, er reynsla síðustu
mánaða jákvæð og ítrekar mikilvægi samstarfs kröfuhafa  við úrlausn erfiðra
útlánamála. 

Í kjölfar þessa óformlega greiðslustöðvunarferlis hefur viðræðum milli eigenda
Nýsis hf. og helstu lánardrottna félagsins, NBI hf., Landsbanka Íslands hf.,
Nýja Glitnis Banka hf., Nýja Kaupþings Banka hf., SPRON, Byr sparisjóðs ásamt
fleirum nú lokið með yfirtöku lánardrottna á öllu hlutafé í Nýsi hf.  Samhliða
formlegri aðkomu aðila að félaginu munu lánardrottnar félagsins nú vinna að því
að ljúka endurskipulagningu þess með sölu eða lokun óarðbærra dótturfélaga
Nýsis hf. í huga. Markmið  endurskipulagningarinnar er að tryggja rekstrarhæfi
Nýsis hf. og valdra dótturfélaga en það er ljóst að yfirstandandi
efnahagsþrengingar ásamt gengisfalli íslensku krónunnar og hárri verðbólgu
hefur rýrt eigið fé Nýsis hf. og dótturfélaga til mikilla muna. 

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að fyrri eigendur Nýsis hf. hafa nú þegar
gengið frá sölu á hlut félagsins í Meritum ehf. (móðurfélagi Miða.is og
Billetlugen APS) til Straums Burðaráss Fjárfestingabanka hf. og óskað eftir því
að Nýsir fasteignir hf. verði tekið til gjaldþrotaskipta enda hefur skuldastaða
félagsins versnað umtalsvert síðastliðið ár og vanskil félagsins og
dótturfélaga þess gagnvart NBI hf. (áður Landsbanka Íslands hf.) meiri en við
var ráðið.  Ennfremur standa yfir viðræður um sölu á hlutum Nýsis hf. í
þróunarverkefnum félagsins við hlið Tónlistarhússins á austurbakka
Reykjavíkurhafnar og yfirtöku Landsbanka Íslands hf. á dótturfélögum Nýsis hf.
í Bretlandi. 

Með formlegri yfirtöku helstu lánardrottna Nýsis hf. á félaginu hefst nú næsta
stig í endurskipulagningu þess. Vonir standa til að niðurstaða um
framtíðareignarhald félagsins og dótturfélaga muni skýrast á næstu 2-3 mánuðum.
 Fyrrverandi eigendur Nýsis hf., þeir Sigfús Jónsson og Stefán Þórarinsson,
hafa ennfremur sagt skilið við félagið en framkvæmdastjóri félagsins frá og með
16. febrúar verður Haraldur L. Haraldsson. 

Nánari upplýsingar veitir Haraldur L. Haraldsson, framkvæmdastjóri Nýsis hf.

Haraldur Haraldsson: hlh@nysir.is