2015-04-22 12:29:36 CEST

2015-04-22 12:30:39 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Mosfellsbær - Ársreikningur

Mosfellsbær – Ársreikningur 2014


                         Ársreikningur 2014 lagður fram



Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2014 var lagður fram í bæjarráði í dag
og honum vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn. 



Rekstrarafgangur fyrir fjármagnsliði var 312 milljónir sem er rúmlega 4% af
tekjum. Að teknu tilliti til fjármagnsliða er rekstrarhalli A og B hluta 72
milljónir eða tæplega 1% af tekjum. Veltufé frá rekstri er 468 milljónir eða
rúmlega 6% af tekjum. Eigið fé í árslok nam 4.120 milljónum og
eiginfjárhlutfall tæplega 28%. Skuldaviðmið er 128% sem er vel innan þess 150%
hámarks sem kveðið er á um í lögum. 



Rekstrarniðurstaða A og B hluta var lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir sem
skýrist helst af ytri kostnaðarþáttum sem reyndist erfitt að bregðast við á
rekstrarárinu. Í því tilliti ber helst að nefna að kjarasamningsbundnar
launahækkanir voru meiri en ráð var fyrir gert, veitt var meiri fjárhagsaðstoð
en áður auk þess sem ófyrirséður halli varð á rekstri málaflokks fatlaðs fólks.
Bæjarráð hefur samþykkt að fela bæjarstjóra að mynda teymi úr hópi
framkvæmdastjórnar til að yfirfara fjárhagsáætlun ársins 2015. Í þeirri vinnu
verði lagt mat á hvaða atriði þarf að endurskoða í fjárhagsáætlun ársins með
tilliti til fyrirliggjandi rekstrarniðurstöðu ársins 2014. 



Íbúar Mosfellsbæjar voru 9.300 um síðustu áramót og hafði fjölgað um 2,5% á
milli ára. Mosfellsbær er sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins og þar
störfuðu 649 starfsmenn í 533 stöðugildum á árinu 2014. 



Fræðslumál eru langstærsti málaflokkurinn en til hans runnu 2.981 milljónir eða
52% skatttekna. Til félagsþjónustu var veitt 1.269 milljónum og eru þar
meðtalin málefni fatlaðs fólks. Íþrótta- og æskulýðsmál eru þriðja stærsta
verkefni bæjarins en til þeirra mála var varið um 662 milljónum. Samtals er því
85% skatttekna Mosfellsbæjar varið til fræðslu-, félagsþjónustu- og
íþróttamála. 



Reikningurinn verður lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í dag og til
síðari umræðu 6. maí næstkomandi. 



Nánari upplýsingar veitir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í síma 862 0012