2009-06-30 18:30:00 CEST

2009-06-30 18:30:01 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Hf. Eimskipafélag Íslands - Fyrirtækjafréttir

Fjárhagsleg endurskipulagning


-Siglingar til og frá landinu raskast ekki.
-Störfum 1.500 starfsmanna borgið 

Eimskip áformar að stofna nýtt fjárhagslega öflugt flutninga- og
vörustjórnunarfyrirtæki. Nýtt og endurskipulagt Eimskip mun einbeita sér að
kjarnastarfsemi sinni. 

•	Fyrirætlanir þessar eru háðar samþykki  lánardrottna Eimskips.  Félagið mun
leggja fram beiðni um nauðasamninga til héraðsdóms Reykjavíkur sem mun verða
kynnt fyrir  lánardrottnum. 
•	Þetta mun ekki hafa áhrif á daglegan rekstur félagsins á sviði flutninga og
vörustjórnunar. Greiðslur til birgja verða einnig  með óbreyttum hætti. 
•	Nýtt og endurreist félag verður að fullu í eigu lánardrottna Eimskips.  Meðal
þeirra er bandaríska fjárfestingarfélagið The Yucaipa Companies með um 32%
eignarhlut sem jafnframt leggur félaginu til 15 milljónir evra. 
•	Eimskip selur 49% hlutafjár í Versacold Atlas til Yucaipa, sem einnig hefur
samið um kauprétt á 51% hlutafjár. 
•	Eimskip hefur selt þrjú gámaskip sem gerð voru út frá Noregi.

Eimskip mun óska eftir heimild til nauðasamninga. Eimskip Ísland ehf. verður í
meirihlutaeigu íslenskra lánardrottna 

Eimskip hefur unnið með erlendum og innlendum ráðgjöfum frá því í október 2008
að  fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins.  Gríðarleg skuldsetning
félagsins reyndist óviðráðanleg. Sú staða er afleiðing nokkurra illa ígrundaðra
fyrirtækjakaupa erlendis og þeirri staðreynd að háar ábyrgðir féllu á félagið. 
Samdráttaráhrif efnahagskreppunnar á mörkuðum innanlands og utan juku jafnframt
vanda félagsins.  Markmið stjórnar Eimskips er að hámarka endurgreiðslur til
lánardrottna og tryggja áframhaldandi starfsemi á Íslandi og í
Norður-Atlantshafi. Með þessu móti er einnig unnt að tryggja þau 1.500 störf
sem nú eru hjá félaginu. 

Eitt fyrsta skrefið í endurskipulagningunni er að tryggja reksturinn á Íslandi
með því að færa hluta starfseminnar yfir í dótturfélag Eimskips, Eimskip Ísland
ehf. Það verður í byrjun að fullu í eigu móðurfélagsins.  Með þessu móti er
tryggt að daglegur rekstur og þjónusta á Íslandi raskast ekki og um leið er
tryggt að greiðslur til birgja verða með eðlilegum hætti. Að sama skapi mun
breytingin ekki að hafa áhrif á rekstur dótturfélaga Eimskips. 

Eimskip Ísland ehf. verður að fullu í eigu lánardrottna þar af í meirihlutaeigu
íslenskra lánardrottna: 
•	Landsbanki Íslands hf. mun eignast um 40% í félaginu og NBI um 5%. 
•	Yucaipa breytir útistandandi veðtryggðum kröfum í hlutafé og fjárfestir
jafnframt 15 milljónir evra í félaginu og eignast þannig um 32% í fyrirtækinu. 
•	Ríflega fimmtíu aðrir lánardrottnar eignast 23% í Eimskip Íslandi ehf.
Flestir þeirra eru íslenskir sjóðir og skuldabréfaeigendur, þ.m.t. nokkrir
lífeyrissjóðir. 
•	Núverandi hluthafar félagsins verða ekki í eigendahópi Eimskips Íslands ehf
og fulltrúar  nýrra eigenda munu skipa nýja stjórn þess eftir
endurskipulagningu. 
Veðtryggðir lánardrottnar Eimskips, Yucaipa,  skilanefnd Landsbankans og
Íslandsbanki hf., styðja þessar tillögur.  Skilanefnd Landsbankans og
Íslandsbanki hf. hafa samþykkt að halda áfram fjármögnun sem  lýtur að
fasteignum Eimskips Íslands ehf. 

Eimskip mun nú leita eftir heimild til nauðasamninga og mun óveðtryggðum
lánardrottnum gefast tækifæri til að kynna sér þessar tillögur.  Að því loknu
verða óveðtryggðir lánardrottnar beðnir um að greiða atkvæði.  Reiknað er með
að þetta ferli geti tekið 8 - 10 vikur og vonast er til að endurskipulagningu
félagsins verði endanlega lokið á haustmánuðum. 

Óveðtryggðar kröfur eru um 45% af heildarkröfum í Hf. Eimskipafélag Íslands.
Eimskip áætlar að óveðtryggðir lánardrottnar fái um 12% upp í  kröfur sínar. 
Gert er ráð fyrir að heildarniðurstaðan verði sú að um 61% af öllum kröfum á
félagið séu tryggar. 

Eimskip dregur sig út úr kæligeymslurekstri og lækkar rekstrarkostnað
Eimskip hefur samið um sölu á 49% hlutafjár Versacold Atlas til Yucaipa og
jafnframt veitt fyrirtækinu forkaupsrétt að 51%. Yucaipa er stór
fjárfestingarsjóður sem sérhæfir sig í fjárfestingum í smásölu, vörustjórnun og
flutningi matvæla.  Stærsta kæligeymslufyrirtæki Bandaríkjanna, Americold, er í
eigu Yucaipa. 

Söluferli Versacold Atlas hófst í september 2008 undir stjórn tveggja
alþjóðlegra fjárfestingarbanka. Kauptilboð sem bárust voru mun lægri en vonir
stóðu til og í raun óásættanleg, enda hefðu þau ekki dugað til að greiða niður
skuldir félagsins sem stofnað var til við kaupin. Yucaipa, sem gerði tilboð í
upphaflega ferlinu, lýsti áhuga á þátttöku í endurskipulagningu Eimskips meðal
annars til að liðka fyrir sölunni á Versacold Atlas. 

Yucaipa hefur yfirtekið 120 milljón evra lán ABN Amro sem hvíldi á Eimskip, 
sem undanfara að yfirtöku á Versacold Atlas. 

Yucaipa skipti hluta af ABN Amro láninu fyrir 49% hlut í Versacold Atlas og
hefur  eins og fyrr segir forkaupsrétt að því hlutafé sem eftir stendur. 

Loks hefur Eimskip selt þrjú gámaskip í Noregi til Atlantica Shipping og greitt
niður skuldir um 30 milljónir evra. 

Vegna sölunnar á Versacold Atlas mun Eimskip færa niður eignarhlut sinn í
félaginu upp á 176 milljónir evra. 

Næstu skref
Beiðnin um nauðasamninga markar mikilvægan áfanga í fjárhagslegri
endurskipulagningu Eimskips.   Í framhaldinu stefnir stjórn félagsins að
afskráningu hlutabréfa Eimskips í Kauphöll Íslands. 

Verði nauðasamningar samþykktir lækka vaxtaberandi heildarskuldir samstæðunnar
úr um 1,600 milljónum evra í um 100 milljónir evra í hinu nýja fyrirtæki.  Í
kjölfarið mun traustur efnahagsreikningur Eimskip Ísland ehf tryggja félaginu
og samstæðufyrirtækjum þess heilbrigðan rekstur. 

Gylfi Sigfússon, forstjóri Hf. Eimskipafélags Íslands: „Ég tel þetta vera
lífsnauðsynlegt skref í ferli sem miðar að endurreisn Eimskips og að drög að
nauðasamningum bjóði upp á bestu fáanlegu útkomu fyrir alla lánardrottna
samstæðunnar.  Ég vona að lánardrottnar okkar verði á sama máli og greiði
atkvæði með þessum drögum sem munu gefa Eimskip fjárhagslegan styrk til að
takast á við efnahagslega erfiðleika og leggja grundvöll að virðisaukningu í
framtíðinni. 
Það er mér sérstök ánægja að tilkynna aðild Yucaipa að Eimskip því ég tel að
stuðningur erlends fjárfestingarsjóðs við íslenskt fyrirtæki sé mjög jákvætt
skref fyrir hagkerfi okkar í heild og sýni að erlendir fjárfestar eru
reiðubúnir að fjárfesta á  Íslandi.  Yucaipa er ekki einungis  fjárfestir
heldur samstarfsaðili sem mun leggja til rekstrarlega sérþekkingu og valkosti
við stefnumótun fyrir endurreista starfsemi okkar.  Við hlökkum til að kanna
valkosti fyrir Eimskip og önnur félög í eignasafni Yucaipa til að virkja
augljós tækifæri til samvinnu milli þeirra í sambandi við kæligeymslu- og 
frystigámarekstur. 

Eftir sem áður mun meginverkefni okkar vera þjónusta fyrir Ísland, Norður
Atlantshafssvæðið, Færeyjar og Noreg.  Á síðustu sex mánuðum höfum við unnið af
krafti við að minnka afkastagetu og aðlaga umfang starfseminnar að minni
eftirspurn á öllum sviðum. Starfsfólk okkar hefur einnig sýnt mikla óeigingirni
og fórnfýsi á þessum erfiðu tímum og kann ég því miklar þakkir fyrir. 

Ég vil undirstrika að nauðasamningsferlið mun væntanlega ekki hafa nein áhrif á
daglegan rekstur Eimskips, hvorki á Íslandi né erlendis, og ég hvet hvern þann
sem óttast að reyndin kunni að verða önnur að hafa samband við okkur og ræða
málin.  Sameiginlegt markmið okkar er að sjá til þess að rekstrartruflanir
verði sem allra  minnstar ef nokkrar. 

Lánardrottnar hafa veitt Eimskip ómetanlegan stuðning síðustu mánuðina.  Ég
þakka þeim stuðninginn og vona að þeir séu sammála stjórninni og
stjórnunarteyminu að þessar tillögur bjóða upp á besta valkostinn í stöðunni
fyrir alla lánardrottna.  Það er augljóslega ákjósanlegasta niðurstaðan fyrir
alla sem vilja sjá Eimskip vinna sig út úr mótbyrnum og gegna áfram
lykilhlutverki í endurreisn íslenska hagkerfisins.“