2010-11-05 10:13:06 CET

2010-11-05 10:14:07 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Orkuveita Reykjavíkur - Fyrirtækjafréttir

OR fær lánshæfiseinkunn B+ með stöðugum horfum


Íslenska lánshæfismatsfyrirtækið Reitun ehf. birti í dag lánshæfismat fyrir
Orkuveitu Reykjavíkur í fyrsta skipti. Einkunnin er B+ með stöðugum horfum. 
Einkunnagjöf Reitunar er lítillega frábrugðin þeirri aðferðafræði sem almennt
þekkist. Ríkissjóður myndar grunn að einkunn til viðmiðunar við útgefendur.
Einkunnaflokkar eru A,B,C og D. Undirflokkar eru +,0,-.  Samtals eru 12
flokkar. Til viðbótar er tilgreint hvort horfur séu jákvæðar, stöðugar eða
neikvæðar.
Orkuveita Reykjavíkur gerði samning við Reitun í haust um greiningu og mat á
lánshæfi fyrirtækisins gagnvart fjárfestum á skuldabréfamarkaði. Markmiðið er
að gera fjárfestum kleift að fá álit óháðra aðila á fjármálum fyrirtækisins.
Reitun er dótturfélag IFS Greiningar og var stofnað fyrr á þessu ári. 
Í mati Reitunar um Orkuveitu Reykjavíkur segir: „Efnahagur OR stendur veikt í
dag. Ójafnvægi í myntsamsetningu tekna og skulda hefur komið sér illa fyrir
fyrirtækið vegna gengisfalls íslensku krónunnar. Hins vegar hefur
verðmætasköpun rekstrar haldist óbreytt, sjóðsstreymi er stöðugt og fer
vaxandi. Þegar hefur verið gripið til aðgerða til að styrkja fjárhagsstöðu OR.
Dregið hefur úr pólitískri áhættu með tengingu gjaldskrár smásölu við
verðlagsþróun auk þess sem sett verður arðgreiðslustefna til framtíðar sem
endurspeglar afkomu OR. Gert er ráð fyrir að skuldir greiðist niður um 25%
næstu sex árin. Mikilvægt er að OR nýti allt laust fé sem reksturinn skapar til
niðurgreiðslu lána þar sem líklegt er að lánsfjármögnun verði dýrari næstu
árin. Fyrirtækið ræður þó vel við hækkun vaxtakostnaðar tímabundið. Að teknu
tilliti til bakábyrgðar Reykjavíkurborgar, leiddi mat okkar til lánshæfis OR í
flokki B+ með stöðugum horfum. 

Standist fyrirliggjandi fjárhagsáætlun til 2016 og gangi lækkun skulda eftir
mun það leiða til hækkunar lánshæfis. Ytri þættir, s.s. styrking krónunnar,
lægri vextir, og batnandi fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar myndu að öllum
líkindum einnig hafa áhrif til hækkunar. Verulegar vaxtahækkanir á lánasafnið,
fjárfestingarþörf umfram áætlun án nýrra verkefna, og frekari gengislækkun
íslensku krónunnar hefðu að öllum líkindum áhrif til lækkunar lánshæfismats að
öðru óbreyttu.“