2010-12-17 06:00:00 CET

2010-12-17 06:00:02 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Orkuveita Reykjavíkur - Fyrirtækjafréttir

Árangursríkt skuldabréfaútboð Orkuveitu Reykjavíkur



Orkuveita Reykjavíkur (OR) hefur lokið sölu skuldabréfa í útboði að fjárhæð 5
milljarðar króna. Bréfin voru seld til innlendra fagfjárfesta. Fyrirtækið
vinnur áfram að fjármögnun langtímaverkefna innan lands og utan. „Þetta er til marks um að sá uppskurður á rekstrinum, sem gripið var til
í sumar, er að skila sér í aukinni tiltrú innlendra fjárfesta á fyrirtækinu,"
segir Helgi Þór Ingason forstjóri OR. Aðgerðirnar sem Helgi vísar til eru
gjaldskrárbreytingar, harkalegur niðurskurður rekstrarútgjalda og eignasala,
sem ákveðnar voru af stjórn OR 27. ágúst sl., og sú ákvörðun eigendafundar 17.
september sl., að falla frá arðgreiðslum. „Í aðdraganda útboðsins voru áhrif þessara aðgerða til lengri og skemmri
tíma kynnt fyrir aðilum á fjármálamarkaði og jákvæð viðbrögð þeirra eru
staðfest með góðum árangri í útboðinu," segir Helgi Þór. 

Með aðgerðunum var aukinn áhersla lögð á kjarnastarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur,
þ.e. veitureksturinn á suður- og vesturhluta landsins. Verulega var dregið úr
umfangi annarra verkefna, þau lögð af eða falin öðrum. Helgi Þór segir að
aðgerðirnar hafi tekist prýðilega að því leyti að rekstrargjöld hafi sparast án
þess að það hafi bitnað á grunnþjónustunni. Þess hafi ekki orðið vart, í það
minnsta ekki enn sem komið er. „Lykilatriði í þessum góða árangri eru skörp sameiginleg sýn stjórnar
fyrirtækisins og eigenda á forgang grunnþjónustunnar og almenn þátttaka
starfsfólks OR við að finna tækifæri til hagræðingar í rekstrinum," segir Helgi
Þór. 

Skuldabréfaútboðið í flokki OR 09 2 var tilkynnt 25. nóvember sl. Það var í
umsjá Landsbankans (NBI hf). og verðtryggðir vextir á bréfunum eru 4,65%, sem
eru talsvert hærri vextir en OR býr við í annarri fjármögnun verkefna
fyrirtækisins. 

OR hefur birt í Kauphöll fjárhagsáætlun 2011 og áætlun um fjárfestingar og
rekstur 2012-2016. Sjá hér. Unnið er að fjármögnun áætlunarinnar í samráði við
eigendur fyrirtækisins.