2014-11-28 22:21:10 CET

2014-11-28 22:22:11 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Ríkisútvarpið ohf. - Ársreikningur

Ársreikningur Ríkisútvarpsins ohf. 1. september 2013 til 31. ágúst 2014


      Betri afkoma en gert var ráð fyrir á seinni helmingi rekstrarárs RÚV



  -- Á rekstrarárinu 2013-2014 var 271 m.kr. tap af rekstri RÚV eftir skatta 
  -- Rekstrarár RÚV er frá 1. september til 31. ágúst 
  -- Rekstrarhagnaður RÚV 2013-2014 fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA)
     var 303 m.kr., þar af 278 m.kr. á seinni hluta rekstrarársins
  -- Tap fyrir tekjuskatt var 339 m.kr., en áætlun hafði gert ráð fyrir að tap
     fyrir skatta yrði 357 m.kr.
  -- Afkoma síðari hluta rekstrarársins er nokkru betri en áætlun gerði ráð
     fyrir þar sem tap fyrir skatta var 65 m.kr. í stað áætlunar upp á 83 m.kr.
  -- Ársreikningur er áritaður án fyrirvara en með ábendingu um óvissu um
     framtíðarhorfur vegna mikillar skuldsetningar



Afkoma rekstrarársins

Á rekstrarárinu 1. september 2013 til 31. ágúst 2014 var 271 m.kr. tap af
rekstri Ríkisútvarpsins ohf. eftir skatta. 

Tap af rekstri félagsins fyrir tekjuskatt var 339 m.kr. í stað 357 m.kr. taps
sem gert var ráð fyrir í endurskoðaðri rekstraráætlun sem kynnt var í mars. Þar
af var tap á fyrri hluta rekstrarársins 274 m.kr. fyrir tekjuskatt, en tap á
síðari hluta rekstrarársins var um 65 m.kr. í stað 83 m.kr. sem áætlað hafði
verið. Afkoma á síðari hluta rekstrarársins er því 20% betri en gert var ráð
fyrir í rekstraráætlun. Hagnaður RÚV fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA)
var 303 m.kr. á rekstrarárinu, þar af 278 m.kr. á seinni hluta rekstrarársins. 



Á fyrri hluta rekstrarársins var tap upp á 136 m.kr. fyrir fjármagnsliði en á
síðari hluta árs var hagnaður upp á 123 m.kr. fyrir fjármagnsliði. Rekstrartap
fyrir fjármagnsliði fyrir rekstrarárið í heild var því 13 m.kr. 



Skýringar

Rekstrarárið 2013-2014 einkenndist af umtalsverðum sviptingum í rekstri
Ríkisútvarpsins. Haustið 2013 var fallið frá því að RÚV fengi útvarpsgjaldið
óskert sem leiddi til umtalsverðrar lækkunar á væntum þjónustutekjum ársins
2014. Þetta leiddi til umtalsverðs niðurskurðar og umróts í nóvember og
desember 2013. Ný lög um Ríkisútvarpið tóku gildi 1. janúar 2014 sem m.a.
takmörkuðu sölu auglýsinga og kostunar. Þrír útvarpsstjórar störfuðu á árinu,
Páll Magnússon til 18. desember 2013, Bjarni Guðmundsson 19. desember 2013- 9.
mars 2014 og Magnús Geir Þórðarson frá 10. mars 2014. Nýtt skipurit tók gildi í
maí 2014 og á sama tíma tók ný framkvæmdastjórn til starfa þar sem fækkað var
um einn í framkvæmdastjórn. Umtalsverðar breytingar voru gerðar á skipulagi
félagsins sumarið 2014, undirbúningur var hafinn fyrir sölu lóðar og möguleikar
á sölu fasteigna félagsins skoðaðir. 



Þær margvíslegu hagræðingar- og niðurskurðaraðgerðir sem gripið var til á
rekstrarárinu koma ekki að fullu fram í rekstrarniðurstöðu ársins. Aðgerðirnar
byrjuðu að skila sér á síðari hluta rekstrarársins, og verða enn sýnilegri í
afkomu af rekstrinum á næstu misserum. Áætlanir næsta rekstrarárs gera ráð
fyrir um 200 m.kr. raunlækkun rekstrarkostnaðar. 



Tekjur ársins hækkuðu um 1% milli ára og er því um raunlækkun að ræða.
Þjónustutekjur voru 3.317 m.kr. og tekjur af auglýsingum og öðru voru 2.082
m.kr. en það síðarnefnda lækkar um 4,7% á milli ára.  Helstu ástæðurnar fyrir
lækkun auglýsingatekna eru ný lög sem takmarka möguleika RÚV á sölu auglýsinga
og kostunar auk þess sem almennur samdráttur var á auglýsingamarkaði á seinni
hluta rekstrarárs. 



Rekstrarárið 2013-2014 var ár stórmóta með HM í fótbolta, Vetrarólympíuleikum
og EM í handbolta en slíkum viðburðum fylgir ætíð aukinn kostnaður í rekstri
RÚV. Á seinni hluta rekstrarársins var brugðist við þessari kostnaðaraukningu
með því að selja hluta af sýningarrétti á leikjum á HM í knattspyrnu og auka
þannig tekjurnar af þeim. Vorið 2013 gerði RÚV samning við Vodafone um
uppbyggingu nýs stafræns dreifikerfis fyrir sjónvarp með það að markmiði að
bæta þjónustu við landsmenn. Kerfið verður komið upp að fullu í ársbyrjun 2015.
Kostnaður við nýja kerfið er nokkru meiri en við núverandi kerfi. Um 130 m.kr.
kostnaðarauki var á liðnu ári af innleiðingu á nýja kerfinu og því að leggja
niður eldra kerfið. 



Nokkur ófyrirséður kostnaður féll til í tengslum við hagræðingaraðgerðir í
nóvember 2013 en sá kostnaður fellur allur á rekstrarárið. Einskiptiskostnaður
vegna skipta á yfirstjórn félagsins hefur allur verið gjaldfærður á nýliðnu
rekstrarári en skipulagsbreytingar vorið 2014 leiða til þess að kostnaður við
yfirstjórn mun lækka á yfirstandandi rekstrarári. 



Launakostnaður á rekstrarárinu var 2.278 m.kr. en var 2.200 m.kr. á
rekstrarárinu á undan. Hækkun á launakostnaði skýrist af kjarasamningshækkunum,
kostnaði vegna stjórnendaskipta og breytinga á lífeyrisskuldbindingum, samtals
um 130 m.kr. Launakostnaður fer lækkandi þar sem starfsmönnum hefur fækkað á
árinu. Heildarfjöldi stöðugilda við upphaf rekstrarársins, í september 2013,
var 297 en 270 í lok rekstarársins í ágúst 2014.  Fjöldi stöðugilda í lok
október 2014 var 254, þar af eru 242 stöðugildi fastráðinna starfsmanna og 12
stöðugildi tímavinnumanna. 



Efnahagur og áritun

Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir félagsins 6,9 milljörðum kr., bókfært
eigið fé í lok reikningstímabilsins er 382 m.kr. og eiginfjárhlutfall félagsins
er 5,5%. 



Reikningurinn er áritaður án fyrirvara en með ábendingu um óvissu um
framtíðarhorfur vegna mikillar skuldsetningar og mikilvægi þess að skuldir
félagsins verði lækkaðar. 



Fjárhagsstaða RÚV

Stjórn RÚV hefur vakið athygli á því að fjárhagsstaða RÚV sé erfið og vandinn
tvíþættur. Í fyrsta lagi er félagið yfirskuldsett eins og staðfest var í
sjálfstæðri úttekt sem PwC vann fyrir stjórn á fjárhag félagsins í vor. Stjórn
félagsins hefur unnið að lausn vandans, m.a. með undirbúningi að sölu eigna til
að létta á skuldum. Hafin er vinna með Reykjavíkurborg við skipulag lóðar
félagsins við Efstaleiti til að hægt verði að selja lóðina og unnið er að
útfærslu á mögulegri sölu á fasteign félagsins. 



Unnið er að nýjum samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið með það að
markmiði að samræmi verði á milli tekna og þess rekstrarkostnaðar sem fellur á
félagið við að standa undir þeirri þjónustu sem samningurinn felur í sér.
Stjórn RÚV hefur óskað eftir því að félagið fái útvarpsgjaldið óskert og fallið
verði frá hugmyndum um að lækka útvarpsgjaldið frá því sem nú er.