2009-04-14 16:46:59 CEST

2009-04-14 16:48:07 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel Food Systems hf. - Fyrirtækjafréttir

Marel Food Systems selur eignir utan kjarnastarfsemi fyrir 37,5 milljónir evra


Marel Food Systems er í fararbroddi á markaði í þróun, framleiðslu og
markaðssetningu á hátæknibúnaði og lausnum til vinnslu á kjúklingi, kjöti og
fiski með um 15% markaðshlutdeild á heimsvísu. Félagið hefur styrkt stöðu sína
á vaxandi markaði með stefnumarkandi yfirtökum á síðustu árum. Framundan er
aukin áhersla á arðsemi og innri vöxt í kjarnastarfsemi  félagsins.  Í samræmi
við það hefur félagið boðað sölu eigna utan kjarnastarfsemi. 

• Þær eignir sem nú eru seldar eru annars vegar fasteignir og lóðaréttindi í
Amsterdam, sem áður tilheyrðu Food & Dairy hluta Stork Food Systems, og hins
vegar Scanvaegt Nordic A/S sem starfar utan matvælageirans. 
• Marel Food Systems notar söluandvirði  til að auka sjóðsstöðu og greiða niður
skammtímaskuldir.  Af 37,5 milljóna söluandvirði eru 35 milljónir evra
staðgreiddar. 
• Söluandvirði eignanna er að fullu í samræmi við upphafleg markmið stjórnenda.
Yfir 10 milljóna evru söluhagnaður bókast við söluna sem nánar verður gerð
grein fyrir við birtingu uppgjörs félagsins 6. maí n.k. 

Marel Food Systems hefur áður tilkynnt að til stæði að selja 2-4 eignir utan
kjarnastarfsemi félagsins á yfirstandandi ári.  Stefnt er að því að afla
samtals yfir 50 milljónir evra, með óverulegum heildaráhrifum á rekstrarhagnað,
sem koma til aukningar á sjóðsstöðu og lækkunar á skammtímaskuldum.  Við sölu
nú fást 35 milljónir evra staðgreiddar. Sala á rekstri Food & Dairy er í
vinnslu auk þess sem sala á 1-2 eignum til viðbótar eru til skoðunar. 

Theo Hoen, forstjóri Marel Food Systems hf:
„Í kjölfar sameiningar Marel og Stork Food Systems á síðasta ári tilkynntum við
að aukin áhersla yrði lögð á að bæta arðsemi og innri vöxt í kjarnastarfsemi. 
Kjarnastarfsemi okkar felst í þjónustu og sölu á hátæknilausnum fyrir
kjúklinga-, kjöt- og fiskiðnað.  Við erum í einstakri stöðu til þess að sinna
þörfum ört vaxandi viðskiptavina okkar á heimsvísu.“ 

Scanvaegt Nordic
Kaupandi Scanvaegt Nordic rekstrarins er Grundtvig fjölskyldan sem stofnaði
Scanvaegt á árinu 1932.  Heildarvelta Scanvaegt Nordic á síðasta ári var
ríflega 31,2 milljónir evra með 2,9 milljónir EBIT hagnað. 

Marel Food Systems keypti Scanvaegt í ágúst 2006 og greiddi stóran hluta
kaupanna með hlutafé.   Meginhluti af starfsemi Scanvaegt er þjónusta við
matvælaiðnaðinn og hefur sá hluti rekstrarins verið sameinaður að fullu Marel
Food Systems. Grundtvig fjölskyldan er í hópi stærstu hluthafa Marel Food
Systems og hefur stutt félagið til frekari vaxtar.  Eignarhlutur Grundtvig
Invest er 10,6% í Marel Food Systems og situr Lars Grundtvig í stjórn
félagsins. 

Lars Grundtvig:
„Við viljum styðja við áframhaldandi vöxt Scanvaegt Nordic.  Við þekkjum
reksturinn mjög vel og vitum að stjórnendur þess eru öflugir.  Á sama tíma
munum við halda áfram að vera lykilhluthafar í Marel Food Systems.  Fjölskyldan
hefur verið þátttakandi í framleiðslu og sölu á lausnum fyrir matvælaiðnaðinn
allt frá stofnun Scanvaegt árið 1932.  Við teljum að Marel sé í einstakri stöðu
til þess að njóta góðs af vexti matvælaiðnaðarins og þannig skapa aukið
hluthafavirði.“ 

Fasteignir í Amsterdam
Marel Food Systems hefur selt fasteignir við Ketelstraat í Amsterdam, en þar
var áður rekstur Food & Dairy hluta Stork Food Systems BV.  Starfsemi Food &
Dairy hefur þegar verið flutt í annað húsnæði í Amsterdam.  Salan fór fram með
lokuðu útboði þar sem nokkrir valdir fasteignafjárfestar tóku þátt. 

Söluandvirði eignanna, sem innifela fasteignir, lóðir og leigusamninga, eru í
fullu samræmi við væntingar stjórnenda Marel Food Systems, að teknu tilliti til
staðsetningar, ástands eignanna og ríkjandi efnahagsástands.