2013-02-19 17:09:40 CET

2013-02-19 17:10:41 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Sláturfélag Suðurlands svf. - Annual report (is)

Ársreikningur 2012


Afkoma ársins 2012



  -- Tekjur ársins 9.394 mkr. en 8.451 mkr. árið 2011.
  -- 463 mkr. hagnaður á árinu á móti 1.179 mkr. árið áður.
  -- EBITDA afkoma var 980 mkr. en 924 mkr. árið 2011.
  -- Eiginfjárhlutfall 50% í árslok 2012 en 46% árið áður.



Samstæðuársreikningurinn samanstendur af ársreikningi Sláturfélags Suðurlands
svf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf. 

Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á árinu 2012 var 463 mkr. skv.
rekstarreikningi.  Árið áður var 1.179 mkr. hagnaður en þá voru gengistryggð
lán félagsins leiðrétt.  Eigið fé er 3.140 mkr. og eiginfjárhlutfall
samstæðunnar er 50%. 

Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 9.394 mkr. árið 2012, en
8.451 mkr. árið áður og hækka því um 11%.  Aðrar tekjur voru 53 mkr en 58 mkr.
árið áður. 

Vöru- og umbúðanotkun var 4.903 mkr. en 4.344 mkr. árið áður.  Launakostnaður
hækkaði um tæp 9%, annar rekstrarkostnaður hækkaði um rúm 11% og afskriftir
lækkuðu um rúmt 1%.  Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var
692 mkr., en 633 mkr. árið áður.  Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir
(EBITDA) var 980 mkr.  en var 924 mkr. árið áður. 

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 171 mkr., en fjármunatekjur umfram
fjármagnsgjöld voru 731 mkr. árið áður.  Leiðrétting gengistaps lána og vaxta
nam 1.027 mkr. á árinu 2011 og var hún tekjufærð meðal fjármagnsliða og
skattaáhrif 205 mkr. færð til gjalda meðal skatta í rekstrarreikningi. 
Gengishagnaður nam 8 mkr. samanborið við 129 mkr. gengistap árið áður. 

Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um 29 mkr. en árið áður um 40
mkr.  Reiknaður gjaldfærður tekjuskattur er 87 mkr. en reiknaður tekjuskattur
var til tekna að fjárhæð 224 mkr. árið áður.  Hagnaður af rekstri ársins var
463 mkr. en 1.179 mkr. árið áður. 

Veltufé frá rekstri án vaxta og skatta var 973 mkr. árið 2012 samanborið við
906 mkr. árið 2011.  Heildareignir Sláturfélagsins 31. desember 2012 voru 6.308
mkr. og eiginfjárhlutfall 50% en 46% árið áður.   Veltufjárhlutfall var 3,8
árið 2012, en 3,0 árið áður. 

Fjárfest var á árinu fyrir 378 mkr. í varanlegum rekstrarfjármunum en 167 mkr.
árið áður. Seldar voru eignir fyrir 11 mkr.  og einnig var seldur 30%
eignarhluti í Ísfugli ehf. og hafði salan um 48 mkr. jákvæð áhrif á rekstur
félagsins á síðari árshelmingi 2012. 

Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2012 var í aprílmánuði greiddur
15,2% arður af B-deild stofnsjóðs alls 27 mkr. og reiknaðir 15,2% vextir á
A-deild stofnsjóðs alls 38 mkr. 

Stjórn Sláturfélagsins samþykkti á stjórnarfundi í dag að hafa sem viðmiðun að
greiða samtals einn þriðja af afkomu móðurfélagsins af reglulegri starfsemi
eftir skatta og fyrir reiknaða hlutdeild í afkomu dótturfélags og
hlutdeildarfélaga til eigenda og félagsmanna. Ef jafna þarf tap eða leggja
framlög í lögbundna sjóði kemur það til frádráttar. Þessi þriðjungur skiptist í
arð þ.m.t. arð vegna verðbóta til B deildar, vexti til A deildar og uppbót á
afurðaverð liðins árs. Arður til B deildar og vextir á A deild greiðast skv.
samþykktum félagsins en það sem á vantar að þriðjungi af afkomu sé náð verður
greitt sem uppbót á afurðaverð. Með þessum hætti er ætlunin að tengja enn betur
en verið hefur ávinning bænda sem skipta við félagið við afkomu félagsins er
vel gengur. 

Stjórnin staðfesti endurskoðaðan ársreikning félagsins á stjórnarfundi í dag. Á
stjórnarfundinum var ákveðið að greiða þann 22. febrúar n.k. af hagnaði ársins
2,8% uppbætur á afurðverð vegna innleggs á árinu 2012, alls 47 mkr. 

Sláturfélagið er skráð á First North markaðinn hjá NASDAQ OMX.  Sláturfélagið
birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti. 



Aðalfundur

Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands verður haldinn föstudaginn 22. mars n.k. 
Stjórn félagsins mun þar leggja til að greiddur verði 14,5% arður af B-deild
stofnsjóðs, þar af verðbótarþáttur 4,5%, alls 26,1 mkr. og reiknaðir 7% vextir
á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs, alls 19,8 mkr. 



Staða og horfur

Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er mjög sterk með 50% eiginfjárhlutfall og
veltufjárhlutfall 3,8. Sala á eignarhlut í Ísfugli á árinu 2012 styrkti
lausafjárstöðu félagsins enn frekar. Endurfjármögnun langtímaskulda félagsins á
árinu 2011 hefur jákvæð áhrif á fjármagnsliði samstæðunnar til lengri tíma auk
þess sem árleg greiðslubyrði lána er lág miðað við greiðslugetu félagsins. 

Aðhald í rekstri og fjárfestingum hefur skilað sér í bættri afkomu og góðri
fjárhagsstöðu félagsins. Til að styrkja enn frekar stöðu félagins er
nauðsynlegt að beita áfram aðhaldi í rekstri auk þess að nýta vel tækifæri til
vaxtar með vöruþróun og aukinni sókn á markaði fyrir vörur félagsins. 

Innanlandssala kjöts hefur verið vaxandi undanfarin ár og má þakka það
viðsnúningi í þjóðfélaginu og auknum fjölda ferðamanna. Gert er ráð fyrir að
innanlandssala kjöts aukist um 4-5% á árinu. Á erlendum mörkuðum eru aðstæður
mjög misjafnar. Í heild er verðlækkun umfram verðhækkun sem stafar af lækkun í
krónum. Sala til Asíu og Rússlands er mjög vaxandi og von til þess að í vor
verði lokið fríverslunarsamningi við Kína sem skapar mikil tækifæri til
aukinnar sölu á verðmesta hluta lambakjötsins svo og aukaafurðum. 

Rekstrarskilyrði kjötiðnaðar bötnuðu á árinu þar sem dregið hefur úr
kostnaðarhækkunum á erlendum rekstrarvörum. Horfur hafa þó versnað vegna
veikingar krónunnar á síðari hluta ársins 2012.  Sterk staða lykil vörumerkja
ásamt vöruþróun skapa þó áframhaldandi skilyrði til vaxtar og bættrar afkomu. 

Matvöruhluta innflutningsdeildar hefur tekist vel að viðhalda sterkri stöðu í
helstu vöruflokkum innfluttrar matvöru.  Tekist hefur að koma á nýjum
viðskiptasamböndum sem gefa möguleika til vaxtar á næstu árum. Sala á tilbúnum
áburði til bænda er vaxandi hluti í starfsemi félagsins ásamt innflutningi á
kjarnfóðri. Aukin áhersla á helstu búrekstrarvörur bænda skapa skilyrði til
sóknar á þeim markaði. 





Frekari upplýsingar veitir:

Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000 - steinthor@ss.is

Hjalti H. Hjaltason, fjármálastjóri í síma 575 6000 - hjalti@ss.is