2016-03-30 23:30:00 CEST

2016-03-30 23:30:00 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Vátryggingafélag Íslands hf. - Hluthafafundir

Framhaldsaðalfundur í Vátryggingafélagi Íslands hf. þann 6. apríl 2016.


Aðalfundur VÍS fór fram miðvikudaginn 16. mars sl. Tveir karlkyns einstaklingar
drógu framboð sín tilbaka við upphaf fundarins og var þar með einungis einn
karlkyns einstaklingur í framboði en fjórir kvenkyns einstaklingar. 

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um hlutafélög og 3. mgr. 19. gr. samþykkta
félagsins skal hlutfall hvors kyns í stjórn félagsins eigi vera lægra en 40%.
Þar sem einungis einn karlkyns einstaklingur var í framboði til aðalstjórnar
var orðið ljóst að niðurstaða stjórnarkjörs gat ekki orðið í samræmi við
fyrrgreint lagaákvæði og ákvæði samþykkta félagsins. 

Að tillögu fundarstjóra ákvað aðalfundur að fresta dagskrárlið nr. 6 um
stjórnarkjör í félaginu til framhaldsaðalfundar. Var stjórn falið að boða til
framhaldsaðalfundar sem skyldi haldinn innan 3 – 4 vikna frá aðalfundinum og
auglýsa eftir nýjum framboðum, sbr. 2. málsl. 5. mgr. 19. gr. samþykkta
félagsins. 

Stjórn VÍS boðaði þann 16. mars sl. til framhaldsaðalfundar sem haldinn verður
miðvikudaginn 6. apríl nk. kl. 17:00 í höfuðstöðvum VÍS að Ármúla 3, 108
Reykjavík. Eina mál á dagskrá þess fundar er kosning stjórnar. 

Frestur til að tilkynna um ný framboð til stjórnar á stjorn@vis.is lýkur fimm
dögum fyrir framhaldsaðalfundinn, föstudaginn 1. apríl 2016, kl. 16:00.
Framboðseyðublað má finna á vefsíðu félagsins. Upplýsingar um frambjóðendur til
stjórnar verða lagðar fram hluthöfum til sýnis í höfuðstöðvum félagsins eigi
síðar en tveimur dögum fyrir framhaldsaðalfundinn. 

Stjórnarkjör skal jafnan vera skriflegt ef tillögur koma fram um fleiri
stjórnarmenn en kjósa skal. Ekki verður hægt að greiða atkvæði með rafrænum
hætti á fundinum. 

Hluthafar geta einnig látið umboðsmann sækja fundinn fyrir sína hönd.
Umboðsmaður skal leggja fram skriflegt og dagsett umboð. 

Aðilar sem eru eignaskráðir hluthafar í hlutaskrá skv. hlutaskrárkerfi
félagsins þegar fundurinn fer fram geta beitt réttindum sínum á fundinum. 

Hluthafafundurinn er lögmætur án tillits til fundarsóknar ef hann er löglega
boðaður. 

Fundargögn verða afhent á fundarstað og eru þau á íslensku en hluthafafundurinn
fer einnig fram á íslensku. 

Nánari upplýsingar um réttindi hluthafa á fundinum má finna á vefsíðu
félagsins, www.vis.is/fjarfestar.