2009-10-23 18:44:36 CEST

2009-10-23 18:45:46 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Nýherji hf. - Ársreikningur

- Uppgjör Nýherja hf. fyrir þriðja ársfjórðung 2009


Uppgjör Nýherja hf. fyrir þriðja ársfjórðung 2009     

Helstu niðurstöður fyrir níu mánuði ársins 2009

•	EBIDTA hagnaður nam 107 mkr á þriðja ársfjórðungi

•	Góð afkoma af nýjum hugbúnaðarverkefnum erlendis

•	Rekstur Applicon félaga í Danmörku og Svíþjóð er stöðugur

•	Heildarafkoma í ársfjórðungnum var neikvæð um 107 mkr, en var neikvæð um 258 
         mkr árið á undan

•	Áform um útgáfu á nýju hlutafé

Þórður Sverrisson, forstjóri:

„Viðsnúningur varð á rekstri Nýherja hf. í þriðja ársfjórðungi frá því sem
verið hefur síðustu þrjá ársfjórðunga. EBITDA hagnaður nam 107 mkr og nálgast
að vera áþekkur því sem var í öðrum og þriðja ársfjórðungi 2008. Sala á búnaði
og lausnum á Íslandi jókst eftir því sem leið á tímabilið, sem gefur varfærnar
vísbendingar um betri horfur í sölu á rekstrar- og tækniþjónustu. Nýherji hefur
lagt þunga áherslu á að lækka rekstarkostnað á árinu sem hefur skilað sér í
bættri afkomu eftir því sem liðið hefur á árið og mun áframhaldandi aðhald
styrkja rekstrarafkomu í fjórða ársfjórðungi. 

Rekstur Applicon félaga í Danmörku og Svíþjóð er stöðugur og horfur viðunandi
þrátt fyrir samdrátt í efnahagslífi landanna, en um þriðjungur tekna
samstæðunnar kemur frá starfsemi erlendra dótturfélaga. 

Markaðsstaða fyrir hugbúnaðarþjónustu og ráðgjöf á Íslandi hefur kallað á að
kannað sé með tækifæri erlendis. Applicon ehf. og TM Software ehf., dótturfélög
Nýherja í hugbúnaðarþjónustu, hafa brugðist við miklum samdrætti innanlands með
því að leita markvisst eftir verkefnum erlendis og er nú svo komið að yfir
þriðjungur tekna þessara félaga kemur af verkefnum fyrir erlenda aðila.
Nýherjasamstæðan hefur markað þá stefnu að fjölga enn frekar verkefnum erlendis
fyrir ráðgjafa og tæknimenn samstæðunnar, meðal annars með því að nýta góða
markaðsstöðu dótturfélaga í Danmörku og Svíþjóð. 

Sem lið í að styrkja fjárhagsstöðu Nýherja hf. hefur stjórn félagsins ákveðið
að hefja undirbúning að útgáfu og sölu á nýju hlutafé.“ 


Rekstrarniðurstaða fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2009

Fyrstu 9 mánuðir ársins -Lykiltölur (Sjá viðhengi)


Sala á vöru og þjónustu nam 10.339 mkr fyrstu 9 mánuði ársins 2009, samanborið
við 10.918  mkr á sama tímabili árið áður. Sala hefur því dregist saman um 5,3%
á milli ára. Tekjur starfseminnar á Íslandi námu 6.960 mkr, en 3.379 mkr hjá
erlendum dótturfélögum. 

Laun og launatengd gjöld námu 4.520 mkr en voru 4.345 mkr fyrir sama tímabil
árið áður. Vegna gengisbreytinga hafa laun erlendra starfsmanna hækkað um 46% í
íslenskum krónum fyrstu níu mánuði ársins 2009 miðað við sama tímabil árið
áður, eða um 648 mkr. Meðalfjöldi stöðugilda fyrstu 9 mánuði ársins 2009 var
598 en var 714 fyrir sama tímabil árið áður. Rekstrarkostnaður var um 1.647
mkr, en var 1.315 mkr yfir sama tímabil í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir
afskriftir, fjármagnsliði og skatta - EBITDA - var neikvæð um 9 mkr á
tímabilinu en EBITDA var jákvæð um 393 
mkr árið áður. 

Hrein fjármagnsgjöld voru 504 mkr í samanburði við 1.058 mkr á sama tímabili
árið 2008. Tap fyrstu 9 mánuði ársins 2009 var 984 mkr en tap fyrstu 9 mánuði
ársins 2008 nam 694 mkr. Heildartap nam 178 mkr, en heildartap fyrir fyrstu níu
mánuði ársins 2008 nam 499 mkr. 

Efnahagsreikningur 30.09 2009- Lykiltölur (Sjá viðhengi)

Heildareignir í lok tímabilsins voru 10.058 mkr samanborið við 9.952 mkr í lok
ársins 2008. Langtímaskuldir hafa lækkað frá árslokum úr 2.669 mkr í 2.379 mkr.
Skammtímaskuldir hafa hækkað frá árslokum úr 5.319 mkr í 5.895 mkr. Eigið fé í
lok september 2009 var 1.785 mkr og er eiginfjárhlutfall nú 17,8% en var 19,7%
um síðustu áramót. 


Rekstrarniðurstaða á þriðja ársfjórðungi 2009

Fjórðungsyfirlit - Lykiltölur (Sjá viðhengi)

Sala á vöru og þjónustu nam 3.301 mkr á þriðja ársfjórðungi, samanborið við
3.664 mkr á sama tímabili árið 2008. Tekjur hafa dregist saman um 9,9% frá
þriðja ársfjórðungi 2008. 

Laun og launatengd gjöld námu 1.357 mkr en voru 1.426 mkr fyrir sama tímabil
2008. Heildarfjöldi stöðugilda í lok tímabilsins var 628 en var 721 fyrir sama
tímabil í fyrra. Vegna gengisbreytinga hafa laun erlendra starfsmanna hækkað um
43% í íslenskum krónum milli þriðja ársfjórðungs 2008 og 2009, eða um 197 mkr. 
Rekstrarkostnaður var 527 mkr á þriðja ársfjórðungi en var 361 mkr á sama tíma
á árinu 2008. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta -
EBITDA - var jákvæð um 107 mkr á tímabilinu en EBITDA var jákvæð um 125 mkr á
sama tímabili fyrir árið 2008. 

Hrein fjármagnsgjöld voru 171 mkr í samanburði við 389 mkr á þriðja
ársfjórðungi 2008. Heildartap í fjórðungnum nam 107 mkr en heildartap á þrðja
ársfjórðungi í fyrra nam 258 mkr. 


Yfirlit yfir rekstur í þriðja ársfjórðungi

Hugbúnaðarsala hjá Nýherja hf. var vel yfir áætlun í þriðja ársfjórðungi og
talsvert betri miðað við sama tímabil í fyrra. Sala á netþjónum er lítillega
undir áætlunum, enda hefur orðið umtalsverður samdráttur á markaðnum milli ára.
Þá hefur eftirspurn dregist saman í tölvu- og samskiptabúnaði. Sala á
rekstrarvörum og aukabúnaði fyrir fyrirtæki hefur verið ágæt og vaxið eftir því
sem liðið hefur á árið en sala á prentlausnum er minni en ráð var fyrir gert.
Afkoma Nýherja móðurfélags var jákvæð en undir áætlum. 

Rekstur Sense ehf., sem er sérhæft í hljóð- og myndlausnum og rekur Sony Center
og Sense Center í Kringlunni, gekk vel. Sala á neytendabúnaði, svo sem frá
Canon, Sony og Vivanco, hefur verið stöðug á árinu. Þá hefur ræst úr
verkefnastöðu hjá tækniþjónustu félagsins á Íslandi og erlendis og eru horfur
fyrir fjórða ársfjórðung ágætar. 

Jákvæður viðsnúningur varð hjá tækni- og rekstrarþjónustufyrirtækinu Skyggni
ehf. á þriðja ársfjórðungi. Verkefnum fjölgaði eftir því sem leið á tímabilið,
eftirspurn jókst eftir ýmis konar sérlausnaþjónustu, svo sem í
hagræðingarverkefnum. Þá hóf Skyggnir að bjóða kerfisveituþjónustu í Danmörku í
samstarfi við systurfélagið Dansupport og eru vonir bundnar við að verkefnið
skili árangri á fjórða ársfjórðungi. Bætt afkoma í lok þriðja ársfjórðungs
gefur tilefni til þess að ætla að afkoma á fjórða ársfjórðungi verði
ásættanleg. 

TM Software ehf. hefur lagt áherslu á verkefni erlendis í ljósi þess samdráttar
sem hefur orðið í sölu hugbúnaðarverkefna á Íslandi. Hraður samdráttur og erfið
rekstrarskilyrði hér hafa haft þær afleiðingar að tap er í ársfjórðungum.
Aukning í verkefnum erlendis er þó komin á það stig að seinni hluti þriðja
ársfjórðungs gefur væntingar um að botninum sé náð og hæg uppbygging og jákvæð
rekstrarafkoma sé framundan. Rekstur EMR ehf, dótturfyrirtæki TM Software, sem
sérhæfir sig í heilbrigðistengdri upplýsingatækni, var góður á tímabilinu en
fyrirtæki og stofnanir í heilbrigðisþjónustu á Íslandi hafa í auknum mæli nýtt
upplýsingatækni frá EMR til að ná fram hagræðingu í sinni starfsemi. 

Tvíbent markaðsstaða fyrir hugbúnaðarþróun hefur haft áhrif á rekstur Vigor
ehf., sem hefur brugðist við breyttum aðstæðum með lækkun á rekstrarkostnaði,
sem áætlað er að skili betri afkomu á fjórða ársfjórðungi. Vigor, sem selur
alhliða viðskiptahugbúnað, hefur sterka stöðu í þjónustu fyrir flest stærri
orkufyrirtæki landsins. 

Ágætur hagnaður var af starfsemi Applicon ehf. á þriðja ársfjórðungi, en það
tímabil er jafnan erfiðast í rekstri fyrirtækisins. Skipulagsbreytingar, á
fyrri helmingi ársins, og öflug sölustarfsemi hérlendis og erlendis hafa skilað
sér í lægri kostnaði og bættri verkefnastöðu. Tekjur voru umfram væntingar,
einkum vegna verkefna erlendis yfir sumarmánuðina. Tæplega helmingur af
þjónustutekjum í ársfjórðungnum byggja á nýjum verkefnum fyrir erlenda
viðskiptavini, og er  verkefnastaða og horfur fyrir fjórða ársfjórðung góðar. 

Góður gangur var í starfsemi dótturfélaga Nýherja í Danmörku og Svíþjóð. Tekjur
hjá Applicon í Danmörku voru ágætar í ársfjórðungnum en félagið hefur sterka
stöðu á danska markaðnum og er unnið að því að afla frekari verkefna hjá stærri
fyrirtækjum þar í landi. Ekki hefur verið vöxtur á dönskum
upplýsingatæknimarkaði á þessu ári,  en áætlanir greiningaraðila gera ráð fyrir
að vaxtartímabil hefjist á næsta ári. Rekstur Applicon í Svíþjóð er samkvæmt
áætlun. Félagið hefur að undanförnu unnið verkefni fyrir nokkra af stærstu
bönkum Norðurlanda; Nordea, Swedbank og Handelsbanken. Horfur um afkomu í
fjórða ársfjórðungi eru ágætar. Náið samstarf Applicon félaganna í Danmörku,
Svíþjóð og á Íslandi hefur skilað sér í nýjum verkefnum, svo sem hjá ING
bankanum í Hollandi og Nationwide bankanum í Bretlandi. 

Dansupport hefur unnið að því að lækka rekstarkostnað sem hefur skilað sér í
bættri afkomu á þriðja ársfjórðungi. Þar er verkefnastaðan þokkaleg og gert ráð
fyrir að afkoma verði jákvæð á fjórða ársfjórðungi. 

Horfur
Náðst hefur viðsnúningur í rekstrarafkomu Nýherjasamstæðunnar með mikilli
lækkun kostnaðar, kröftugri sölustarfsemi og bættri nýtingu ráðgjafa og
tæknimanna. Stefnt er að betri rekstrarafkomu í fjórða ársfjórðungi 2009 og eru
horfur á næsta ári jákvæðar. 


Fjárhagsdagatal fyrir 2009:
Áætluð birting árshlutauppgjörs fyrir árið 2009.

Fjórði ársfjórðungur:	29. janúar

Samþykkt árshlutareiknings
Árshlutauppgjör fyrir þriðja ársfjórðung 2009 var samþykkt á stjórnarfundi
Nýherja hf. 23. október 2009. Árshlutauppgjör Nýherja hf. er gert í samræmi við
alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS-International Financial Reporting
Standards). Þýðingarmunur erlendra dótturfélaga er nú tilgreindur í yfirliti um
heildarafkomu árshlutareiknings í samræmi við ákvæði alþjóðlega staðalsins. 


Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar veitir:
Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja, í síma +354 893 3630.

Nýherji hf.
Hlutverk Nýherja hf. er að skapa viðskiptavinum sínum virðisauka með þekkingu
starfsmanna á upplýsingatækni, rekstri fyrirtækja og þörfum viðskiptavina.
Nýherji býður fyrsta flokks ráðgjöf og fagþjónustu á sviði upplýsingatækni og
vandaðan tölvu-, skrifstofu- og hugbúnað ásamt traustri tækni- og
rekstrarþjónustu. Félög Nýherja samstæðunnar í rekstri eru 20 bæði hér heima og
erlendis og er heildarfjöldi stöðugilda 628. Hlutabréf Nýherja hf. eru skráð í
OMX Kauphöll Íslands. 

Stjórn Nýherja: Benedikt Jóhannesson, stjórnarformaður, Árni Vilhjálmsson og
Guðmundur Jóh. Jónsson. Þórður Sverrisson er forstjóri Nýherja.